19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

8. mál, Landsbókasafn

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þetta frv. kom fram, er sú, að okkur var bent á það í ráðuneytinu af ýmsum mönnum, sem kunnugir voru störfum landsbókasafnsins og háskólabókasafnsins, að þörf væri á því að samræma nokkuð störf þessara tveggja safna þannig, að hvort um sig vissi, hvað hitt gerði, og reyna að nota það fjármagn, sem söfnin hefðu yfir að ráða bæði, svo, að það kæmi að sem beztu gagni. Síðan var sett n. til að undirbúa þetta og til að athuga, hvort lögfesta skyldi verkaskiptingu fyrir söfnin, en hún var þeirrar skoðunar, að erfitt væri að setja fastar reglur um þetta, en lagði til, að ný löggjöf yrði sett um Landsbókasafnið, sem hér liggur fyrir frv. um, og að tvenns konar samvinna væri höfð milli safnanna. Í 7. gr. frv. er talað um að halda uppi sérstakri skráningarmiðstöð fyrir bæði söfnin, og þar er ætlazt til, að menn geti glögglega séð, hvað er til í þeim hvoru um sig, svo að menn geti átt aðgang að hinu safninu, ef það, sem leitað er að, er ekki til í því safninu, sem fyrst er leitað til. Í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að landsbókasafnið fái ráðunauta frá háskólaráði til stuðnings við bókakaup til safnsins, til þess að samræma vinnubrögð beggja safnanna. Þetta er ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið.

Hæstv. dómsmrh. minntist á 8. gr., þar sem talað er um starfsmennina við safnið. Ég vil taka það fram, sem ekki hefur komið fram hjá honum, að í frv. stendur, að menntmrh. skipi allt að 6 bókaverði. Því er ekki slegið föstu, að þeir eigi að vera 6, heldur að þeir megi mest vera 6, en það eru þeir nú. Þetta var því sett í frv., svo að hægt væri að fækka þarna, ef menn kæmust að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri mögulegt. Reynslan er sú, að útþensla hefur orðið þarna og víðar, þó að ákvæði séu um þetta í l. Ég hef ekkert á móti því, að frv. sé látið bíða enn, — þó að það að vísu sé búið að þvælast lengi í d., — til þess að hægt verði að athuga þetta nánar í sambandi við þá sparnaðarviðleitni, sem uppi er. Ég hef ekki fengið neinar till. frá sparnaðarn. viðkomandi landsbókasafninu, en það hefði mátt búast við, að þetta væri eitt af því, sem sú n. gerði till. um. Við vildum hafa þetta svona, að sett væri í frv., að bókaverðirnir skyldu vera allt að 6, til þess að hægt væri að spara þarna, ef menn vildu það, en ef mönnum finnst þetta of bindandi, er ég ekki á móti því, að frv. sé enn látið biða, svo að séð verði, hvort hægt er að veita þarna frekara aðhald, en nú er gert í frv. Menn ættu þá ekki að þurfa að eyða meiri tíma í að ræða þetta nú, nema menn vildu ræða eitthvað, sem kæmi sérstaklega að gagni við þessa athugun.