09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

8. mál, Landsbókasafn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég þakka n. fyrir þær upplýsingar, sem hún hefur gefið, og sýna þær, eins og við mátti búast, að ekki er með öllu ástæðulaust, að sú aukning starfsmannafjöldans hefur átt sér stað, sem talin hefur verið upp. En hins vegar kemur berlega í ljós, að hægt ætti að vera að komast af með mun færri menn en þar er ætlazt til. Sérstaklega virðist óþarfi að hafa tvo menn yfir þeim innan við 10 hræðum, sem sækja safnið að morgni til og að kvöldi til. Ég hreyfði aths. við þetta mál hér í upphafi í þeim tilgangi að vekja á því athygli, að þegar talað er um að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn, væri þarna gott dæmi um það, hvernig rekstrarkostnaður hefði aukizt í stofnun, sem ekki væri að neinu leyti sérstæð, og væri auðveldara að tala um að draga úr þessum kostnaði, en að gera það í framkvæmd. Þessar upplýsingar sanna það, sem ég fyrst hélt fram í þessu efni. Ég álít, að ef þingið hefði sparnaðarvilja, mætti draga úr kostnaðinum umfram það, sem hér er bent á samkv. þessu frv.