09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

8. mál, Landsbókasafn

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég mótmæli því algerlega, sem hv. 1. þm. N-M. hefur látið sér um munn fara, að aldrei hafi verið gefnar upplýsingar um málið fyrr en í dag, þó að ekki hafi legið fyrir sú skýrsla, sem frsm. las, fyrr en nú. Strax við 2. umr. málsins skýrði ég frá því, að ég hefði átt tal við landsbókavörð viðvíkjandi tölu bókavarða. Og þær upplýsingar, sem ég gaf þá þegar, eru þær sömu og nú liggja fyrir, og það eru sex bókaverðir við safnið fyrir utan landsbókavörð og hefur verið nú um sinn. Hins vegar er alls ekki rétt, að hér sé um neina fjölgun embætta að ræða, eins og legið hefur við, að haldið hafi verið fram í þessu máli. Hér er aðeins um staðfestingu á ríkjandi ástandi að ræða. Ég hygg, að fjárveiting til landsbókasafnsins hafi um tvö ár verið byggð á þessari starfsmannafjölgun. Og frv. miðar ekki fyrst og fremst að því að ákveða tölu bókavarða. Það eru aðrir hlutir, sem ákveðnir eru með því.

Hv. þm. sagði, að meðferð málsins væri nákvæmlega sú, sem ætti ekki að vera um nokkurt mál. Ég mótmæli þessu. Ég álít, að menntmn. hafi athugað þetta mál eins vel og n. hafa athugað mál í þinginu og eins vel og þær n., sem hv. þm. kann að vera formaður í.

Hv. þm. Barð hefur komið með till. um, að bókaverðirnir verði 4. Ég er hræddur um, að jafnvel þótt maður vildi vera með öllum skynsamlegum sparnaði, þyrfti nýja athugun á því, hvernig landsbókasafnið skyldi starfa, þannig að fá þyrfti, að ýmsu leyti nýjar starfsreglur, ef þetta yrði samþ. Ég er ekkert sérstaklega að mótmæla því, en það er nú svona, að samkv. núgildandi l. eiga bókaverðir við landsbókasafnið að vera tveir, en þeir eru sex vegna þarfa þeirra starfa, sem þar eru unnin, og þar af leiðandi efast ég dálítið um gagnsemi þess að samþ. till., nema settar væru um leið nýjar reglur um starfsemi safnsins, sem gerðu þetta mögulegt.

Menntmrh. er ekki hér viðstaddur, og væri þó eðlilegt, að hann hefði sitt að segja um þetta mál, og væri e.t.v. ekki rétt að afgr. málið, þó að það hafi oft verið tekið af dagskrá, fyrr en hann gæti sagt hér álit sitt.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, að mér fannst undarleg þessi árás hv. 1. þm. N-M. á þessa n., sem um mál þetta hefur fjallað, og ómakleg.