09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

8. mál, Landsbókasafn

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hélt, að það væri ætlun d. að afgr. þetta mál eftir þetta þóf í allan vetur, og í trausti þess tók ég hina sjálfsögðu brtt. mína aftur hér áðan. En nokkru síðar er borin fram brtt. um málið, og sannfærðist ég þá um, að ástæðulaust hefði verið af mér að taka till. mína aftur, því að þetta gerði mér ljóst, að hér eru til þm. í d., sem hafa hug á því að bregða fæti fyrir málið með einhverju móti.

Það hefur verið talað um, að upplýsingar um málið hafi komið of seint frá menntmn., svo að þdm. hafi ekki gefizt kostur á að koma með neinar brtt. eða taka afstöðu fyrr en skýrsla sú var birt, sem hv. frsm. las upp áðan. En ég vil minna á það, að þegar menntmn. fjallaði um þetta mál snemma í vetur, kallaði hún til sín landsbókavörð og bókavörð háskólabókasafnsins, ræddi við þá um málið og fékk hjá þeim tæmandi upplýsingar um starf beggja safnanna, bæði um hugsanlega samstarfsmöguleika þeirra, hvernig unnt væri að draga úr óþarfa bókakaupum með samstarfi, starfsmannahald og hvort hægt væri að sameina söfnin, sem þeir töldu ekki vera hægt, nema byggð yrði ný bókasafnsbygging fyrir bæði söfnin sameiginlega. Ég held, að allar þessar upplýsingar og mörg atriði hafi verið upplýst hér af form. n. og frsm., og enginn dm. hefur þurft að vera í vafa um, hvernig þetta mál lægi fyrir. Það er því einhver tilhneiging að setja aðra til skrifta, sem kemur fram á síðustu stundu. Sízt hafði ég búizt við því, að hv. þm. Barð. bæri fram slíka till. nú, því að ef hann hefði talið fært að reka bókasafnið með færri mönnum á t.d. síðasta fjárhagsári, hefði hann látið það til sín taka í fjvn. Hvers vegna hefur ekki hv. þm., síðan hann varð form. fjvn., komið með till. um það, að ekki starfi við landsbókasafnið nema 2, 3 eða 4 menn? Þetta hefur þm. ekki gert og virðist ekki gripinn af þessum sparnaðaranda fyrr en nú. En aðalatriðið er þetta: Er þetta gert til að sýnast á síðustu stundu, eða fylgir þessu alvara? Það er ekki um að villast, að 6 menn eru nú með embættisveitingu við safnið, og vil ég spyrja dómsmrh.: Telur hann fært í framkvæmd að reka í sparnaðarskyni menn, sem hafa embættisveitingu fyrir sínu starfi, frá starfi fyrirvaralaust? Og ég vil spyrja form. fjvn.: Telur hann fært að leggja til nú þegar á þessum fjárl., að kostnaður við safnið sé miðaður við 4 starfsmenn, en ekki 6? Er hægt á næstunni að draga þarna saman seglin og koma við sparnaði? Ég gæti hugsað mér að leita samkomulags við þessa embættismenn, en get ekki séð, að af því mundi leiða fljótlega mikill sparnaður. Eins og tekið hefur verið fram, hafa forstöðumenn safnanna beggja, háskólabókavörður og landsbókavörður, lýst því yfir, er þeir voru kallaðir fyrir n. til þess að veita upplýsingar, að þeir teldu að óbreyttum kröfum til safnanna ekki hægt að hafa þar færri menn. Þvert á móti mætti rökstyðja, að í rauninni þyrfti meiri starfskrafta, ef ekki ætti að setja til hliðar nauðsynleg störf við söfnin. Þeir töldu sér því nauðsynlegt að óbreyttum starfsháttum að hafa heimild til þess mannafla, sem nú starfar við söfnin.

Ég vil að síðustu endurtaka það, sem ég sagði, að ég held, að þær upplýsingar, sem nú hafa verið staðfestar með skriflegri skýrslu frá landsbókaverði, hafi legið fyrir í glöggri skýrslu form. og frsm. n. við framhaldsumr. n. hér. Það er því orðinn langur meðgöngutími hjá hv. þm. Barð., að hann skuli fyrst núna koma með þessa sparnaðartill. sína, eingöngu til þess að bregða fæti fyrir setningu þessarar löggjafar, sem nú liggur fyrir og er þó nauðsynleg viðvíkjandi þeirri stofnun, sem hér á hlut að máli.