12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

190. mál, fjáraukalög 1945

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað þetta frv. til fjáraukalaga, og við athugun hefur það komið í ljós, að það voru í því nokkrar töluskekkjur, sem teknar voru til leiðréttingar á þskj. 711. Með þeim leiðréttingum leggur n. til, að þetta frv. verði samþ.

Það þarf í raun og veru ekki mikið meira um þetta að segja. Ég vil samt geta þess, að það er leitt, að það skuli koma fram í svona frv. slíkar töluskekkjur sem hér er um að ræða, því að þær benda til þess, að vinna að undirbúningi þess hafi ekki verið í því lagi, sem vera ber.

Þá vil ég einnig nota tækifærið til þess að taka undir það með þeim hv. þm., sem hafa fyrr og síðar lýst yfir, hvað þeir teldu mikla óreiðu á því, hvað landsreikningar og allt slíkt er seint fram komið. Við erum hér á þessu ári með ríkisreikninginn fyrir 1945 og þá einnig fjáraukalög fyrir 1945. Það er komið á fjórða ár síðan þessir hlutir gerðust, þegar við erum hér með þessi mál. Það hefur því raunverulega ekki þýðingu, þó að einhver vilji um þessi mál tala nú. Þetta er liðið og fyrnt. — Það út af fyrir síg mætti segja, að það sé nokkuð athyglisvert, að þessi fjáraukalög eru upp á 50–60 millj. kr. fyrir sama tíma sem ég hygg, að fjárlagafrv. hafi verið samþ. upp á rúml. 100 millj. kr. Nú þýðir ekkert um þetta að ræða. Þetta er bara dæmi um það, sem við vitum, að hér er á hverju ári ekki svo mjög farið eftir fjárlögum hvers árs, heldur er ýmislegt annað látið ráða — sem sagt að of lítið tillit er tekið til þess, sem samþ. er á Alþ. í þessum efnum.