12.05.1949
Sameinað þing: 72. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

190. mál, fjáraukalög 1945

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Í sambandi við það, sem hv. frsm. fjvn. sagði um þetta frv., og þar sem hann réttilega vakti athygli á því, að hér er um fjáraukalög að ræða fyrir árið 1945 upp á nærri 57 millj. kr., sem eru greiðslur fram yfir það, sem fjárlög þessa sama árs gerðu ráð fyrir, þá er rétt að benda á það, að þetta m.a. er vottur þess, að sú greiðslurausn og þær greiðsluskyldur, sem hæstv. Alþ. hefur lagt ríkissjóði á herðar, eiga sér lengri aldur ,en varðandi það tímabil einvörðungu, sem núverandi ríkisstj. hefur farið með völdin á. Það er að vísu svo langt komið með fjárlagaafgreiðslu fyrir næsta ár, að ég býst ekki við, að þar verði neinu verulegu um þokað. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er greinileg bending um það, að þessar þarfir og þessar kröfur á ríkissjóðinn jafnvel langt umfram það, sem í fjárlögum er tekið til greina hverju sinni, eiga sér rætur mörg ár aftur í tímann. Og enn er það svo, að margs háttar lagafrv. eru meðhöndluð og samþ. af hæstv. Alþ., sem heldur þessum málum í sama farveginum að þessu leyti. Og má segja, að þetta frv. til fjáraukalaga sé rödd til aðvörunar, þó að orsakirnar megi rekja lengra, en til dagsins í dag eða til þess tíma, sem þetta hæstv. Alþ. hefur setið, sem sé rödd til aðvörunar fyrir hæstv. Alþ. í þessu efni gagnvart því að setja stöðugt fram ýmiss konar löggjöf, sem knýr fram gjöld og greiðslur úr ríkissjóði. — Þetta vildi ég sagt hafa um leið og ég þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu þessa frv.