09.12.1948
Efri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var til 2. umr. hér, kom fram till. í d. um það, að frv. yrði breytt þannig, að ákveðið yrði, að tekjum þeim, sem ríkissjóður fær vegna frv., yrði varið til brúargerða, lagt í sérstakan brúasjóð, og fyrst skyldi þessum sjóði varið til að byggja brú yfir Jökulsá í Lóni. Fyrir hönd fjhn. óskaði ég eftir, að þessi till. yrði tekin aftur til 3. umr., til þess að n. fengi tækifæri til að athuga till. nánar. Hv. flm. féllst á þetta, og nú, milli 2. og 3. umr., hefur fjhn. athugað till. Á fundi, sem n. hélt í morgun, var ákveðið að mæla gegn því, að þessi till. yrði samþ. Á þessum fundi voru ekki mættir nema 3 af nm., hv. þm. Barð., hv. þm. Dal. og ég, en 2 nm. voru fjarverandi, og er því ekki kunnugt um afstöðu þeirra til málsins.

Ástæðan fyrir því, að meiri hl. fjhn. mælir gegn því, að þessi till. verði samþ., er fyrst og fremst sú, að n. telur, að ef ætti að fara að verja þessu fé í sérstakan brúasjóð og ákveða að byggja ákveðnar brýr fyrir féð, þá þyrfti auðvitað að fara fram sérstök athugun á því, í hvaða röð þessar brýr skyldu byggðar. Þarf það mál talsvert mikinn undirbúning og meiri en nú liggur fyrir. Hér við bætist og það, að Alþ. hefur sjálft athugað þetta mál nokkuð í sambandi við afgreiðslu fjárl. og dregið ákveðna linu um það, í hvaða röð stórbrýrnar skuli byggðar. Hefur þegar verið veitt nokkuð fé í þessu skyni til nokkurra stórbrúa á landinu, og er brúin yfir Jökulsá í Lóni ekki á meðal þeirra. Ef farið væri því að lögfesta þessa brú með þessum l., þá væri með því farið í gagnstæða átt við ákvarðanir, sem Alþ. hefur tekið áður. Mundi slíkt og valda miklum átökum og væri líklegt til að setja frv. í hættu, ef að því ráði væri horfið. Til enn betri glöggvunar á málinu ákvað fjhn. að senda málið til vegamálastjóra og fá hans till. um, hvernig við þessari brtt. skyldi snúast. Hefur n. nú nýverið borizt umsögn vegamálastjóra, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp úr umsögninni það, sem máli skiptir hér. Vegamálastjóri segir svo:

„Alþingi hefur þegar ákveðið, að nokkrar stórbrýr skuli ganga fyrir brú á Jökulsá í Lóni, sérstaklega á Þjórsá, Hvítá hjá Iðu, Skjálfandafljót í Bárðardal, Blöndu hjá Löngumýri og fleiri brýr, sem nokkurt fé hefur þegar verið veitt til í fjárlögum. Með tilliti til þess vil ég ekki mæla með brtt. á þskj. 48, um að 5 aura innflutningsgjaldinu verði varið til brúargerðar á Jökulsá í Lóni.“

Meira er það ekki, sem hann segir um þetta mál. (PZ: Hvað segir hann fleira?) Hann segir ekki meira um till. sjálfa. Hann afsakar aðeins dráttinn á því að skrifa ekki fyrr, og þar með er hans máli lokið. Annars liggur bréfið hér til athugunar fyrir hv. þm. Með tilvísun til þessarar umsagnar vegamálastjóra og þeirra atriða, sem ég hef bent á hér, mælir sá hluti n., sem mætti á fundinum í morgun, gegn því, að þessi brtt. nái fram að ganga, og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom frá hæstv. ráðh.