05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. n. fyrir störf hennar í málinu og vil taka það fram, að ég er ekki síður óánægður út af þeim seinagangi, sem á hefur orðið, að reikningurinn væri prentaður, en ástæðurnar fyrir þessu eru á fleiri en einum stað, en þó er það mest hjá endurskoðuninni. En ég hef orðið var við þennan seinagang á fleiri stöðum varðandi upplýsingar, sem ég hef þurft á að halda og ég hef beiðzt, t.d. hjá ríkisbókhaldinu.

Í morgun kom skrifstofustjórinn að máli við mig út af prentun á reikningunum. Þannig er ástatt í prentsmiðjunni, að 1946-reikningarnir eru búnir að liggja þar svo mánuðum skiptir. Mér datt því í hug, hvort ekki yrði að reyna að koma þeim í prentun annars staðar, en Gutenberg ber það aðallega fyrir sig að hún hafi haft svo mikið að gera að undanförnu, einkum fyrir Alþingi. Ég tek undir það, að þessi seinagangur er ekki góður, en ég hef gert tilraunir til þess að flýta útgáfu reikninganna og mun nú gera enn meir en áður, en það getur leitt til þess, að fjmrn. verði að snúa sér til annarrar prentsmiðju, þegar prentunin hefur tafizt um marga mánuði í ríkisprentsmiðjunni. Þessa vildi ég láta getið við afgreiðslu málsins.