05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt ríkisreikningurinn sé forngripur á alla kanta, því að hann er alltaf gamall reikningur, þegar hann er lagður fyrir Alþingi, þá langar mig samt til að fá að vita, hvað nefndin hefur gert gagnvart þeim athugasemdum, sem gerðar hafa verið við hann af yfirskoðunarmönnum þeim, er Alþingi kýs, en einn endurskoðandinn á sæti hérna í deildinni, 1. landsk. þm. Yfirskoðunarmennirnir hafa gert við hann athugasemdir, og sumum svörum ríkisstj. vísa þeir „til aðgerða Alþingis.“ Það er því skylda n., þegar málinu er vísað til hennar, að hún taki þær til athugunar og leggi til við Alþ., hvað eigi að gera; og mér finnst ekki vera hægt að afgreiða þetta án þess að n. hafi athugað athugasemdirnar og látið í ljós allt sitt um þær og lagt til við Alþingi, hvað gera skuli. Endurskoðunarmennirnir eru kosnir af Alþ., og þess vegna vil ég fá að heyra það, hvað n. ætlast fyrir með þetta, hvort hún ætlast til með þessu að segja, að þetta sé gott og blessað, og lofa því að vera alveg eins áfram eins og hingað til.