07.05.1949
Neðri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. n. tók fram, þá er þetta frv. um samþykkt á ríkisreikningnum 1945 seint á ferð. Ég hef áður fundið að því sleifarlagi, sem verið hefur á þessu undanfarið. Ég tel það mjög óviðeigandi, að nú á árinu 1949 skuli fyrst vera gengið til fulls frá ríkisreikningnum 1945. Ef nokkurt lag væri á þessu, þá ætti að vera búið að samþykkja reikningana frá 1946 og 1947 núna.

Ég vil þá gera hér að umtalsefni nokkur atriði í reikningnum. Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar við hann af yfirskoðunarmönnum Alþ., og geta menn sjálfir skoðað svör ríkisstj. við þeim. Nokkrum atriðum hefur verið vísað til Alþ., án þess að n. hafi gert nokkrar till. þar um. En það eru nokkur önnur atriði, sem ég vildi gera hér að umtalsefni. Á eignahlið efnahagsreiknings er meðal annars talið til eigna, í V. lið 12, ábyrgðalán kr. 963.041.34. Þetta eru útistandandi skuldir hjá 13 aðilum. Stærstu upphæðirnar eru hjá vátryggingarfélögum vélbáta 266.900 kr., Tunnuverksmiðjum 246 þús. kr., Húsavikurhöfn 111.759 kr. og Skagastrandarhöfn kr. 99.839.13, og síðan eru nokkrir smærri liðir. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það, og ef til vill geta yfirskoðunarmennirnir gefið um það einhverjar upplýsingar, hvernig gengur með innheimtu á þessum kröfum, sem samtals nema kr. 963.041.34. Við það að lesa yfir reikninginn hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að það eru ýmsar vafasamar eignir teknar upp í eignahlið efnahagsreiknings ríkisreikningsins, t.d. veitti ég því athygli, að meðal útistandandi skulda í V. lið, 22. undirlið, er fé, sem lagt hefur verið út vegna clearingviðskipta kr. 716.656.32 og verðjöfnunar á kolum kr. 159.470,40, talið til eigna ríkissjóðs. Þessar eignir voru jafnháar á ríkisreikningnum 1944, og ég hef jafnvel heyrt, að þær standi enn óbreyttar. E.t.v. hafa endurskoðendur athugað, hvort þarna er um raunverulegar eignir að ræða.

Við yfirlesturinn varð ég líka var við ósamræmi og skekkjur, en ég skal aðeins nefna tvo liði, sem ég kom auga á. Samkvæmt reikningi kreppulánasjóðs á bls. 109 telur hann með eignum sínum óhafið ríkissjóðstillag, kr. 343.444.42. Nú hefði átt að færa þetta sem skuld á reikning ríkissjóðs, en sú upphæð finnst þar ekki, og virðist mér því eign hans vera oftalin sem því nemur.

Á bls. 111–112 er sérstakur reikningur fyrir Fiskimálasjóð. Þar er talin eign hjá ríkissjóði kr. 2.445.166.58, en á ríkisreikningi er talin skuld við sjóðinn aðeins kr. 85.860.96. Þarna skakkar því um 2 millj. og 360 þús. kr., sem Fiskimálasjóður telur sig eiga hjá ríkinu, en ríkið ekki talið skulda sjóðnum samkvæmt reikningnum. Séu þessar tvær upphæðir lagðar saman, þá nema þær um 2 millj. og 700 þús. kr., eftir því sem ég fæ bezt séð. Ég hef komið auga á þetta við lauslegt yfirlit yfir reikninginn, en ég sé ekki, að yfirskoðunarmennirnir hafi gert neina athugasemd við þetta ósamræmi, sem þarna er. En það er æskilegt, að reikningurinn sé réttur, þegar hann loks kemur eftir 3–4 ár frá því að honum á að vera lokað.

Ég hef skrifað með fyrirvara undir nál., og hef ég nú gert grein fyrir því, hvers vegna ég hafði þann fyrirvara. Að vísu er það fleira, sem ástæða væri að ræða í sambandi við þennan reikning, eins og t.d. miklar umframgreiðslur, en á þessu ári hafa gjöldin farið 40% fram úr áætlun fjárlaga, en um það þýðir víst lítið að ræða, úr því sem komið er.