07.05.1949
Neðri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins nokkur orð. — Út af því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um milIifærsluna, þá er það alveg rétt, að eftir því sem talið er á eignareikningi ríkisins, þá telur ríkið sig þarna eiga það, sem þessari upphæð nemur meiri eign. Ég þori ekki að segja um það, en ég get hugsað, að ríkið greiði þessar upphæðir til sjóðanna, en taki þær svo til frádráttar á sínum reikningi og þar færist á milli, sem ekki á að vera. Þetta viðurkenni ég alveg.

Hv. 2. þm. Rang. vék að því, að sér virtist, að ríkisreikningurinn fyrir 1947 gæti verið tilbúinn, þar sem honum hefði verið lokað í haust í október. Ég segi ekki, hvað kann að vera mögulegt, en ég held, að þá mættu þeir, sem það verk ættu að vinna, ekki gefa sig mikið að öðru, ef þeir ættu á svo stuttum tíma að ganga í gegnum allt, sem þar til heyrir, þar sem ekkert er við að styðjast. Það kann ég ekki við hjá þeim hv. þm., sem tala um, að við eigum að virða að vettugi, þó að við höfum gert það, lagaákvæði, sem okkur ber að fara eftir í okkar starfi, að við eigum að halda áfram með það. Það er fráleitt, að hin umboðslega endurskoðun geti á örstuttum tíma farið yfir reikninga allra stofnana, eftir að reikningum er lokað. Bæði nú og áður höfum við byrjað endurskoðun áður en reikningarnir hafa legið prentaðir fyrir. Hitt er ekki hægt, að skila reikningnum, fyrr en hann liggur prentaður fyrir og hægt er að bera hann saman við fylgigögn og niðurstöðutölur. Það er sá prentaði reikningur, sem yfirskoðunarmennirnir verða að svara til, hvernig ástatt er um. Og hvað áhrærir ríkisreikninginn 1947, þá er ekki enn búið að prenta hann. Það er ekki okkar mál, en ég segi hér frá staðreynd. Fyrir 1948 er hægt að athuga ýmis frumgögn og bera saman ýmislegt, en það er ekki hægt að yfirgefa þetta verk, fyrr en maður hefur aðstöðu til að bera saman niðurstöðutölur við ríkisreikninginn, eins og hann er prentaður. En það er hægt að flýta fyrir sínu verki, og það höfum við gert, eftir því sem við höfum frekast aðstöðu til.

Ég ætla svo, að ég þurfi ekki frekar að fjölyrða um þetta. Ég tek undir þær óskir, sem fram hafa komið, að ríkisreikningurinn verði framvegis snemmbúnari, en nú er, því að það er það eina rétta. Það er það, sem þarf að vera, að reikningurinn komi sem allra fyrst fyrir þingið, upp á alla hluti, sérstaklega ef þingið vill láta eitthvað til sín taka þær greiðslur, sem fram hafa farið.