07.05.1949
Neðri deild: 103. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

158. mál, ríkisreikningar 1945

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. hefur nægar afsakanir á reiðum höndum og telur fjarstæðu að láta sér detta í hug, að ríkisreikningur, sem lokað væri í október, gæti nú legið fyrir þinginu til samþykktar í apríl. Ég bið hv. þm. að virða mér til vorkunnar. Ég er ekki svo gamall og reyndur, að ég geti skilið, að ekki skuli nægja sex mánuðir til þessarar endurskoðunar. Bið ég hann að fyrirgefa mér mitt þekkingarleysi.

Ég skal svo láta útrætt um þetta. Ég heyri, að það eru nógar afsakanir fyrir þessum drætti. Það er sama og komið hefur fram á hverju einasta þingi, þegar um reikninginn hefur verið rætt, og er þá ekki um annað að ræða en sætta sig við það. Hinu vil ég mótmæla, sem fram kom hjá hv. þm. V-Húnv., að þetta hefði orðið svona, þegar Sjálfstfl. tók við fjármálastjórninni. Það er eins og fjmrh. hafi þetta á hendi, hvernig endurskoðunin gengur. Skyldu það ekki vera sömu menn, sem vinna í rn. að endurskoðuninni og bókhaldinu 1938 og síðan? Það er barnalegt að slá þessu fram. Ég held, að hv. þm. V-Húnv. láti sér ekki detta það í hug, þó að hann segi þetta. Það er í fyrsta skiptið, sem hann hefur fært fram þessa ástæðu fyrir drættinum.