09.12.1948
Efri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Aðeins nokkrar athugasemdir við ræðu 8. landsk. Háttv. flm. brtt. getur sætt sig við framlengingu á umræddum l., svo að það mál út af fyrir sig er ekki ágreiningsatriði, en svo vill hann um leið fá ákveðið af Alþ., að fé það, sem fæst vegna l., verði veitt til byggingar á brú yfir Jökulsá í Lóni. Á fundi n. var meiri hl. samþ. því, að frv. væri samþ. óbreytt, og taldi ekki rétt að taka umrædda brtt. upp í þetta frv. (BrB: Ég var ekki á fundi í n.). Það er rétt, enda tók ég það fram, að ekki hefðu allir verið mættir, en meiri hl. hefði skilað umræddu áliti. Aðalefni brtt. er það, að byrjað verði á að brúa Jökulsá í Lóni. Nú efa ég ekki, að það er mikil þörf á að byggja brú á Jökulsá, en hins vegar hafa allir orðið sammála um, að meiri þörf væri á byggingu Þjórsárbrúar, sem nú er hafin og það með sérstakri fjárveitingu á fjárlögum, en þó ekki talið fært að veita féð í einu lagi. Það virðist vera eðlilegast eins og með byggingu Þjórsárbrúar, að Alþ. ákveði hverju sinni, hvað mikið fé það getur lagt til slíkra stórbrúa, og taki þá um leið ákvörðun um það, hvar þörfin er mest, og þess vegna taldi n. ekki rétt að taka þessa brtt: í frv.

Annað er það, ef þessi till. væri samþ., þá mætti búast við fjölda brtt. með kröfum um nýjar brýr hingað og þangað, sem vissulega eru nauðsynlegar, en varla heppilegt að blanda slíkri lagasetningu inn í þetta mál. Þá má benda á, að till. um brú á Jökulsá í Lóni hefur áður verið til umr. í d., en ekki fengizt samþ. Ef nú væri farið að endurnýja brúasjóð, þá mundi það varla fara á annan veg, en að ítrekaðar væru þær samþykktir, sem gerðar hafa verið á Alþ. Hins vegar gæti það tafið þetta mál og jafnvel stofnað því í hættu að hnýta brúasjóð við það. — Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meir.