25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og þegar er komið fram, hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara og flyt brtt. á þskj. 549, og er sú brtt. byggð á þeirri skoðun, að ekki sé rétt að ætla Menntaskólanum í Reykjavík stað í framtíðinni þar, sem hann stendur nú. Það hefur réttilega verið tekið fram af formanni n., að mál þetta hafi verið sent skipulagsstjóra ríkisins og skipulagsstjóra Reykjavíkur til umsagnar, en því miður hef ég ekki bréf þeirra við höndina, því að þau eru í fórum hv. 2. þm. Árn., en það hefði verið fróðlegt að hafa þau við höndina til þess að vitna í þau. En ég get hins vegar fullyrt, að í umsögnum beggja þessara manna lýstu þeir sig andvíga viðbótarbyggingum við menntaskólann á þeim lóðum, sem hér er um að ræða, sem vegna legu sinnar er ekki heppilegur staður í framtíðinni fyrir menntaskólann. Hins vegar er ég ekkert á móti því, að ríkið keypti þessa lóð fyrir þolanlegt verð eða tæki hana eignarnámi, því að það er gott að hafa hana, þegar ríkið þarf á þessu að halda. Þess vegna mun ég greiða atkv. með frv., ef samþykkt verður brtt. mín, en ég er andvígur þeirri skoðun, sem fram kom hjá form. n., að með þessu væri ekki verið að binda bygginguna, því að ég tel fyrirsögn frv. og 1. gr., þar sem sagt er „fyrir Menntaskólann í Reykjavík“, ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að með því sé ákveðið að láta byggja fyrirhugaðar byggingar skólans þarna, og tel ég því þessi orð form. n. ekki hafa við rök að styðjast.

Ég ætla svo ekki að fara að orðlengja þetta frekar, en það hefur verið rætt mikið um það undanfarið í sambandi við annað mál, hvort rétt sé að ætla menntaskólanum stað í framtíðinni þar, sem hann nú er, en ég tek það aðeins fram, að ég mun fylgja frv., ef brtt. mín verður samþykkt, en annars ekki sjá mér fært að fylgja því.