25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. n. fyrir afgreiðslu þessa máls. Út af orðum hv. 8. landsk. vil ég segja nokkur orð.

Það hefur lengi legið fyrir áætlun um að byggja nýtt hús fyrir Menntaskólann í Reykjavík, og man ég ekki, hvað áætlað var, að sú stofnun mundi kosta, en hér var um allstóra stofnun að ræða. En áætlað var, að hún mundi kosta svo mikið fé, að ljóst var, að ekki mundi vera hægt að svo stöddu að leggja í slíkar byggingar, heldur þyrfti til þess langan tíma, eins og í pottinn er búið. Þá hefur það og komið til mála að flytja hann brott af þeim stað, sem hann er nú, og í því sambandi hafa komið till. um að hafa tvo menntaskóla í stað þessa. Þessar uppástungur hafa verið teknar til athugunar í rn., og hefur niðurstaðan orðið sú, að rn. hefur ekki séð sér fært að láta byrja byggingu á svo stórum skóla. Hins vegar sér rn. sér heldur ekki fært að standa aðgerðalaust og vill því reyna að fara þá leið, að byrjað verði að byggja á þessum lóðum viðbótarbyggingu fyrir menntaskólann og nýtt íþróttahús í stað þess gamla. Hugmyndin er sú að koma þessum húsum þannig fyrir, að þau gætu orðið hluti af heilsteyptri byggingu menntaskólans, sem þarna risi í náinni framtíð, ef horfið yrði að því ráði að hafa skólann þar, sem hann nú er, eða þá hluti af annarri opinberri byggingu, ef skólinn yrði fluttur. Þetta er hugmyndin, og þær till., sem hér eru til umr., eru miðaðar við þetta, og ég er sannfærður um það, að ef þetta verður samþykkt, þá er hér um að ræða eina leið til þess að leysa skólann úr þeirri sjálfheldu, sem hann hefur verið í, og þetta er leið, sem engan veginn lokar þeirri leið að færa skólann síðar, ef það þykir heppilegra, og enn fremur að hafa tvo skóla, ef það þykir hyggilegt, en það er engan veginn hægt að láta málið standa í þeirri sjálfheldu, sem það er í. VII ég því mælast til þess, að hv. þdm. geti fallizt á að fylgja frv., eins og meiri hl. n. leggur til.