13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram vegna þess og byggt á því, að byggja þurfi viðbótarbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík, en til þess að svo megi verða, þurfi ríkið að eignast lóðir og lóðarhluta, sem greint er í 1. gr. frv.

Ég skal ekki rekja sögu þessa máls eða rökin fyrir því, en aðeins geta þess, að menntmn. er sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. Einn nm. gerir þó fyrirvara og flytur brtt. á þskj. 736.

Að sjálfsögðu telur n. sjálfsagt, að áður en til eignarnáms kemur, verði samningar reyndir til ýtrasta og að þeim, sem af þessum ástæðum missa íbúðir, verði veitt nauðsynleg fyrirgreiðsla til að eignast íbúðir, fjárfestingarleyfi og annað slíkt.

Ég þarf ekki að hafa um þetta mál fleiri orð, en legg til, að málinu verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.