13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

134. mál, eignarnám lóða í Reykjavík

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég er vissulega ekkert á móti því, að ríkið eignist þær lóðir, sem lagt er til í þessu frv. En ég tel alveg misráðið, ef á að fara að endurbyggja menntaskólann á þeim stað, sem hann er nú. Ég er sannfærður um, að þetta er ekki heppilegur framtíðarstaður fyrir aðalmenntaskóla landsins, Menntaskólann í Reykjavík, og ég er ákaflega hræddur um, að ef horfið yrði að því ráði að gera þær framkvæmdir, sem hæstv. ríkisstj. hefur ráðgert í sambandi við þetta frv., þá yrði þar í senn að ræða um kák eitt og mjög fjárfrekar framkvæmdir. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, hvernig þessar lóðir liggja, sem ætlazt er til, að séu teknar eignarnámi og notaðar til þess að bæta húsakost menntaskólans. Það er lóð nr. 7 við Bókhlöðustíg og lóð nr. 2 C við Amtmannsstíg, sem er áföst við lóð nr. 7 við Bókhlöðustig, og 4 A við Amtmannsstig. Samkvæmt þessu verða þær lóðir, sem menntaskólinn þannig eignast, þannig settar, að þær liggja sumpart við Bókhlöðustíg og sumpart við Amtmannsstíg. En svo kemur inn í þessar lóðir ríkisins eins og eyja lóð við K.F.U.M. og enn fremur lóðin nr. 2 við Amtmannsstíg.

Mér skilst, að meiningin með þessu öllu sé að reisa leikfimihús fyrir menntaskólann, væntanlega á lóðinni nr. 4 við Amtmannsstíg. Nú er þess að geta, að alveg nýlega hefur verið varið stórfé til að endurbæta og jafnvel endurbyggja hið gamla leikfimihús skólans. Nú er ráðgert, að þetta hús skuli hverfa, en þar og á lóðinni nr. 7 við Bókhlöðustíg á að rísa upp ný bygging, sem mér skilst, að sé hugsuð sem liður í framtíðarbyggingu fyrir menntaskólann. Ég er sannfærður um, að þetta verður klastur eitt. Það verður ákaflega óeðlileg skipun, a.m.k. á menntaskóla, þegar búið er að láta hann mynda hálfhring utan um húseign og lóð K.F.U.M. og húseignina og lóðina á Amtmannsstig 2. Sannleikurinn er sá, að ef á að hafa menntaskólann áfram þar, sem hann er, þá nægir ekki að taka þessar lóðir, sem hér um ræðir, honum til handa, það verður einnig að taka lóð K.F. U.M. og Amtmannsstíg 2 og loks 3–4 lóðir upp við Þingholtsstræti. Sem sé, eigi menntaskólinn að vera áfram á sama stað, þarf hann að fá allan reitinn milli Bókhlöðustígs, Þingholtsstrætis, Amtmannsstigs og Lækjargötu. Hér er sem sé verið að stiga hálft spor, kákspor, sem áreiðanlega verður mjög dýrt.

Ég held, að hyggilegast væri að hverfa nú þegar að því að byggja menntaskólasetur á öðrum stað. Mætti nota þetta gamla hús á meðan, og þegar því væri lokið, gæti ef til vill verið þörf fyrir það enn um sinn. En það segi ég og bið hv. þm. að athuga vel, að það er ekki framtíðarlausn í okkar menntaskólamálum að byggja aðalmenntaskóla landsins hús inni í miðbænum, inni í væntanlegu verzlunarhverfi á lóð, þar sem gert er ráð fyrir 6–10 hæða byggingum, þar sem álitið er, að skólar eigi ekki að vera hærri en tvær hæðir eða í mesta lagi þrjár. Þessi staður er á gatnamótum, þar sem verður mjög mikil umferð.

Ég verð að biðja hv. þm. að hafa í hyggju, að það er ákveðið að breikka Lækjargötu mjög mikið, svo að hún verði ein af breiðustu götum bæjarins eða sú breiðasta, sem nú er hugsað um, og er sennilegt, að horfið verði að þeirri framkvæmd þegar á þessu ári. Þetta þýðir það, að mjög veruleg sneið verður tekin af reitnum framan við menntaskólann. Lækjargata á að tvöfaldast að breidd eða meir, líklega um það bil þrefaldast. Þetta þýðir það, að um það bil tvöföld breidd Lækjargötunnar verður tekin neðan af menntaskólatúninu. Þá er einnig ráð fyrir því gert, að Amtmannsstígur verði tengdur Kirkjustræti og Túngötu og framlengdur við Skólavörðustíg og áfram inn á Grettisgötu. M.ö.o., eftir því sem ráð er fyrir gert í bæjarskipulaginu, munu Amtmannsstígur og Lækjargata verða meðal hinna umferðarmestu gatna í bænum. Og það ættu allir menn að sjá, sem eitthvað hugsa um skipulag bæjarins, að á slíkum stað á ekki að byggja menntaskólahús. Á slíkum stað á að byggja stórhýsi, sem til alls annars eru betur fallin en fyrir skóla.

Ég vil ekki eyða tíma d. til að fara inn á fleiri rök. Ég get sem sé vel fallizt á, að ríkisstj. fái heimild til þess að kaupa lóðir á þessum stað, en ekki endilega í því augnamiði að reisa þar menntaskóla. Ég tel tvímælalaust, að þar eigi að rísa upp byggingar, og fer mjög vel á því, að það séu opinberar byggingar ríkisins. En hverjar sem þær verða, þá þarf að bæta við þær lóðir, sem ríkið á þar nú, og miklu meiru en því, sem hér á að gefa heimild til að kaupa. Ég tel, að ríkið ætti að eiga lóðirnar allt upp að Þingholtsstræti, en ekki fyrir skólahús, heldur fyrir aðrar opinberar byggingar, sem eftir eðli sínu eiga að vera í miðbænum við aðalumferðargötu og eiga að vera háreistar byggingar.