08.04.1949
Efri deild: 84. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur orðið síðbúnara en skyldi, og kemur í ljós í athugasemdum, hvað valdið hefur. Eins og kunnugt er, lögðu útgerðarmenn áherzlu á, að stofnaður yrði aflatryggingasjóður, þegar verið var að ráða fram úr erfiðleikum sjávarútvegsins í vetur. Markmiðið með þessari sjóðsstofnun var að forða útveginum frá að þurfa að leita á náðir ríkisvaldsins, þegar illa gengi. En eins og kunnugt er, hefur það verið þrautalendingin, og þó að ég telji, að um of mikið fljótræði hafi verið að ræða, þegar gripið var til þess fyrst, eða á árinu 1945, þá hefur það verið óhjákvæmilegt síðar. Upphafsmaður að þessum ráðstöfunum mun hafa verið þáverandi atvmrh., og vil ég segja, að hann hafi farið nokkuð geyst á stað, en ræði það ekki frekar hér. Kostnaður hefur mikið vaxið undanfarið við útgerðina og einkum þó við hina stærri báta. Þetta hefur valdið því, að áhættan í útgerðinni er meiri en hún hefur áður verið og þó einkum hjá eigendum stærri bátanna. Það má að vísu segja um þessa stærri báta, sem flestir eru Svíþjóðarbátar, að þeir séu góð skip, en einkum á það þó við, ef um verulega síldveiði er að ræða, því að á þorskveiðum afla þeir litlu betur en smærri bátar og skila þar af leiðandi miklu lakari afkomu, vegna þess að þeir eru dýrari í rekstri. Þegar síldveiðin nú hefur brugðizt í nokkur ár og hins vegar dýrtíðin eykst, þá horfir ekki vænlega fyrir þessum bátaútveg, og er fyrirsjáanlegt kreppuástand, ef ekki rætist úr. Í þessum erfiðleikum hefur verið stungið upp á því að stofna þann hlutatryggingasjóð, sem hér liggur fyrir frv. um. Hugmyndina munu Bolvíkingar eiga, en eins og kunnugt er eru þeir mjög framarlega í flokki hvað við kemur hagsýni og myndarbrag í bátaútgerð. Hins vegar er vitað, að 5. þm. Reykv. (SK) flutti frv. um aflatryggingasjóð á 3 þingum, en það frv. fékk ekki afgreiðslu. Aftur á móti var veitt heimild til stofnunar hlutatryggingasjóða 1943, en sú heimild mun ekki hafa verið notuð nema í Bolungavík. Þótti því sýnt eftir reynslunni frá 1943, að ekkert yrði úr slíkum tryggingum, nema sett yrðu lög um málið og aðilar skyldaðir til að taka þátt í slíkum tryggingasjóði. Þetta atriði var til umræðu, þegar vandamál útvegsins voru rædd í vetur, og lofaði ríkisstj. þá að hrinda málinu í framkvæmd, en hins vegar var ekki rætt um einstök atriði, nema helmingur af eignaraukaskattinum skyldi í þennan sjóð renna og var það skv. l. 128 1947. Samkvæmt þessu fól því sjútvmrn. Fiskifélagi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna að semja frv. til laga um sjóðinn, en það frv. mætti mikilli andstöðu og þótti byggt upp sem hér væri um styrktarsjóð að ræða, en ekki tryggingasjóð eins og hugmyndin hafði verið. Þegar sýnt var, hverjar undirtektir frv. þetta fékk, fól rn. alþingismönnunum Birni Kristjánssyni, Hannibal Valdimarssyni og Sigurði Kristjánssyni, ásamt þeim Gunnari Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni, Þorvarði K. Þorsteinssyni stjórnarráðsfulltrúa og Óla Valdimarssyni forstöðumanni reikningaskrifstofu sjávarútvegsins, að semja nýtt frv. um sjóðinn, og hafa þeir samið frv. það, er hér liggur fyrir. Þó ber þess að geta, að Gunnar Þorsteinsson hafði sérstöðu við afgreiðslu málsins og lagðist gegn nokkrum greinum frv. og taldi sig ekki geta samþ. það í heild.

Í frv. var gert ráð fyrir, að í sjóðinn rynni 2% af óskiptum vertíðarafla bátaflotans, og ákveðið, að framlag úr ríkissjóði yrði hliðstætt þar á móti. Rn. færði þennan hundraðshluta niður í 1% og hafði þá hliðsjón af því, að útvegsmönnum yfirleitt þykir nú alveg nóg á sig sett af gjöldum í margs konar prósentum og útflutningsgjöldum, t.d. af sjávarafurðum, og þeir stynja undir tryggingunum, sem þeir verða að greiða vegna hásetanna. Þeir eru yfir höfuð í vanskilum með tryggingarnar af skipunum sjálfum. Og með tilliti til þess fannst mér varla gerlegt að leggja til í fyrstu meðferð, að þessi hundraðshluti væri hærri en eins og rn. hefur sett hann í frv. Og var þessu þess vegna breytt af rn. frá því, sem hv. n. hafði lagt til. Um þetta má náttúrlega deila. Og það er vitaskuld á valdi hins háa Alþ. að gera breyt. á þessu eins og öðru við meðferð málsins. Og svo er framlag ríkissjóðs. Það munar ríkissjóðinn strax mikið, hvort hann þarf að leggja tvær millj. eða fjórar millj. kr. árlega fram í þessu skyni.

Önnur breyt. var á þessu gerð fyrir mitt tilstilli, að leggja til, að dálítill tími gæfist til þess að safna í tryggingasjóðinn, áður en lögin kæmu til framkvæmda sem venjuleg tryggingalög. Og þetta var eiginlega afleiðing af því fyrra, sem ég nefndi, að ég hefði lagt til að breyta, því að þegar maður leggur til, að farið sé hægar í fjárútlátum til þess að koma þessum sjóði á fót, þá er nokkuð rökrétt að leggja til að láta og líða einhvern lítinn tíma, þangað til tryggingin tæki til starfa. Ég held þess vegna, að það sé hér eðlilegt, að ráð sé fyrir því gert, að sem tryggingabótastofnun taki þessi sjóður ekki til starfa þegar í stað, heldur safnist í sjóð þessarar stofnunar eitt ár fyrst.

Yfir höfuð er það sjálfsagt þarft og gott að stofna tryggingasjóð slíkan sem þennan. En ég vil samt sem áður við þetta tækifæri benda á það, að afkoma sjávarútvegsins verður aldrei tryggð, hvorki með þessum sjóði né með neinum öðrum sjóðum, heldur aðeins með því, að staðið sé að útgerðinni bæði með dugnaði og hagsýni og með því að bæði ríkisvaldið og einstakir útgerðarmenn og sjómenn komi sér saman um vinnubrögð og starfsaðferðir í þessum hlutum, sem skapa skilyrði til þess, að slíkur atvinnurekstur geti borið sig. Sá háttur hefur komizt á hér á undanförnum árum, að útgerðarmenn, sem ráða menn á skip, þurfa að tryggja þeim visst kaup, hvernig sem aflast, svokallaða hlutartryggingu eða kauptryggingu. Það má náttúrlega ákaflega margt gott segja um ráðstöfun eins og þessa, meðan henni er haldið innan skynsamlegra takmarka. En þegar út í það er komið, að sjómenn ráði sig á skipin eiginlega aðallega með aflatryggingu fyrir augum, þá er verkunin af þessari ráðstöfun farin að vinna á móti heilbrigðri afkomu skipanna. Það hefur hér frá fornu fari verið þannig, að sjómenn og útvegsmenn hafa orðið að treysta mest á sitt eigið framlag til þess að afla lífsins gæða á þann hátt. Og við það hefur þessi þjóð lifað í mörg hundruð ár. Og þó að segja megi, — og það er ekki efi á því, — að það sé til mikilla bóta, að nokkur trygging sé fyrir því, að þeir, sem ráða sig á skipin, gangi ekki alveg slyppir frá, hvernig sem fer, þá er áreiðanlegt, að tryggingafyrirkomulag í þessum efnum verður að vera innan vissra takmarka, ef atvinnutækin, bátarnir og þeir, sem að þeim standa, eiga að hafa þá tiltrú hjá lánsstofnunum, sem lána til útvegsins, að þeir komist af stað með sín atvinnufyrirtæki. Mér hefur virzt í seinni tíð bóla nokkuð mikið á því, að menn eiginlega einblíni á kauptryggingar, en gefi hinu minni gaum, hvað gera þurfi til þess að gera afkomu bátanna hagstæða bæði fyrir sjómenn og útgerðarmenn.

Ég tel þá, að ég þurfi ekki án sérstaks tilefnis að hafa um þetta lengra mál. Þetta frv. er sett fram sem grundvöllur undir því að innleiða eða lögfesta almennar hlutatryggingar fyrir bátaútveginn. Og eins og n., sem vann að því, hefur skilað því af hendi, þá var það miklu nær því að verðskulda það nafn að heita tryggingafrv. heldur en eins og því var skilað frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands. Varðandi breyt. á þessu frv. er ég vitanlega til viðræðu, og mundi í mörgum tilfellum hafa tilhneigingu til þess að styðjast við álit þeirra manna, sem starfað hafa að undirbúningi málsins fyrir rn. Og að öðru leyti vona ég, að meðferð þess hér í þessari hv. d. geti orðið þannig, að málið fái góðar undirtektir. Ég mælist til þess, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.