04.05.1949
Efri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir að hafa sýnt velvilja í sambandi við þetta mál. — Ég er ekki sammála meðnm. mínum í þessu máli, eins og tekið hefur verið fram, og get ég látið nægja að vitna til nál. míns á þskj. 614. Þau rök, sem þar koma fram, ættu að nægja til að skýra mína afstöðu og þar af leiðandi ekki ástæða til að fara út í hvert atriði sérstaklega á þessu stigi málsins, þar sem ég hef lagt til, að umr. efnislega um málið verði frestað og tími gefinn til að ræða það með sjútvn. Nd. Það hefur þótt rétt að hafa þennan hátt á til þess að reyna að ná samkomulagi um málið. Hins vegar taldi ég rétt, að gefin yrðu út nál., svo að þm. gætu kynnt sér þau sjónarmið, sem fram hafa komið. Sannleikurinn er sá, að n. hefur fimmklofnað í málinu. Frsm. meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og er það ekki nema eðlilegt, þar sem hann hefur unnið að samningu frv. Hins vegar hafa tveir nm. skrifað undir nál. meiri hl., þó að þeir geti ekki fallizt á öll sjónarmið frsm., og er ef til vill ekki víst, hvorum ber meira milli, þessum mönnum eða hinum, sem gefa út sérstakt nál. Vegna þessarar afstöðu til málsins vil ég leyfa mér að óska, að málið verði ekki tafið með miklum umr. á þessu stigi. Ég hygg, að allir séu á einu máli um það, að þessi sjóður verði stofnaður, enda er loforð ríkisstj., að svo verði. Hitt er þá líka ef til vill að deila um keisarans skegg, hvort frv. er samþ. óbreytt eða gerðar á því breytingar, því að lífið hlýtur að kenna mönnum, hvernig heppilegast er að haga. þessu máli, og sennilega er ekki unnt að vanda svo til þessara laga, að ekki þurfi að endurskoða þau og bæta þegar á fyrsta starfsári sjóðsins. Ég mun láta þetta nægja og ekki taka til máls aftur á þessu stigi, nema sérstakt tilefni gefist.