04.05.1949
Efri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera aths. við það, sem fram kom í ræðum tveggja síðustu ræðumanna. Ég ætla aðeins að segja það fyrir hönd okkar nm., sem undirskrifum nál., að við föllumst á það, að málið sé tekið fyrir á sameiginlegum fundi beggja n. þingsins í sjávarútvegsmálum, en hv. form. stakk upphaflega upp á þessum umr. Mér er ljóst, að þetta mál, um að tryggja aflahluta, er ákaflega vandasamt, og við höfum eiginlega ekkert fordæmi fyrir því, af því að engin reynsla er fengin um það. Að vísu voru gefin út heimildarl. fyrir nokkrum árum, sem aðeins voru notuð á einum stað, en sú reynsla er svo lítil, að ekki er mikið hægt á henni að byggja. Ég held, að það geti þess vegna orðið til að flýta fyrir afgreiðslu málsins, að það verði tekið fyrir á sameiginlegum fundi sjútvn. beggja deilda.