05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. fjmrh. er nú vant við látinn, þá langar mig til þess að beina þegar í upphafi spurningu til hans, en ég vil taka það fram, að ég ætlast ekki til þess, að hann svari henni endilega nú strax, því að hann getur auðveldlega gert það síðar, áður en málið er afgr. héðan úr deildinni. Þessi spurning er um það, hvort fjmrh. og ríkisstj. séu reiðubúin til þess að taka á fjárl. yfirstandandi árs þær greiðslur, sem þetta hefur í för með sér fyrir ríkissjóð. Afstaða mín mótast nefnilega nokkuð af því svari, þó að ég sé annars fylgjandi frv., hvort sem það verður eða ekki. Það er gert ráð fyrir því, að stofnfé sjóðsins sé 5 millj. kr., svo að tillag ríkissjóðs gæti orðið 3–4 millj. kr., en þar við bætist árstillag sjóðsins, sem er 1,5 millj. kr., svo að útgjöldin á þessu ári gætu orðið allt að 5 millj. kr. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi svar við þessari spurningu minni, áður en afgreiðslu málsins lýkur, þó að hann svari ekki nú þegar. Þetta mál er vandasamt, og það krefst mikils starfs og erfiðis að gera það þannig úr garði, að það nái sem bezt tilgangi sínum. En ég hygg þó, að allir séu fylgjandi því, að þessi löggjöf verði sett á, því að þetta er ekki nema sjálfsagður liður í nútíma þjóðfélagi í atvinnutryggingamálum, og því ekki nema eðlilegt, að við komum upp stofnun sem þessari til öryggis atvinnuvegum okkar þegar illa árar. Á þessu er alltaf þörf og ekki sízt þegar illa árar og þjóðin stendur höllum fæti fjárhagslega. Það er því heldur engin deila um það, að þessu máli beri að koma fram, heldur stendur deilan um það, hvernig beri að grundvalla þetta, hvernig beri að byggja þetta upp, svo að það verði ekki bara dauður bókstafur.

Ég hallast að meginmáli að þeirri stefnu, sem fram kemur í frv., en ég játa það, að það eru viss atriði, sem ég er í vafa um. Það er t.d. atriði eins og svæðaskiptingin, sem fram kemur í brtt. hv. þm. Barð. En af því að ég er ekki viss um, að hans till. sé neitt betri, þá hef ég ekki getað fallizt á þær, enda þó að ég viðurkenni, að það er ýmislegt í þeim till., sem hægt væri að fallast á. Till. hv. þm. Barð. á þskj. 614 eru sumar alveg til gerbreytingar á frv., svo að ég hygg, eins og hv. 1. landsk. sagði, að það gæti verið erfitt að fella þær inn í frv., svo að deildin væri víss um, að það væri ekki allt saman bæklað eða afskræmt í meðferðinni. Þess vegna hefði það verið langæskilegast, ef hægt hefði verið að útkljá þetta deilumál í nefnd. Ég vil þó geta um eina brtt. á þessu sama þskj., 614. Það er 6. till. við 6. gr., um árlegar tekjur sjóðsins. Í 1. málsgr. þessarar brtt. er gert ráð fyrir því, að í staðinn fyrir 1% af óskiptum afla komi 1/2 % útflutningsgjald af öllum útfluttum sjávarafurðum, öðrum en þeim, sem koma frá botnvörpuskipum, hvalveiðum og selveiðum. Ég skal viðurkenna, að það kann að vera, að ekki sé mikill munur á þessu fyrir aðila, en mér er það ljóst, að á þessu er mikill munur í framkvæmdinni. Það er hinn mesti munur á að innheimta þetta á þann hátt, sem fyrir er lagt í till. á þskj. 614, eða innheimta það hjá einstökum útgerðarmönnum. Ég gæti því léð fylgi mitt slíkri breytingu sem þessari.

Þá er í 2. lið gert ráð fyrir því, að tekið verði 1/2% innflutningsgjald af verðmæti allra innfluttra vara, hverju nafni sem þær nefnast. Þetta mundi þýða það, að þessi skattur, sem gert er í frv. ráð fyrir, að ríkið greiði, sé greiddur af einni stétt manna, nefnilega að innflytjendur greiði þennan skatt. Þetta er ákaflega furðuleg leið að fara inn á í svona stórmáli, að ætla sér að fara að skattleggja eina stétt manna til þess að standa undir þessum l. Hv. flm. þessarar till., hv. frsm. 1. minni hl. n., heldur því sjálfsagt fram, að þessi stétt fái gjaldeyrinn til umráða frá þeim mönnum eða þeirri stétt manna, sem góðs eiga að njóta af lögunum, og því sé þetta ekki nema eðlileg leið. Að vísu er þetta ekki rétt hjá hv. flm., því að gjaldeyririnn er notaður til þess að kaupa fyrir vörur, sem allur almenningur í landinu þarf að fá fluttar inn. En hér er um alveg nýja aðferð að ræða við að skattleggja. Ríkið hefur fram að þessu haft sinn hátt á því að skattleggja menn, og satt að segja efast ég um það, að svona ákvæði fái staðizt vegna ákvæða stjórnarskrárinnar. Þetta er svo fráleit till., að mér finnst það hreint ekki koma til mála að samþykkja hana, því að með því er verið að fara inn á hættulega braut og enginn kominn til með að segja, hvar ætti að nema staðar.

Þá er 8. brtt., á þá leið, að í stofnsjóð skuli árlega leggja 5% af tekjum sjóðsins og ekki megi ganga nær sjóðnum en svo, að eftir sé stofnsjóðurinn þannig óskertur. Ég er í grundvallaratriðum samþykkur þessu, þ.e.a.s. ég mundi ekki vilja láta binda árstekjur sjóðsins við ákveðna fjárhæð og ekki skerða stofnfé hans, því að ef farið yrði inn á þá braut að skerða stofnfé hans, þá væru lítil líkindi til annars, en að sjóðurinn yrði étinn upp á fáum árum og þá yrðu lítil líkindi til þess, að sjóðurinn gæti komizt upp á næstunni. Þess vegna verður að sníða stakk eftir vexti, til þess að hægt sé að mæta skakkaföllum, sem koma kunna. En af því að ég er ekki sammála og get ekki fellt mig við 8. till. á þskj. 614 að öðru leyti, þá hef ég borið fram sérstaka brtt. við þetta atriði, sem orðast svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við 9. gr. Síðasta málsgr. orðist svo: Aldrei má ganga nær sjóðnum en svo, að eftir standi allt stofnfé hans.“ Þá er ekki bundið við vexti eða hundraðshluta.

Varðandi till. á þskj. 619 þykir mér rétt að lýsa því yfir, að ég tel mér ekki fært að fylgja henni, eins og hún er komin fram. Hv. 1. landsk. talaði mikið um það, að hugmyndin með þessu væri eingöngu sú að tryggja launþegana og það næði því ekki nokkurri átt, að þeir færu að greiða í sjóðinn nokkurn hlut með því að láta taka af óskiptum afla. Ég hygg hins vegar, að það gæti orðið nokkur ágreiningur um það, hvort hlutverk sjóðsins sé eingöngu það að tryggja launþegana. Það hljómar að minnsta kosti hálf einkennilega, þar sem launþegarnir eru í 99 tilfellum af hundraði tryggðir með öðrum hætti. Þetta er miklu fremur gert til þess að tryggja atvinnuveg þeirra, svo að þeir geti haldið bátunum í rekstri og eigi það ekki á hættu, að atvinnuvegurinn leggist niður, af því að aflaleysisár gangi svo nærri honum. Ég tel þetta miklu stærra atriði og það er það, sem verið er að tryggja, en það tryggir um leið launþegana, sem eru á bátunum, en kaupið er þeim tryggt, það fá þeir undir flestum kringumstæðum.

Ég hefði getað tekið undir ummæli hv. 1. landsk., að ég teldi mjög æskilegt, að frv. yrði frestað og það undirbúið betur, en eftir því sem hæstv. fjmrh. sagði hér, þá mun hæstv. stj. hafa bundið sig þannig í málið, að hún mun æskja þess mjög eindregið, að frv. nái fram að ganga, og þess vegna tel ég vonlítið að ýta fram þeirri hugmynd, að frv. sé vísað frá nú eða það fellt niður að þessu sinni, þó að ég teldi það mjög æskilegt vegna ýmissa atriða í því, sem flestir, sem um það hafa viljað fjalla, mundu hafa viljað glöggva sig betur á.