05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er mjög í vafa um, hvort það þýðir nokkuð að halda umr. um þetta mál áfram. Umr. eru orðnar langar og málið flókið, og í rauninni fyrir þeim, sem ekki hafa sett sig inn í það, alveg jafnflókið eftir umr. eins og þegar þær hófust. Ég ætla þó að fara um það nokkrum orðum, af því að ég er einn af þeim mönnum, sem á öndverðum þessum vetri voru settir í þann vanda að vinna að því að setja saman þetta frv.

Það er bezt, að ég segi það strax, að þegar við vorum settir í það starf, þá þótti okkur vonlítið, að við dyttum ofan á það að koma því formi á þessi mál, að allir lykju upp einum munni um það, að það væri hin eina rétta leið, sem hefði verið fundin. Við vorum sannfærðir um það strax eftir fyrstu viðtölin, að það væri um svo vafasöm atriði að ræða, að við sáum ekki út úr því lengi vel. Það var á litlu að byggja, og þótt búið væri að gera hverja tilraunina á fætur annarri til að semja frv., þá varð niðurstaðan sú, að enginn vildi líta á neitt af þeim frv., sem samin höfðu verið. Við kynntum okkur frv. það, sem 5. þm. Reykv., Sigurður Kristjánsson, flutti mörg ár í röð, og einnig þau l., sem urðu niðurstaðan af frv. hans. Við fengum líka ýmiss konar skýrslur frá Fiskifélagi Íslands, sem við kölluðum eftir, og hygg ég, að það séu yfirleitt þau gögn, sem fyrir hendi mundu liggja, þó að afgreiðslu þessa máls yrði frestað, þar sem ekki hafa komið fram neinar kröfur um það að safna nýjum skýrslum og undirbyggja þetta mál sérstaklega. Við kynntum okkur svo reglugerðina, sem sett hefur verið á grundvelli l. um hlutatryggingafélög frá 1943, og sú reglugerð er um þá einu framkvæmd, sem á er að byggja hér á landi, sem er hlutatryggingasjóðurinn í Bolungavík, sem starfað hefur í allmörg ár, en það er lítið upplýst niðurstaðan af starfi hans. Hins vegar var vinnuaðstaða okkar sú, að við höfðum nauman tíma til að vinna. Við fengum um það ákveðnar óskir, þegar leið á starfið, að við yrðum að hraða eins mikið og mögulegt væri okkar starfi, og gerðum það einnig, og má vera, að okkur hafi kannske ekki tekizt eins vel að koma frv. saman og ella hefði mátt verða með meiri yfirlegu. Við skiluðum okkar verki í marzmánuði s.l., síðan fór málið til ríkisstj., og hún athugaði það og gerði á því tvær meginbreyt.: Að tekjugrundvöllur sjóðsins væri lækkaður um helming, og að bætur úr sjóðnum yrðu ekki greiddar fyrr en hann hefði starfað í eitt ár. Mér finnst engin lausn að fresta þessu máli, því að ég hygg, að það fengjust engar nýjar skýrslur til að byggja á. En hins vegar þarf, auk þess sem ríkisstj. mun loforði bundin um að koma með frv., svo að fé taki að safnast til þess að leysa þetta hlutverk, að athuga það, það ár sem sjóðurinn ekki starfar, hvernig fé úr honum mundi koma til með að dreifast og að hvaða gagni hann kæmi, bara með því að reikna það út eins og framkvæmdin mundi verða og bera síðan fram breyt. til lagfæringar á því fyrsta ári, sem sjóðurinn kæmi til með að starfa. Ég er þess vegna andvígur því, að frestað sé að afgreiða þetta frv., en tel þó, að það sé eins og hálfstigið spor. Ég tel, að það ætti að ganga frá því með opnum möguleikum að breyta því eftir því, sem reynslan bendir til.

Það fyrsta, sem við þurftum að athuga í n., var þetta: Er heppilegt, að sjóðurinn sé einn og óskiptur fyrir alla íslenzka útgerð? Við komumst að þeirri niðurstöðu, að það væri slíkur reginmunur milli tekjuöflunarmöguleika á þorskveiðum og hallærisins, sem alltaf er annað slagið á síldveiðum, að það yrði að byrja á því að skipta sjóðnum í tvær megindeildir, þorskveiðideild og síldveiðideild. Um þetta virtust allir sammála. Þá voru menn með það, að síldveiðin yrði fyrir svo stórum skellum, að ef ættu að koma að gagni nokkrar bætur til hennar, þá þyrfti að fá meira fé en sjóðurinn gæti lagt til, jafnvel til að bæta upp mestu skakkaföllin. Við komumst þess vegna að þeirri niðurstöðu í okkar frv., að þær álögur, sem verða lagðar á síldveiðarnar, fari í sjóð síldveiðanna, og þær álögur, sem verða lagðar á þorskveiðarnar, komi í sjóð þorskveiðanna. Þá var okkur það ljóst eftir fyrstu samtölin í n., að það gæti verið aflaleysi við Faxaflóa, þó að mjög góður afli væri á Vestfjörðum, eða það gæti verið aflaleysi á Austfjörðum fleiri ár, þó að góður afli væri í Vestmannaeyjum, Faxaflóa og á Vestfjörðum. Af þessu þótti okkur augljóst, að þorskveiðideildin mætti ekki starfa í einni sameiginlegri deild, því að þegar almennur aflabrestur væri á Austfjörðum, þá þyrftu að koma bætur þar og aðstoð úr sjóðnum, þó að þorskveiðarnar yfir allt landið væru ekki neðan við 75% af meðalaflamagni í landinu. Það virðist líka viðurkennt, að þetta sé rétt, það þurfi að vera svæðaskipting, að því er þorskveiðarnar snertir, og komi til bóta úr sjóðnum, þá sé það miðað við meðalaflamagn á ákveðnu svæði. Sumir segja, að það sé ekkert sameiginlegt milli tveggja verstöðva og þurfi því að reikna út meðaltal fyrir hverja verstöð, og mér skilst; að till. hv. þm. Barð. gangi inn á það. Í n. komu fram ýmsar till. um það, hvernig ætti að skipta þorskveiðisvæðunum, og niðurstaðan varð sú, sem hér liggur fyrir í frv. En ég gæti sætt mig við það, að ekki væri slegið neinu föstu um að ákveða svæðin, heldur verði það reglugerðarákvæði síðar.

Þegar við töluðum um það, hvaða afvik frá meðalafla væru hæfileg, að því er snertir þorsk- og síldveiðar, til þess að réttlæta bætur, þá ræddum við um það, hvort hægt væri að bæta strax að einhverju leyti úr sjóðnum, ef t.d. aflamagnið væri 90% af meðalafla. En við komumst brátt að þeirri niðurstöðu, að þá þyrfti sjóðurinn geysilegar tekjur, ef hann ætti að inna af hendi nokkrar verulegar bætur. Við gerðum okkur enn fremur ljóst, að skellirnir, sem útgerðin hefur orðið fyrir, eru svo gífurlegir, að jafnvel hinn sterkasti sjóður mundi tæmast á einu ári, ef síldveiðin ætti að fá bætur við jafnlítil frávík frá meðalafla eins og þorskveiðarnar. Þess vegna urðum við að sætta okkur við það ákvæði, að á síldveiðum væri ekki farið að bæta neitt skakkaföll neðan við meðalafla, nema það væri 65%, eða 35% fyrir neðan meðalafla. Hvor tveggja þessi ákvæði, 65% og 75% sem hámark áður en til bóta kemur, eru miðuð við, að það sé ekki hægt að ákveða það hærra nema meira fé komi í sjóðinn strax. Ef menn vilja hækka þessi takmörk og hafa síðan bótastigann öllu hærri, eins og fram er komin till. um, en afla sjóðnum ekki meira fjár en við gerðum, þá er það aðeins ómerkilegur óskaseðill þeirra manna, sem vilja fá fögur orð á pappírinn, en eru ekki að hugsa um framkvæmdina. Það er því tilgangslaust að ganga frá frv. á þennan hátt. Það hafa komið fram aths. um það, að öllum síldveiðiskipunum skuli ekki eiga að veita bætur úr sjóðnum, t.d. ekki þeim, sem stunda veiðar með reknet eða landnætur. Þetta stafar eingöngu af því, að til þess að geta ákveðið bætur úr þessum sjóði, þarf að vera hægt að ná meðaltali einhverja normalvertíð. Reknetaveiðin er um allt land ígripaveiði, sem stunduð er mjög skamman tíma, og er ekki um neina ákveðna vertíð að ræða og því vafasamt, hvort hægt er að fá út nokkurt meðaltal, sem unnt væri að miða bæturnar við, og alveg það sama má segja um veiði í landnót. Þar sem um er að ræða slíka ígripaveiði á þorskveiðum, þá væri ekki um að ræða slíkar bætur eða meðalútreikninga fyrir ákveðnar verstöðvar, heldur verður að miða bæturnar við fullan úthaldstíma.

Eitt af stóru vandamálunum hjá okkur í n. var það, við hvað ætti að miða meðaltalsútreikninginn. Við fundum það út, að sveiflurnar eru stórkostlegar á síldveiðunum. Reynslan undanfarin ár hefur sýnt, að það geta verið mörg aflaleysisár á síldveiðum í röð. Við töldum því, að það þyrfti að miða við nokkuð mörg ár til að finna meðalafla á síldveiðum, og settum það við 8 ár. Ef það er ekki hægt að finna út meðalafla við þessa veiðiaðferð með því að taka nokkuð mörg ár undir, þá er það ekki hægt með því að taka mjög langt tímabil, því að það geta orðið svo miklar umbreytingar á veiðiaðferðum og veiðitækni, að ekkert sé við það miðandi, og þess vegna verður að gæta þess að hafa tímabilið ekki of langt. Við þorskveiðarnar er till. miðuð við 4 ár. Hins vegar finnst mér það ekki vera verkefni fyrir nefnd, sízt af öllu n. útgerðarmanna, að ákveða, við hve langan tíma á að miða til þess að fá út meðaltalsútreikning, þannig að um réttlæti væri að ræða. Ég mundi því ekkert segja við því, þótt brtt. kæmi um tímalengdina, að því er grundvöll fyrir meðaltalsútreikninginn snertir. Ef menn vilja heldur hafa 10 ár til þess að undirbyggja útreikninga fyrir síldveiðarnar og 5–6 ár fyrir þorskveiðarnar, þá er ekkert við því að segja, en nefndarverkefni er þetta ekki.

Sumar till., sem fram komu, þurfa ekki að vera neitt ágreiningsatriði. Það skiptir litlu máli, hvort 5 menn eða 3 eru í stjórninni. Við unnum framan af að því í n. að hafa þetta sem minnst bákn og lögðum til, að þetta yrði 3 manna stjórn. En svo vildi Fiskifélag Íslands eiga fulltrúa í stjórninni, þá voru komnir 4 aðilar, og var þá ekki um annað að ræða, ef samkomulag átti að nást í n. um þetta aukaatriði, en að ganga inn á að hafa 5 manna stjórn. Ég mundi hafa sætt mig við þriggja manna stjórn. Um afgreiðslu sjóðsins og reikningshald var aðallega rætt um tvo möguleika. Sumir töldu, að fyrst Fiskifélag Íslands ætti að bera meginvinnuna við útreikningana og framkvæmd málsins, þá ætti þessi aðili líka að sjá um reikningshald fyrir sjóðinn og það ætti ekki að vera á tveim stöðum framkvæmdin á þessu. En aðrir sögðu, að eðlilegast væri, að Fiskveiðasjóður Íslands hefði þetta með höndum, það geti staðið þannig á mannafla hjá honum, að hann þurfi engan aukinn vinnukraft að taka í þetta hlutverk og geti það án þess að auka rekstrarkostnaðinn og án þess að taka sérstaka greiðslu fyrir það. Þess vegna kemur það fram í aths. okkar um frv., að það geti komið til mála að fela öðrum en Fiskifélagi Íslands rekstur sjóðsins, t.d. fiskveiðasjóði, ef hagkvæmara þætti. Þetta atriði held ég því að standi alveg opið að ganga inn á brtt. um; ef líkindi eru til, að það reynist sjóðnum kostnaðarminna heldur en hitt fyrirkomulag framkvæmdarinnar.

Eins og nú hefur komið í ljós hér í d., þá var það svo í n., að mönnum sýndist mjög sitt hvað um það, á hvern hátt ætti að afla sjóðnum tekna, og ég held, að allar till., sem komið hafa fram í d., hafi komið fram í n. Auðvitað var enginn ágreiningur um það, að helmingur eignaraukaskattsins ætti að vera þarna frumundirstaðan, það er þegar lögbundið. En það var allt í óvissu um það, hve há upphæð mundi sklla sér, töldu þó nm. framtalsnefndar, að þessi helmingur mundi ekki verða undir 5 millj. kr. og ef til vill meira. En þeir sögðu, að sumir liðir gætu brugðizt vegna þess, að sumir af þeim, sem ættu að borga stórupphæðir, væru útgerðarmenn og fyrirtæki, og þegar ekki væri vitað, hvernig hag þeirra aðila væri komið, þá gæti innheimta tekna af eignaraukaskattinum orðið önnur og rýrari en útreikningarnir á pappírnum bentu til. Þorðum við því ekki annað, en að slá þann varnagla, að ríkissjóður skuli greiða það, sem á vantar 5 millj. kr. Við töldum, að okkur bæri að ganga þannig frá því, að stofnfé sjóðsins yrði sem minnstur vonarpeningur. Niðurstaðan í n., eftir að rætt hafði verið um tekjuöflunarleiðir til sjóðsins, varð sú, að við fórum inn á þessa leið með meirihluta-atkvgr., að tekjurnar skyldu vera: Í fyrsta lagi 2% af óskiptu aflaverðmæti bátaflotans. Ríkisstj. hefur lækkað þetta um helming og þar með líka lækkað framlag ríkissjóðs um helming. Það er alveg rétt, að þar er farið inn á þá leið að, að fjórða hluta skuli tekjuöflun sjóðsins hvíla á hlutarsjómönnum og að fjórða hluta á útgerðarmönnum, sem sjá þannig fyrir sínum helmingi, en ríkissjóður leggi svo á móti sinn helming. Út frá hreinu stéttarlegu sjónarmiði, sem mér hefði borið að vera talsmaður fyrir, er það alveg rétt, að þarna eru byrðarnar á hlutarsjómönnum. En ég taldi þetta ekki óeðlilegt, og miða ég þar við þann eina yísi til hlutatrygginga, sem til er í landinu, hlutatryggingasjóðinn í Bolungavík. Þar hefur samizt svo um milli sjómanna og útgerðarmanna. að þeir skyldu taka saman á sig þá byrði að leggja 2% af óskiptu aflaverðmæti í sjóðinn, þó að þeir fengju ekki nema 0,7% úr honum á móti, en það gæti gengið ágætlega, ef ríkissjóður legði 2% á móti. Hvað er hér verið að tryggja? Fyrst og fremst það, að útgerðarmenn verði þess megnugir að standa í skilum við sjómenn og halda útgerðinni gangandi. Nú mundu sumir segja, að engin hætta sé, þótt útgerðarmaður borgi ekki umsamda tryggingu, því að sjómenn séu tryggðir fyrir vanskilum með sjóveði. En það að ná sjóveði kostar stöðvun útgerðarinnar um lengri tíma og atvinnuhnekki fyrir sjómanninn. Þarna er þess vegna verið að reyna að tryggja, að með nokkru framlagi frá hásetum, jöfnu framlagi frá útgerðinni og síðan með framlagi ríkissjóðs sé gert mögulegt að komast hjá stöðvun vegna málaferla út af sjóveðskröfum. Eins og fram kom hjá hv. 1. landsk., lít ég svo á, að ef tækist að byggja upp öflugan sjóð eins og þennan, væri það meginhagur þjóðfélagsins og aukið atvinnuöryggi fyrir útgerðarmenn og sjómenn og til þess bæri að fórna. Við erum þannig settir, að aðalatvinnuvegur okkar er hinn áhættusamasti og þjóðfélagið á svo mikið undir þessum atvinnuvegi. Þegar tekjur af sjávarútveginum hafa brugðizt, er ríkið sízt fært um að hlaupa undir baggann. Þess vegna verður þetta ekki gert nema með því að hafa tryggingalag á þessu, þ.e. að framlög til þess að tryggja þennan atvinnuveg verði lögð fram þegar honum vegnar vel, en komi honum að notum, þegar honum vegnar illa. Þetta virðast sjómenn og útgerðarmenn binda miklar vonir við. Kröfurnar um slíkar tryggingar koma því eðlilega ekki aðeins frá útgerðarmönnum, heldur líka frá sjómönnum. — Móti þessu segja menn enn fremur, að erfitt kunni að verða að innheimta einn hundraðshluta af óskiptu aflaverðmæti. Ég skal játa, að það er hugsanlegt. Aftur á móti gengi það nokkuð af sjálfu sér, segja menn, ef þessi tekjustofn væri tekinn sem útflutningsgjald af sjávarafurðum. Það er einnig rétt. Hins vegar verður ekki á móti því mælt, að með því að taka þetta með útflutningsgjaldi, þá falla ekki öll verðmæti undir útflutningsgjaldið. Hér getur líka komið til, eins og frsm. gat um áðan, að með því að grípa til útflutningsgjaldsins getur komið á aðra að bera útgjöldin en þá, sem fá bætur úr sjóðnum. Útgerðarmaður á að fá bætur til þess að standa í skilum gagnvart sínum sjómönnum, en hann hefur selt fiskinn hraðfrystihúsi, sem er í eigu allt annars manns, og þetta hraðfrystihús er síðan útflytjandinn. Útgerðarmaðurinn fær þá samkvæmt þessu greiðsluna, en hraðfrystihúsið, sem í þessu tilfelli er allt annar aðili, verður að borga í sjóðinn. Ég skal taka fram, að ef menn geta sameinazt um það að taka þetta ekki af óskiptum afla, heldur með útflutningsgjaldi, skal það ekki stranda á mínu atkvæði, ef sjóðnum eru tryggðar svipaðar tekjur með seinni aðferðinni og hinni fyrri.

Eitt af því, sem olli okkur mestum heilabrotum í n., var að finna úr réttlátan bótaskala til þess að úthluta bótum úr sjóðnum eftir. Nú hefur yfirleitt ekki verið ráðizt mikið á það kerfi, sem þessi skali byggist á, heldur hafa komið fram brtt. um að hækka hann, en þó í þeim hlutföllum, sem í honum felast. En meginbreyt., sem hér liggur fyrir um starfsemi sjóðsins, er í því fólgin, hvort sjóðurinn eigi að veita bætur samkvæmt þessum ákvæðum, sem eru í 9. gr., meðan nokkur eyrir er í sjóðnum, eða hvort hann eigi að starfa á þessum grundvelli þangað til ausið hefur verið úr honum öllum tekjum hans og komið að stofnfénu. Ég sé ekki, að á þessu sé mikill munur. Ef fyrstu árin, sem sjóðurinn starfaði, yrði að úthluta öllu nema stofnfénu og komið væri inn ákvæði um það, að stofnféð mætti aldrei skerða, væri hann óstarfhæfur, og til að fyrirbyggja það, yrði að setja sjóðinn aftur í sitt upphaflega form. Ef ganga mætti nær honum, gæti farið svo, að hann yrði starfhæfur eitt ár til. Segjum, að það væri líka hallærisár og að bæta yrði þar úr. Hvort væri þá betra að bæta úr því með stofnfé sjóðsins eða hjálp ríkissjóðs? Ég sé ekki, að á því sé mikill munur. Hér í frv. er ákvæði um það, að aldrei megi ganga nær sjóðnum en svo, að í honum standi 30%. Sé gengið á stofnféð, minnkar þetta 30% magn, sem ekki má skerða. Ég tel mjög vafasamt, hvort nokkur vandi er leystur með þessu ákvæði, að ekki megi skerða stofnsjóðinn.

Ég vil gera það öllum ljóst, að þótt ég hafi tekið þátt í samningu þessa frv., þá hefur mér aldrei dottið í hug, að þetta væri það eina rétta form á þessu máli, og get svo hjartanlega samþ. hverja till., sem stæði til bóta. En það má bara ekki vera tilviljun háð, hvernig þær brtt. verða. Ég er því ákaflega leiður yfir því, að ekki skuli hafa tekizt samstarf milli sjútvn. Ed. og Nd. um að koma sér saman um breyt., sem ættu að verða á frv. áður en það kæmi til atkvæða í Nd. Mér hefði fundizt eðlilegast, að þær till., sem hér hafa komið fram, væru teknar aftur til 3. umr. og n. ynnu síðan saman og kæmu sér saman um meginbreyt., sem ættu að ná fram að ganga.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um frv., en vil leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. við 4. gr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 4. gr. Á eftir orðunum „ákveðin svæði og“ komi: ákveðast takmörk þeirra með reglugerð —, en áframhald greinarinnar, þar með stafliðirnir a, b, c og d, falli niður“.