05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það hefur nú ekki svo mjög verið rætt um þær brtt., sem ég hef flutt hér og skýrði í meginatriðum í ræðu minni hér í gær, svo að ég þarf kannske ekki svo mjög að deila við þá ræðumenn, sem hafa talað hér á undan mér. En þó eru nokkur atriði, sem ég verð að minnast á af þeim, sem fram hafa komið.

Ég vil þá fyrst minnast á þá skriflegu brtt., sem hv. 1. landsk. hefur flutt hér varðandi tekjuöflun í sjóðinn og er á þá leið, að í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að tekið sé 1% af óskiptum vertíðarafla bátanna, án frekari fyrirmæla um það, sem mundi þýða, að það yrði tekið jafnt af hluta útgerðarinnar og hluta skipverja, þá vil] hann raunar halda þessu fyrirmæli um að taka 1% af aflanum, en á þann veg, að það skerði ekki hlut skipverja, heldur sé það greitt aðeins af hlut útgerðarinnar. Ég er hv. þm. sammála um það, eins og ég tók mjög skýrt fram í gær, að ekki eigi að taka þetta hundraðsgjald af hlut sjómanna. Hins vegar álít ég ekki, eins og hann, að fært sé að leggja slíkt iðgjald á útgerðina sem gert yrði með þessu, því að það mundi í raun og veru þýða það, að útgerðarmaðurinn eða útgerðarfélagið yrði að borga 2% af þeim aflahlut, sem í hlut útgerðarinnar kæmi. Og ég hygg, að með því ástandi og þeim erfiðleikum, sem bátaútvegurinn á nú við að búa, sé of mikið að ætlast til þess, að útgerðin greiði svo hátt íðgjald sem hér um ræðir, enda er það miklu hærra en gert er ráð fyrir í öðrum till., sem komið hafa fram um þetta efni. Ég mun þess vegna ekki geta fylgt þessari till., eins og hún er fram borin.

Þá vil ég minnast á atriði, sem raunar kemur ekki þessu máli, sem hér er um að ræða, neitt sérstaklega við, en hv. 1. landsk. leiddi inn í umr. Hann ræddi hér um það, að með þessu frv. og þessari sjóðsstofnun hefði hann staðið að tryggingu þess, að útgerðin gæti staðið við þá skuldbindingu, sem hún hefði tekið á sig í samningum við flest eða öll stéttarfélög sjómanna um að greiða þeim þá lágmarkstryggingu, sem felst í þessum samningum milli útgerðarmanna og sjómannafélaganna. Og út frá því fór hann að ræða um, hvernig þessi lágmarkstrygging hefði komizt á, og gat ég ekki betur heyrt en að hann segði, að hann væri faðir að þessari kauptryggingu. Ég skil þessi ummæli hans þannig, að hann hafi verið að koma því hér á framfæri, að hann hafi átt frumkvæðið að því að koma þessu ákvæði um lágmarkstryggingu sjómanna inn í samningana. (SÁÓ: Ætli það sé ekki rétt?) Nei, það athyglisverðasta við þetta er það, að þetta er ekki rétt. Fyrsti samningur,. sem gerður var milli stéttarfélags og útgerðarmanna um lágmarkstryggingu skipverja, var gerður af Sjómannafélagi Norðurlands sumarið 1936, eftir það harðvítugasta verkfall, sem háð hefur verið hér á landi og snerist fyrst og fremst um þetta ákvæði. Árangurinn af verkfallinu varð sá, að þetta var í fyrsta skipti tekið upp í samninga við útgerðarmenn. Það var því Sjómannafélag Norðurlands, sem ruddi brautina, og önnur sjómannafélög komu síðan í kjölfarið. Og þó að það komi ekki þessu máli við, má nefna það, að sú trygging, sem síðar var sett af sjómannafélögum hér syðra, var lægri en sú trygging, sem Sjómannafélag Norðurlands kom inn í sína samninga. Ég hefði ekki farið að draga þetta inn í umr., hefði hv. þm. ekki farið inn á þetta. En af því að hann fór inn á þetta, vil ég mótmæla því og tel, að ástæðulaust hafi verið af honum að lauma þessu inn í þingtíðindin sem sérstöku afreki af sinni hendi, sem hann hefur engan þátt átt í.

Þá skal ég víkja að frv. því, sem hér liggur fyrir, og þeim brtt. og ræðum, sem hér hafa verið fluttar, að svo miklu leyti sem ég þarf að gera við það athugasemdir.

Hv. þm. Barð. (GJ) færði það m.a. fram sem rök gegn þeirri till. minni, að stjórn sjóðsins skyldi vera ólaunuð, að það mundi stríða gegn stjskr., hann hefði a. m.,k. heyrt það utan að sér, að það mundi vera svo, það væri ekki hægt að gera þá kröfu til þeirra manna, sem skipuðu n., að þeir ynnu þetta starf án sérstakra launa. Það er nú orðið — ekki kannske almennt, en kemur oft fyrir, að það er notað sem rök gegn framgangi ýmissa mála í þinginu, ef gerðar eru ákveðnar kröfur, að það stríði gegn stjskr. En ég verð að segja, að mér finnst þetta nokkuð langsótt í þessu sambandi. Þetta er svo mikil fjarstæða, að ekki er hægt að halda henni fram, enda fann ég það, að hv. þm. Barð. sagði þetta ekki í mikilli alvöru. Og þó að n. séu stundum launaðar, þá er hitt ekki óalgengt, að sett séu þau ákvæði í lög, að þær skuli vera ólaunaðar, og væri það varla gert, ef það væri á móti stjórnarskránni. Og það er alls ekki tilfellið, að þessi n. sé ólaunuð, þó að hún fái engin sérstök laun fyrir þetta. Ég gat þess í gær, að allar þær stofnanir, sem tilnefndu menn í stjórnina, hefðu fleiri menn á föstum launum, og störf stjórnarinnar eru ekki það mikil, að þeir gætu ekki eftir sem áður gegnt starfi sínu, en ef svo er ekki, mundi það þá bitna á starfinu hjá viðkomandi stofnun. Þeir eru því á föstum launum, en ekki launalausir. Og kemur það allundarlega fyrir sjónir eftir allar bollaleggingarnar um sparnað, ekki sízt hjá stjórnarsinnum, og um að draga úr ríkisbákninu, ef nú þykir ófært í sambandi við stjórn þessa sjóðs að hlaða ekki miklum kostnaði af skrifstofuhaldi á hann. Og mér finnst það alveg sérstaklega undarlegt, að hv. þm. Barð., sem er form. fjvn. og hefur margrekið sig á það, að menn taki laun fyrir mörg störf, skuli finnast það óviðeigandi, að þessir menn, sem eru á föstum launum hjá fyrirtæki sínu, skuli ekki fá laun einnig hjá sjóðnum. Ég legg áherzlu á það og hef haldið því fram í umr., að engin þörf sé að setja launuð embætti við sjóðinn, heldur sé bezt, eins og kemur fram í tillögum mínum, að sjóðurinn spari að eyða fé sínu í stjórnar- og skrifstofukostnað, heldur verji því til bóta, sem sennilega er nóg þörf fyrir eins og verið hefur fram að þessu. Hv. þm. Barð. fannst óþarft að hafa sjóðinn hjá Fiskifélaginu og taldi, að það mundi hafa í för með sér, að þar yrði að bæta við meira starfsliði eða jafnvel nýrri deild, en fiskveiðasjóður gæti annazt þetta fyrir lítið eða ekki neitt. Ég skil ekki þennan mun, að það kosti litið hjá fiskveiðasjóði, en jafnvel nýja deild hjá Fiskifélaginu. Hins vegar er ég honum sammála í því, að þetta þurfi ekki að kosta neitt til muna aukna starfskrafta, hvort sem það er hjá fiskveiðasjóði eða Fiskifélaginu, sem hafa hvort sem er skrifstofuhald. En ég tel heppilegra að hafa það hjá Fiskifélaginu, því að þar eru allar aflaskýrslur og annað, sem þarf til að úthluta úr sjóðnum, og vænti þess, að Fiskifélagið geti annazt þetta án aukins starfsliðs og verulegs kostnaðar á venjulegu ári.

Ég vil nú minnast á eitt atriði, sem litið hefur verið rætt og ég drap ekki á í gær, og ég er ekki sammála till., sem liggja fyrir um það atriði, en það er skiptingin milli deilda. Ýmsar till. hafa verið bornar fram um tekjuöflun, en hvort sem þær gera ráð fyrir, að þær séu teknar af óskiptum afla eða af útfluttum, þá gera þær ráð fyrir, að tekjur af þorskveiðum renni til þorskveiðideildar og tekjur af síldveiðum til síldveiðideildar, og verð ég að fallast á, að varla er hægt, að ein deildin taki frá annarri. En hins vegar tel ég, vegna þess hve síldveiðar eru áhættusamar, þá verði að renna meiri tekjur til þeirra, en það er ekki gert, hvorki í frv. né till. þeim, sem komið hafa fram, nema í till. minni að nokkru leyti. En samkvæmt frv. á framlag ríkisins, og hjá hv. þm. Barð. útflutningsgjaldið, að skiptast í hlutfalli við afla, en undanfarin ár hafa tekjur af þorskveiðum verið meiri en af síldveiðum, sem hefur í för með sér, að þorskveiðideild fær meiri tekjur, en síldveiðideildin. Þetta held ég að sé rangt, og þess vegna legg ég til í mínum till., að tekjum þeim, sem þannig verður aflað samkv. 1. lið, verði skipt jafnt milli deildanna. Það held ég að sé það skemmsta, sem hægt er að fara, og raunar held ég, að meira hefði átt að fara til síldveiðideildar, en ekki eins og nú er, að þorskveiðideild fái meira. Ég tel slíkt rangt, og getur verið, að síðar meir verði að breyta þessu meira, en ég geri.

Þá vil ég minnast á bætur eftir hinum ýmsu till. Hv. þm. Barð. telur, að með sínum till. sé farin einfaldasta og auðveldasta leiðin, en hins vegar skýrði hann þetta ekki það rækilega, að ég kæmist að því, hvernig beri að skilja hana og hvað fyrir honum vakir, og er ég þó búinn að lesa till. vel og finnst mótsögn hjá honum. Hann telur, að þegar skip í einhverjum flokki eru að meðaltali með fyrir neðan 75% af meðalaflamagni, þá komi allur flokkurinn til bóta án tillits til afla hvers einstaks skips, nema þá að þau nái vissu hámarki. En það er óvenjulegur aflabrestur, ef ekkert skip nær 75% af meðalafla, og ber þeim þá einnig bætur, en samkvæmt fyrirmælum, sem síðar koma, segir, að ekki eigi að bæta þeim. Þetta er því mótsögn, þar sem fyrst er sagt, að öllum skipunum eigi að bæta jafnt án tillits til aflamagns, en svo er sagt síðar, að svo skuli ekki vera, og skil ég ekki, hvernig þetta verður í framkvæmdinni. Ef ber að skilja þetta svo, að það eigi að bæta skipum án tillits til aflamagns, þá get ég ekki fallizt á það. Það verður að taka tillit til trygginga þarfarinnar og því þarf að bæta þeim meira, sem minna hafa aflað, a.m.k. að vissu marki, og ef hlutverk sjóðsins er það, sem ég hef haldið, að gera útgerðinni mögulegt að standa við hlutatrygginguna, þá held ég, að hér sé rangt að farið. Mínar till. miða að því, að bætur verði greiddar að því marki, að útgerðin geti borgað lágmarkskauptrygginguna eða sem nálgaðist það, svo að hægt væri þess vegna, að halda útgerðinni áfram. Í sambandi við mótsögnina í till. hv. þm. Barð. skilst mér, að einnig í sjálfu frv. kenni nokkurrar mótsagnar hvað varðar bætur til síldarskipa. Í 4. gr. er gerður munur á, hvenær komi til bóta á síldveiðum og þorskveiðum, þannig að á þorskveiðum kemur til bóta, þegar aflinn er undir 75% af meðalaflamagni, en á síldveiðum þegar aflinn er undir 65% af meðalaflamagni. Hins vegar fæ ég ekki séð, að í ákvæðum um bætur sé gerður greinarmunur á bótum til deildanna og eru þær prósentvís þær sömu og gert ráð fyrir 75%. Þetta er misræmi, sem þarf að athuga. Ég er ekki viss um, að þurfi að gera þennan mismun, og það er ekki gert í till. mínum, heldur miðað alls staðar við 75%. Frsm. meiri hl. n., hv. þm. N-Þ., var í ræðu sinni að færa rök gegn brtt. hv. þm. Barð., að setja aðeins reglugerð um skiptingu, bótatíma og annað í 2. gr., og færði sem rök, að ef þetta væri gert, þá yrði meðalaflamagn sett svo hátt, að sjóðurinn kæmist í þrot, og taldi, að ég hefði játað, að tilhneiging væri hjá útgerðarmönnum og sjómönnum til að setja þetta aflamark sem hæst, en þetta kemur til kasta hæstv. ráðh., og hann hefur tilhneigingu til að halda meðalaflamagninu niðri. Þetta er líklega byggt á því, að hv. þm. hefur ekki tekið nógu vel eftir eða ekki sagt nema hálfan sannleikann. Ég benti að vísu á, að þessi tilhneiging væri sennilega til staðar, en benti hins vegar á og færði sem rök, að í framkvæmdinni mundi þetta ákveðið of lágt, en til að fá staðfestingu á reglugerðinni þarf staðfestingu ráðh., og hann hlýtur að hafa það sjónarmið að gæta hagsmuna sjóðsins og mundi því reyna að halda meðalaflamagninu niðri, eins og ég gat um áðan, og ástæða er því til að halda, að markið verði sett heldur lægra en hærra, en það raunverulega er. Þetta er því rangt hjá hv. þm. N-Þ. Ég álít þvert á móti, að í ákvæðum eða reglugerð um þetta verði markið sett neðar, en normalt er, og með tilliti til þess vil ég gera till. um að hækka bótastigann, svo að hann verði það hár, að hann nægi til að standa undir tryggingunni. — Enn fremur hélt hv. þm. N–Þ. því fram, að sú till. mín að taka hlut af nettóhagnaði bankanna til að standa undir þessu sé brot á l. Þó að ákveðið sé í l., að þessar tekjur séu skattfrjálsar, þá er ekkert auðveldara fyrir Alþ. en breyta þessu og setja slík ákvæði í l. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að hér á Alþ. er breytt með einum l. mörgum öðrum lögum, og er því ekkert auðveldara, en breyta bankal. hvað þetta snertir, ef vilji er fyrir hendi, og þarf það því ekki að standa í vegi. Mér finnst þetta það heppilegasta, að taka peningana þar, sem þeir eru, enda er gert ráð fyrir, að peningar sjóðsins séu í vörzlu bankanna, þegar ekki kemur til úthlutunar, og það er lengur en hitt. Þetta mundi einnig gera bönkunum auðveldara fyrir, þar sem útgerðin mundi greiða skuldir sínar við þá. — Þá gat hv. þm. N–Þ. þess, að tilhneiging mundi verða til að bæta eftir þörfum úr sjóðnum, en sjóðurinn mundi ekki hrökkva til meiri bóta, en þarna eru ákveðnar. Það er reynslan, sem sker úr því, hvort sjóðurinn standi undir þessu. Í mínum brtt. er gert ráð fyrir, að tekjurnar séu 1/4 hærri, en gert er ráð fyrir í frv., en þar er gert ráð fyrir 3 millj. kr. tekjum, en hjá mér er gert ráð fyrir 4. millj.

Þá vil ég minnast aðeins á eitt atriði, sem rætt hefur verið um, og það er, hverja sé raunverulega verið að tryggja með þessu frv. og þeim sjóði, sem ætlað er að mynda. Ég held, að í raun og veru sé nú ekki hægt að deila um það, að það er fyrst og fremst verið að tryggja útgerðina. Það er verið að gera tilraun til þess að tryggja það, að á aflaleysisárum sé til sjóður, sem geti bætt útgerðinni upp þann aflabrest, sem hún verður fyrir, upp að tilteknu marki, og með því verður hún auðvitað færari um að inna af hendi þær skuldbindingar, sem hún hefur tekið á sig. Skipverjar fá ekki með þessu aðra tryggingu — ef þeir þá fá einhverja tryggingu — en aukna tryggingu fyrir innheimtu á því lágmarkskaupi, sem þeir hafa tryggt sér með samningum sínum við útgerðarmenn. En frá mínu sjónarmiði álit ég, að ekki sé hægt að réttlæta það, að vegna þessarar auknu tryggingar fyrir innheimtu umsamins kaups eigi sjómenn að fara að borga iðgjald í tryggingarnar. Það væri sama og ef launþegar ættu að stofna einhverja tryggingu fyrir því, að þeir fengju greitt kaup sitt, og borguðu í hana iðgjöld. En ég held, að mönnum geti komið saman um, að óþarfi sé að fara inn á slíka braut, enda mundi það ekki þýða annað en það, ef tekin væru gjöld af óskiptum afla, að með því væri verið að lækka umsamið kaup skipshafna til þess að tryggja þeim greiðslu á kaupi sínu. Að fara inn á slíka braut tel ég algerða fjarstæðu og er ég eindregið á móti því, að sú leið sé farin, hvað sem að öðru leyti verður ofan á með þessa tekjuöflun handa sjóðnum.

Ég held, að það sé þá ekki meira, sem ég þarf að taka fram í þessu sambandi. Ég mun, þegar til atkvgr. kemur, greiða atkvæði með ýmsum till., sem hv. þm. Barð. flytur, en mun hins vegar að sjálfsögðu leggja kapp á það, að þær brtt., þar sem ég vil fara aðrar leiðir, nái fram að ganga.