14.11.1949
Sameinað þing: 0. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Forseti Íslands setur þingið

Að lokinni guðsþjónustu gengu þingmenn aftur til alþingishússins, fundarsals neðri deildar. Þessir menn skipuðu þingið:

1. Áki Jakobsson, þm. Siglf.

2. Ásgeir Ásgeirsson, þm. V-Ísf.

3. Ásgeir Bjarnason, þm. Dal.

4. Ásmundur Sigurðsson, 5. landsk. þm.

5. Bernharð Stefánsson, 1. þm. Eyf.

6. Bjarni Ásgeirsson, þm. Mýr.

7. Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv.

8. Björn Ólafsson, 3. þm. Reykv.

9. Brynjólfur Bjarnason, 1. landsk. þm.

10. Einar Olgeirsson, 2. þm. Reykv.

11. Eiríkur Einarsson, 2. þm. Árn.

12. Emil Jónsson, þm. Hafnf.

13. Eysteinn Jónsson, 1. þm. S-M.

14. Finnbogi R. Valdimarsson, 7. landsk. þm.

15. Finnur Jónsson, þm. Ísaf.

16. Gísli Guðmundsson, þm. N-Þ.

17. Gísli Jónsson, þm. Barð.

18. Gunnar Thoroddsen, 7. þm. Reykv.

19. Gylfi Þ. Gíslason, 3. landsk. þm.

20. Halldór Ásgrímsson, 2. þm. N-M.

21. Hannibal Valdimarsson, 6. landsk. þm.

22. Haraldur Guðmundsson, 4. þm. Reykv.

23. Helgi Jónasson, 1. þm. Rang.

24. Hermann Jónasson, þm. Str.

25. Ingólfur Jónsson, 2. þm. Rang.

26. Jóhann Hafstein, 5. þm. Reykv.

27. Jóhann Jósefsson, þm. Vestm.

28. Jón Gíslason, þm. VSk.

29. Jón Pálmason, þm. A-Húnv.

30. Jón Sigurðsson, 2. þm. Skagf.

31. Jónas Árnason, 10. landsk. þm.

32. Jónas Rafnar, þm. Ak.

33. Jörundur Brynjólfsson, 1. þm. Árn.

34. Karl Kristjánsson, þm. S-Þ.

35. Kristín Sigurðardóttir, 9. landsk. þm.

36. Lárus Jóhannesson, þm. Seyðf.

37. Lúðvík Jósefsson, 2. landsk. þm.

38. Ólafur Thors, þm. G- K.

39. Páll Zóphóníasson, 1. þm. N-M.

40. Páll Þorsteinsson, þm. A-Sk.

41. Pétur Ottesen, þm. Borgf.

42. Rannveig Þorsteinsdóttir, 8. þm. Reykv.

43. Sigurður Ágústsson, þm. Snæf.

44. Sigurður Bjarnason, þm. N-Ísf.

45. Sigurður Guðnason, 6. þm. Reykv.

46. Skúli Guðmundsson, þm. V-Húnv.

47. Stefán Jóh. Stefánsson, 8. landsk. þm.

48. Stefán Stefánsson, 2. þm. Eyf.

49. Steingrímur Aðalsteinsson, 4. landsk. þm.

50. Steingrímur Steinþórsson, 1. þm. Skagf.

51. Vilhjálmur Hjálmarsson, 2. þm. S-M.

52. Þorsteinn Þorsteinsson, 11. landsk. þm. Voru þingmenn allir til þings komnir og á fundi, nema Eiríkur Einarsson, sem hafði boðað veikindaforföll, en í stað hans var til þings kominn

Sigurður Ó. Ólafsson, 2. (vara)þm. Árn. Forseti Íslands setur þingið.

Þá er þingmenn höfðu skipað sér til sætis, kom forseti Íslands, Sveinn Björnsson, inn í salinn og gekk til ræðustóls.

Forseti Íslands (Sveinn Björnsson): Í ríkisráði 8. þ.m. var gefið út svo hljóðandi forsetabréf: „Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að reglulegt Alþingi 1949 skuli koma saman til fundar mánudaginn 14. nóvember næst komandi.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett, að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni, er hefst kl. 13,30.

Gert í Reykjavík, 8. nóvember 1949.

Sveinn Björnsson.

Stefán Jóh. Stefánsson.

Forsetabréf um, að reglulegt Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 14. nóvember 1949.“

Samkvæmt bréfi því, er ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Frá endurreisn Alþingis fyrir 104 árum er þetta 84. samkoma þess, en frá því, er það fékk aftur í hendur löggjafarvald fyrir 75 árum, er þetta þing hið 69. í röðinni, en 52. aðalþing.

Eftir nýafstaðnar almennar alþingiskosningar sezt nú nýkjörið þing á rökstóla, og býð ég þingmenn velkomna til starfa.

Er fráfarandi ráðuneyti fékk lausn 2. nóvember, bar ég fram þá ósk, að flýtt yrði sem mest myndun nýs ráðuneytis, þegar er Alþingi kæmi saman til funda. Sömu ósk bar ég fram við formenn allra þingflokkanna fjögurra, er ég átti tal við þá um viðhorfið daginn eftir, 3. nóvember. Skildist mér á þeim öllum, að þeir væru mér sammála um, að þetta væri mjög æskilegt, og tóku því vel að hefja þá þegar þann undirbúning undir stjórnarmyndun sem kleift væri. Nú er Alþingi er komið saman til funda, ber ég fram sömu óskina, enn þá einu sinni.

Í 15. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn“. Í lýðfrjálsu landi með þingræðisvenjum er ráðgert, að þjóðhöfðinginn noti þetta vald sitt ekki nema í fullu samræmi við vilja þingsins, þannig, að hann skipi að jafnaði ekki ráðherra, nema áður sé fengin trygging fyrir því, að þeir njóti stuðnings meiri hluta þings, eða að minnsta kosti, að meiri hluti þings sé ekki andvígur ráðuneytinu. Af þessu leiðir aftur, að það hvílir raunverulega á þingmönnum að skapa þau skilyrði, sem þarf til þess að hægt sé að skipa slíkt ráðuneyti. Þetta er bæði réttur og skylda þingmanna samkvæmt þingræðisvenjum.

Nú hefur það farið svo hér á landi í hvert skipti eftir annað, að stjórnarmyndun hefur tekið mjög langan tíma, jafnvel svo mánuðum skiptir. Þetta hefur tafið mikið önnur störf þingsins, því að segja má með nokkrum sanni, að öll venjuleg þingstörf sitji á hakanum, þar til fenginn er nægur stuðningur fyrir nýtt ráðuneyti. Ég þykist viss um, að bæði þingmenn sjálfir og þjóðin öll telja það æskilegt, að þessi töf frá störfum verði sem stytzt.

Alþingi það, sem nú er komið saman til funda, á að samþykkja fjárlög fyrir næsta ár, sem eiga að ganga í gildi eftir 6–7 vikur. Fjárhags- og efnahagsmál kalla mjög að um ráðstafanir stjórnar og þings, sem ekki þola neina bið; dráttur á þeim getur orðið landi og þjóð mjög örlagaríkur.

En hvað á að gera, ef ekki tekst samt að mynda stjórn, sem hafi tryggðan stuðning meiri hluta Alþingis, án of mikils dráttar?

Ég skil stjórnarskrá vora svo, að er mikið liggur við — og það liggur mikið við nú —, þá sé það bæði réttur og skylda forseta að reyna að skipa ráðuneyti, innan þings eða utan, þó að það hafi ekki fyrir fram tryggðan meiri hluta þings, ef slíkur stuðningur fæst ekki. Alþingi getur lýst vantrausti á slíku ráðuneyti, en verður þá um leið að sjá fyrir öðru ráðuneyti, sem því líkar betur. Löggjöf um aðsteðjandi vandamál og aðrar ráðstafanir þola ekki þá bið, sem leiðir af því, að óeðlilega lengi starfi ráðuneyti, sem fengið hefur lausn vegna þess, að það telur sér ekki fært að fara lengur með stjórn eða telur sig ekki njóta lengur trausts meiri hluta þings. Því er ekki hægt fyrir Alþingi að ætla sér óákveðinn frest í von um, að viðhorfið breytist. Þess vegna eru það og algerar undantekningar í öðrum lýðræðis- og þingræðislöndum, að það taki nema stuttan tíma, jafnvel einn dag eða fáa daga, að mynda nýtt ráðuneyti í stað þess, sem fer frá. Þegar það kemur fyrir, að það tekur lengri tíma, eins og t.d. í sumar í Belgíu og nú nýverið í Frakklandi, er það almennt talið nokkurs konar þjóðarógæfa og af sumum jafnvel talið til þess fallið að draga úr áliti og virðingu þjóðarinnar einnig út á við. Í Frakklandi tók stjórnarmyndun þrjár vikur og þótti allt of langur tími. Það, sem kemur fyrir hjá öðrum þjóðum sem undantekning, má ekki verða venja hjá oss Íslendingum, ef vér viljum teljast í hópi Þingræðisþjóða.

Ég veit, að það er álit sumra, að öðruvísi horfi við hér en annars staðar, en get ekki fallizt á þau rök, sem færð eru fyrir því. Fyrr á árum var þjóðhöfðinginn í fjarlægu landi; nú er hann hér viðstaddur. Hér eru fjórir flokkar, og enginn þeirra hefur meiri hluta þings; nú hafa að vísu tveir flokkanna saman slíkan meiri hluta, en hvorugur þeirra hefur meiri hluta ásamt öðrum hvorum hinna tveggja flokkanna. Víða annars staðar stendur verr á, flokkarnir eru fleiri og þarf stuðning fleiri, en tveggja flokka og jafnvel fleiri en þriggja flokka. — Málum vorum er svo komið vegna verðbólgu, dýrtíðar, of mikils framleiðslukostnaðar til þess að geta keppt við aðra innanlands og utan, of hárra ríkisútgjalda, of hárra skatta og tolla o.s.frv., að erfitt er að sameinast um það, á hvern hátt skuli fram úr ráðið. Mér finnst þessi rök frekar vera rök fyrir því, að stjórnarmyndun þolir enga bið, en fyrir því, að langan tíma þurfi til stjórnarmyndunar, sem aftur leiðir af sér langa töf á aðkallandi störfum þings og stjórnar.

Í samræmi við það, sem ég hef sagt, tel ég rétt að skýra hinu háa Alþingi frá því á þessum fyrsta fundi þess, að ef svo skyldi fara, mót von minni, að ekki hafi tekizt að tryggja nýju ráðuneyti nægan stuðning fyrir 30. þ.m., þó helzt fyrr, mun ég líta svo á, að ekki beri að fresta því lengur, að ég geri tilraun til þess að skipa nýtt ráðuneyti, sem Alþingi getur þá hafnað eða sætt sig við, — enda eru þá liðnar fjórar vikur frá því fráfarandi ráðuneyti fékk lausn frá störfum og frá því, er ég mæltist til þess við formenn þingflokkanna að hefja undirbúning að stjórnarmyndun, — og meira en mánuður frá því kunn voru úrslit kosninganna, en meira en tvær vikur frá því, að Alþingi kom saman til funda.

Að svo mæltu vil ég biðja alþingismenn að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum.

Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson, mælti: „Lifi Ísland.“ Var tekið undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.

Forseti kvaddi nú elzta þingmanninn, Jörund Brynjólfsson, 1. þm. Árn., til þess að stýra fundi, þar til er kosinn væri forseti sameinaðs Alþingis. Gekk forseti Íslands síðan út úr salnum.

Aldursforseti gekk þá til forsetastóls og tók við fundarstjórn.