27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur rætt þennan ríkisreikning nokkuð, og veitti n. því athygli, að eigi er fullt samræmi í uppgjöri einstakra sjóða ríkisins við uppgjör ríkissjóðsins. Það voru því gerðar fyrirspurnir til ríkisbókhaldsins, og barst n. svar frá því, sem prentað er á þskj. 530 ásamt fyrirspurnunum sjálfum. Þar hefur ríkisbókhaldið gert grein fyrir, hvernig á þessu stendur. En ég tel ástæðu til að taka það fram, að nauðsynlegt er að gæta þess framvegis, að fullt samræmi sé í uppgjöri hinna einstöku sjóða og sjálfs ríkisreikningsins. Í vissum tilfellum hefur það nú verið svo, eða var árið 1946, að þessu ber ekki saman, eins og fram kemur í fskj. við frv. á þskj. 237, og eign ríkissjóðs því talin ýmist hærri eða lægri á efnahagsreikningnum en vera ber. Er æskilegt, að þetta verði athugað framvegis. Yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa nú gert aths. sínar og fengið svör frá ráðuneytinu. Hafa þeir síðan gert tillögur til Alþ., sem birtar eru aftast í ríkisreikningnum. Þar er aths. vísað til aðgerða Alþ., t.d. 17. og 18. aths. Hin fyrri varðar Landssmiðjuna og hin síðari skipasmiðastöðina við Elliðaárvog. Hafa þeir séð ástæðu til að vísa þeim til aðgerða Alþ., sömuleiðis 20. aths., sem snertir ábyrgð fyrir síldarverksmiðjur ríkisins, þ.e. nýju verksmiðjurnar, sem byggðar hafa verið á Skagaströnd og Siglufirði, en reikningar þessara verksmiðja munu hafa veríð endurskoðaðir af tveim nefndum, sem til þess hafa verið kjörnar. Hafa yfirskoðunarmennirnir tekið fram, að fengnum upplýsingum, að síðustu rannsókn hafi eigi verið lokið, þegar gengið var frá ríkisreikningnum. Vísa þeir þessu því til aðgerða Alþ. — Þá er 25. og 26. aths. Hin fyrri er um leigu, á færeyskum fiskiskipum á árinu 1946, þegar þau voru tekin á leigu til fiskflutninga. Mun tap hafa orðið á þeim rekstri. Síðari aths. snertir lán til fiskibátasmiða í Svíþjóð, og segja yfirskoðunarmennirnir, að þeim virðist af svari því, sem þeir hafa fengið, sem lítil fyrirhyggja hafi verið höfð um þetta. Nú er það svo, að eftir svo langan tíma sem hér um ræðir er erfitt fyrir Alþ. að gera nokkuð til úrbóta, að svo miklu leyti sem hér er aðfinnsluvert, og hefur n. því engar sérstakar till. gert um þessi atriði. Leggur n. síðan til, að ríkisreikningurinn verði samþykktur eins og hann liggur fyrir, eða frv. á þskj. 237.