08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1946 hefur sætt meðferð hv. fjhn., og leggur hún til, að frv. verði samþ. Nefndin hafði ríkisreikninginn, sem hér um ræðir, við höndina og bar saman höfuðniðurstöðutölur, sem ekki sýndist neitt vera að athuga við og ekki í neinni mótsetningu við frv. sjálft. Þá leit n. yfir aths. endurskoðendanna, þ.e.a.s. yfirskoðunarmanna ríkisreikninga, og tók eftir því, að þeir höfðu gert aths. við vissar greinar, þ.e.a.s. 17., 18., 20., 25. og 26. aths., þar sem þeir láta í ljós, að aðgerða Alþingis sé óskað, en það þýðir, að yfirskoðunarmennirnir hafa ekki fengið eða talið sig fá fullkomlega skýr svör hjá hæstv. ráðh. viðvíkjandi þessum greinum. Það, sem hér er um að ræða, er í fyrsta lagi afkoma Landssmiðjunnar og skipabyggingar hennar. Var m.a. spurt um það af yfirskoðunarmönnunum, hvort það hefði verið öll ríkisstj., sem stóð að þessum framkvæmdum. — Þá er 20. aths. yfirskoðunarmanna um lán til síldarverksmiðjanna, og spyrjast þeir fyrir um, hvað liði rannsóknum í sambandi við þau. 25. aths. er í sambandi við fiskflutninga á færeyskum skipum, hvernig standi á hinu mikla tapi, sem varð á þessum flutningum. Og svo er 26. aths., sem er um fyrirgreiðslu ríkisstj. á láni til fiskibáta, sem smíðaðir voru í Svíþjóð. Sem sagt, þessum hlutum hafa yfirskoðunarmennirnir talið rétt að vísa til aðgerða Alþingis. — N. ræddi nokkuð þessar aðgerðir Alþingis, sem hér um ræðir, en þær verða, samkv. skilningi n. á stjórnarskránni, að fara fram í Sþ. Það er vitaskuld í valdi hvers og eins hv. þm. eða ríkisstj. að hefja máls á því á réttum vettvangi, sem yfirskoðunarmennirnir hafa bent á. En það mundi ekki hlýða að taka þetta til aðgerða í hvorri hv. þd. fyrir sig, heldur mundi það, samkv. skilningi okkar á stjskr., verða gert í Sþ. N. leggur þann skilning í stjskr., eins og áður er sagt, að þar sem talað er um Alþingi í stjskr., þar sé átt við Sþ. Af þessum ástæðum taldi n. sig ekki geta haft í frammi neinar till. í þessari hv. d., sem byggðar væru á áliti yfirskoðunarmannanna.