08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég man ekki til þess, er ríkisreikningur hefur verið samþ., að þá hafi ekki umr. um þetta mál alltaf fallið á líkan veg. Hér hefur alltaf verið um að ræða þriggja til fjögurra ára gömul mál. Ég sé nú, að hv. fjhn. Nd. hefur gefið út nál. á þskj. 530 og leggur þar til, að frv. sé samþ. Undir þetta nál. skrifar m.a. hæstv. forseti Sþ., sem einnig er endurskoðandi landsreikninga, en í aths. sínum við þá hefur hann vísað til aðgerða Alþingis í sambandi við viss atriði. Nú vildi ég spyrja: Hverjum stendur það næst að koma þessu máli rétta leið áfram? Er það þm. eða frsm. n.? Hér stendur nú svo á, að hv. frsm. n. er fyrrv. fjmrh., og nú vildi ég spyrja hann, í fyrsta lagi sem frsm. n. í málinu, í öðru lagi sem fyrrv. hæstv. ráðh. og í þriðja lagi sem einstakan þm., hvort hann sé ánægður með þessa afgreiðslu málsins. Ég tel sem sagt alveg óviðeigandi og reyndar mjög ábótavant að vera að ræða um þessi mál á hverju þingi og komast samt ekkert meira áfram í sambandi við þau en við gerðum fyrir a.m.k. átta árum. Ef hv. frsm., hv. þm. Vestm., og reyndar hæstv. forseti einnig, því að hann er líka í n., eru ánægðir með þessa afgreiðslu, þá get ég skilið, að þeir skrifi undir nál. Ef hv. þm. er aftur á móti ekki ánægður með þessa afgreiðslu á málinu, og það veit ég að hann er ekki, þá skilst mér, að það standi engum öðrum nær, en honum að taka þetta mál upp á réttum vettvangi. Ég sé það í nál. fjhn. Nd. á þskj. 530, að frv. hefur verið sent til umsagnar ríkisbókhaldsins, og þar stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta, í tölulið 4: „Um eign þá, er fiskimálasjóður telur sig eiga hjá ríkissjóði, er það að segja, að fjmrn. hafði ekki viðurkennt hana, þegar ríkisreikningurinn var gerður fyrir árið 1946.“ En það stendur ekkert um, hvort búið er að viðurkenna hana nú, það er sem sagt óupplýst. Samt leggur hv. frsm. og hv. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt hér í d. Það hefði verið æskilegt, að hægt hefði verið að upplýsa á þessu stigi málsins, t.d. í nál., hvernig er hægt að bæta þarna úr, þannig, að það hefði legið hreint fyrir við samþykkt á þessum ríkisreikningi, en hér veit enginn um þetta mál. Það er eins og það sé sjálfsagt, að þetta sé grafið og enginn fái að vita um það, af því að það eru 4 ár síðan þetta skeði. Ég er óánægður með afgreiðslu þessara mála í ár. Hér eru m.a. teknar upp 228 millj. kr. í staðinn fyrir 143 millj. kr. Hér er tæpum 100 millj. kr. eytt án þess að spyrja kóng eða prest. Það er verið að álasa okkur í fjvn., þegar við erum að leggja til 10.000 kr. eða 5.000 kr., en það er ekkert við því sagt, þó að ríkisstjórnir taki hundrað milljónir og eyði því eins og þeim sýnist, enda er það svo um samþykkt á ríkisreikningnum og aukafjárl., að enginn getur ráðið við það vegna þess, að það er dregið svo lengi að ræða um þessi mál í þinginu. Þetta er ekki ásökun á fjmrh. á hverjum tíma, það eru aðrir ráðandi menn, sem mestu eyða án þess að spyrja fjmrh. um. Mér er kunnugt um, að ekki alls fyrir löngu upplýstist, að búið var að taka lán upp á 12 millj. kr., án þess að fjmrh. vissi um það. En meðan fjármál ríkisins eru í slíkum höndum, þá er ekki von að vel fari og ekki von, að hægt sé að skapa festu í fjvn. og fjárveitingarvaldinu, meðan þetta er haft svona. Og svo er komið eftir 4 ár og sagt: Það er ekkert að gera annað, en að samþ. þetta, af því að það er svo gamalt og af því að það er enginn maður sem vill taka upp nýja stefnu. — Ég vildi óska, að hv. n. tæki þetta mál aftur til athugunar og umr. væri frestað, svo að hægt væri að upplýsa margt af því, sem hér er beðið um að upplýsa. Fáist það ekki, þá sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með samþykkt reikningsins. Það eru svo stór atriði, sem ekki eru upplýst, að við eigum heimtingu á að fá að vita, á hvaða stigi þessi mál standa. Ég sé ekki, að það séu nein vandræði fyrir n. að upplýsa fyrir Alþ., á hvaða stigi þessi atriði standa, sem deilt er um, og hvaða leiðir eru til þess að laga þetta, svo að það komi ekki fyrir aftur.