08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki að ófyrirsynju, að rætt er um þessi atriði, því að það er satt, sem hv. þm. Barð. (GJ) sagði, að í seinni tíð hefur verið mikið um það, að ríkisstjórnir hafi greitt úr ríkissjóði án þess að hafa heimild til þess í l., fjárl. eða öðrum l. En ég held samt, að það sé engin ástæða til þess að fresta umr. um þetta mál út af þessu og fjhn. þessarar d. fjalli meira um þetta á þeim grundvelli. Þessi samþykkt á ríkisreikningnum er ekkert annað en reikningsleg afgreiðsla, en það eru önnur l., sem Alþ. setur árlega og mér finnst þetta ætti að heyra undir, og það eru. fjáraukalög. Það mætti hugsa sér, að Alþ. neitaði að taka sumar greiðslur upp á fjáraukalög, og þá sýnist mér sú greiðsla í fljótu bragði vera orðin á ábyrgð ríkisstj. En yfirleitt er ekki gert ráð fyrir öðru út af þessum misfellum í embættisrekstri ráðh., ef það tekur til almennra hegningarlaga, heldur en það, sem segir í 14. gr. stjskr., sem er þannig: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ M.ö.o., ég sé ekki í fljótu bragði, hvað á að gera út af þessum atriðum, sem vísað er til aðgerða Alþ. af yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, annað en að kæra viðkomandi ráðh. fyrir landsdómi. Náttúrlega mætti setja einhverjar reglur og gera einhverjar ákvarðanir fyrir framtíðina, en út af þessu, sem orðið er, sé ég ekki, að annað sé hægt að gera. En það getur ómögulega komið sem viðaukagr. í l. um samþykkt á ríkisreikningnum, að ráðh. skuli kærðir. Það verður að vera sérstök ályktun um það, sem, ef nauðsyn þætti til bera, engum bæri frekar að bera fram, en yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, sem eiga sæti á Alþ. Eins og bent var á, þá er það svo með þetta frv., að einn af yfirskoðunarmönnum landsreikninganna á sæti í fjhn. Nd. og hefur þar lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt. Það sýnir, að hann hefur ekki litið svo á, að út af þessu væri hægt að gera neinar breyt. á frv. út af fyrir sig, svo að mér er ómögulegt að sjá, að það sé nokkurt gagn að því að fara að fresta þessu máli. Ef einstakir þm. og Alþ. í heild sinni vill gera frekari ráðstafanir út af þessum atriðum, þá verður að gera það, eins og hv. frsm. minntist á, á öðrum vettvangi, en út af þessu frv.