08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

96. mál, ríkisreikningurinn 1946

Gísli Jónsson:

Út af því, sem hv. frsm. n. sagði, vil ég leiðrétta það, ef hann hefur haldið, að ég hafi ætlazt til, að sett yrði inn gr. um að koma ábyrgð á hendur ráðh. Það var alls ekki það, sem ég átti við, en mér er óskiljanlegt, hvers vegna n. hefur ekki upplýst það, sem hér er verið að ræða um, því að það kemur ekkert við ábyrgðinni á hendur ríkisstj. Hér er spurt um í 3. tölul., með leyfi hæstv. forseta: „Á efnahagsreikningi jarðakaupasjóðs, bls. 110, er talin eign hjá ríkissjóði (6. eignaliður) kr. 205.509.59. En á efnahagsreikningi ríkissjóðs er skuld við jarðakaupasjóð aðeins talin kr. 188.034.59.“ Þessu er svarað hér í 3. lið þannig: „Mismunur þessi stafar af ágreiningi milli jarðakaupasjóðs og fjármálaráðuneytisins um það, hvort sjóðnum beri að annast ákveðnar greiðslur af vissum jarðeignum.“ Mér finnst alþm. eiga heimtingu á að fá að vita, hvort þessi ágreiningur er enn eða hve langt er síðan hann kom fram. Þetta hefði verið hægt að upplýsa.

Sama er að segja um 4. tölul., þar segir svo: „Á efnahagsreikningi fiskimálasjóðs, bls. 111, er talin eign hjá ríkissjóði, vegna færeyskra leiguskipa (eignaliður 17), kr. 422.008,50. Á efnahagsreikningi ríkissjóðs er skuld við fiskimálasjóð aðeins talin kr. 53.826.41.“ Í svarinu segir: „Um eign þá, er fiskimálasjóður telur sig eiga hjá ríkissjóði, er það að segja, að fjármálaráðuneytið hafði ekki viðurkennt hana, þegar ríkisreikningurinn var gerður fyrir árið 1946.“ Mér er þá spurn: Hefur fjmrn. viðurkennt þetta í dag? Á hvaða stigi stendur þetta mál? Og þannig er um allar þessar aths., sem hér eru. Þessi svör frá ríkisbókhaldinu eru alveg út í hött og ekki til að upplýsa þessi mál, og hvorki n. í Nd. eða Ed. kæra sig neitt um að fá málin upplýst, og á þetta ekkert skylt við það atriði, hvort ríkisstj. er ámælisverð fyrir að greiða fé án lagaheimildar. Hér er ágreiningur um stórkostleg atriði, eins og t.d. 4. lið, og ég verð að segja, að mér finnst það vera það minnsta, sem hægt er að gera kröfu um til fjhn., að hún fái þessi mál upplýst, áður en reikningurinn er samþykktur. Ég get vel skilið, að það sé ekki verk fjhn. að athuga, hvort ríkisstj. beri ábyrgð á milljóna eyðslu úr ríkissjóði, þó að ég hefði álitið, að það væri ekki nein goðgá, að eitthvað kæmi fram í nál. frá þeim aðila í þinginu sem fjallar um þetta mál. Það þarf ekki að vera nein ákæra, þó að bent sé á, að æskilegt væri, að slíkt væri stöðvað. Ég skal viðurkenna, að 1946 voru miklar sveiflur í viðskiptalífi Íslendinga, og það kann að hafa verið ógerlegt að áætla tekjur og gjöld, enda sýnir landsreikningurinn, að það var eytt meira en hægt var að afla tekna fyrir. En þegar verið er að taka stórkostlegt lán til þess að eyða tugum milljóna fram yfir það, sem áætlað var í fjárl., þá horfir málið verr við. Ég er ekki heldur að segja þetta til ásökunar, en ég vil benda á, að fjármál ríkissjóðs eru komin út í sandinn. Það eru engar hömlur lengur í þessum málum, ef það er látið óátalið, m.a. í áliti n., sem fjallar um þetta mál, að teknar eru hundruð milljóna króna fram hjá fjárl. og farið í bankana til þess að fá lán og því fé eytt án þess að spyrja að því. Ég er ekki að segja, að ráðh. baki sér ábyrgð með því, en það er nauðsynlegt, að slíkt sé sett sem aths. í nál., þegar reikningurinn er samþ., en það sést ekki í þessu nál., að það sé neitt við það að athuga. Hins vegar er það rétt, sem hæstv. forseti sagði, að sú hlið málsins hefði átt að ræðast í sambandi við samþykkt aukafjárl. En þessir liðir, sem ég minntist á áðan, aths. og svörin við þeim, það á að ræða hér undir þessum umr., og ég óska eftir að fá upplýst, hvernig stendur á þessum deiluatriðum, sem hér er rætt um á þskj. 530.