20.12.1949
Sameinað þing: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

38. mál, fjárlög 1950

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þessi tími, 15 mínútur, sem mér er ætlaður til andavara, gefur að sjálfsögðu ekki tilefni til að fara langt út í málin.

Ég tel ekki ástæðu til að svara hv. talsmanni kommúnista hér neinu. Öll málfærsla hans var eins og venja er til hjá þeim félögum, utanbókarlærdómur kommúnista, innflutt vara að mestu, sem leysir engin vandræði þjóðarinnar.

Hv. þm. Ísaf. álasaði Sjálfstæðisfl. fyrir, hvernig fjármálastjórn ríkisins hefði farið úr hendi á undanförnum árum, og vildi láta líta svo út sem sá flokkur bæri einn ábyrgð á öllu, sem miður hefur farið í þeim efnum. En ég bendi þessum hv. þm. á, að hans flokkur hefur verið í stjórn allan umræddan tíma, eins og Sjálfstæðisfl., og ber því ekki síður ábyrgð á þessum málum en öðrum, þótt fjármálaráðherrarnir hafi verið sjálfstæðismenn.

Hv. 1. þm. Rang. vítti það, hve fjárlagafrv. hefði verið lagt seint fyrir þingið. Ég get vel tekið undir þau ummæli hans, fjárlagafrv. á að leggja fram þegar í upphafi þings. En í haust stóð sérstaklega á, því verður ekki neitað. Ráðherrar Framsfl. höfðu rofið stjórnarsamstarfið og báðust lausnar strax áður en þing kom saman, og hér var því aðeins bráðabirgðastjórn við völd um það bil er þing kom saman. Síðan þessi stjórn, sem nú situr, var mynduð, eru, aðeins tvær vikur, og síðan hefur tíminn verið notaður til að taka saman það yfirlit um fjármál ríkisins, sem ég hef nú gefið hér. Það er skoðun mín, að ekki sé ástæða til að sakast um, að þetta yfirlit hefur ekki verið lagt fram fyrr, og alveg er það fráleitt að ásaka hæstv. fyrrv. fjmrh. fyrir að koma ekki með þessa ræðu, það hefur ekki tíðkazt, að aðrir flytji fjárlagaræðuna en sá, sem í embættinu er, þegar ræðan er flutt.

Hv. 2. þm. N-M. flutti hér nokkra gamla Tímadálka, sem oft hafa verið hraktir, og getur hann því ekki búizt við, að hann verði tekinn mjög alvarlega eða svarað miklu. Aðeins skal hv. þm. bent á, að bjargráð flokks hans hafa nú sýnt sig í verki. í ársbyrjun 1947 settust framsóknarmenn í ráðherrastólana og lofuðu að stöðva kapphlaupið milli verðlags og kaupgjalds. Árangurinn er nú kominn í ljós. Hann er m.a. sá, að kaupgjaldið hefur víða verið hækkað um 20–30%, og allt upp í 42%, svo sem hæstv. forsrh. upplýsti hér á Alþ. í dag. Jafnframt hefur vísitalan stórhækkað, þrátt fyrir það að milljónatugum hefur verið varið til niðurgreiðslu á henni. Að öðru leyti þykir rétt að minna þennan hv. þm. á, að strax og framsóknarmenn voru staðnir upp úr ráðherrastólunum 1942, réðust þeir á sínar eigin tilraunir til að stöðva dýrtíðina. Og loks er þessi hv. þm. minntur á, að það var Framsfl., sem rauf sambandið milli kaupgjalds og afurðaverðs á árinu 1940 og hrinti með því dýrtíðarflóðinu af stað. Flokkur þessa hv. þm. ætti því öllum öðrum flokkum síður að bera aðra sökum vegna dýrtíðarinnar.

Umræður hafa færzt, eins og vænta mátti, inn á dýrtíðarmálið og lausn þess, og kemst ég ekki hjá því að svara því nokkru.

Framsóknarmenn sýna nú í ræðu og riti, að þeir séu mjög hneykslaðir á því, að ríkisstj. skuli ekki nú þegar, tveimur vikum eftir að hún tók við störfum, hafa komið með fullkomna lausn, sem Framsfl. og aðrir flokkar þingsins hafa verið að glíma við síðastliðinn áratug. Hneykslun þessara manna er enn eftirtektarverðari fyrir þá sök, að forustumenn flokksins hafa setið í ríkisstjórn undanfarin ár, og á þeim tíma hefur engin varanleg lausn veríð tekin til meðferðar, heldur hefur öllu verið haldið fljótandi með bráðabirgðaráðstöfunum, og verðbólgan hefur á þeim tíma farið hraðvaxandi, með þeim árangri, að greiðsluhalli ríkissjóðs þennan tíma hefur orðið 175 millj. kr. og framleiðslukostnaður útvegsins á þessum sama, tíma aukizt stórkostlega. Í staðinn fyrir, að ríkissjóður hefur á þessu ári styrkt bátaútveginn með 37 millj. kr., mundi þurfa hvorki meira né minna en nær 60 millj. í viðbót á næsta ári, samkvæmt núverandi kröfum útvegsmanna, eða alls yfir 95 millj. kr., sem þá yrði að afla ríkissjóði nýrra tekna fyrir. Það er ekki að furða, þótt hv. þingmenn Framsfl. þykist undrandi yfir því, að hin nýja ríkisstj. skuli ekki þegar hafa leyst málið, daginn eftir að hún vissi um allar kröfur útvegsins, málið, sem hann og aðrir hafa verið að glíma við í mörg ár.

Hæstv. forsrh. gaf skýrslu til þingsins um þetta mál í dag og sagðist hafa fengið í gær að vita endanlega um allar kröfur útvegsins í sambandi við rekstur hans á næsta ári. Ef reiknað er með fyllstu kröfum, sem útvegurinn hefur sett fram, þá er um að ræða nær 60 milljónir, sem ríkissjóður þyrfti að bæta við þann styrk, sem greiddur verður á þessu ári. Ef til vill má fá þessar kröfur eitthvað lækkaðar. En það tekur tíma og verður ekki gert á einum degi að fá rétta og raunverulega mynd af því, hvernig málið stendur. Það tók margar vikur á síðasta ári. En þó að sú vitneskja lægi fyrir, hvers útvegurinn í raun og veru þarfnaðist sem lágmarks, þá væri þó eftir að leysa þann vanda, hvernig ætti að greiða þau gífurlegu gjöld, aldrei lægri en 65–70 millj. kr., sem útvegurinn þarfnast nú, ef hann á að halda áfram á næsta ári að starfa með ríkisstyrk.

Þeir geta talað digurbarkalega um ráðleysi og stefnuleysi ríkisstj., sem sjálfir hafa sýnt, að þeir hafi ráð undir rifi hverju og séu færir að leysa hvern vanda. En stjórnarferill framsóknarmanna undanfarandi ár hefur ekki sýnt, að þeir geti djarft úr flokki talað í þessu efni. Þeir hafa ekki bent á nein ráð og ekki reynzt færir um að leysa neinn vanda. Ríkisstj. hefur tekið við málunum í því ástandi, sem þau eru nú í, komin úr höndum þeirra framsóknarmanna, sem mest geipa nú um, að aðrir leysi þau ekki, án undirbúnings og án tafar.

Ég skal ekkert um það segja á þessari stund, hvað reynt verður að gera til þess, að útvegurinn stöðvist ekki. Ríkisstj. mun vinna að því, meðan hv. þingmenn hvíla sig yfir jólin. En enginn skyldi láta sér til hugar koma, að hér sé um að ræða auðveldan og skemmtilegan leik, sem ekki þurfi nema herzlumuninn til að framkvæma öllum til velþóknunar og ánægju. Mál þetta er nú, eins og komið er, eitthvert örlagaríkasta vandamál, sem legið hefur fyrir þingi og stjórn að leysa síðastliðinn áratug.

Það verður hvorki leyst með fávíslegum slagorðum né tilefnislausum og klunnalegum árásum á ríkisstj. Það verður heldur ekki leyst með skömmtunarseðlum, sem á að breyta í innflutningsleyfi, né með stóríbúðaskatti, sem rekur alþýðufólk út af heimilum sínum. En slík eru ráðin sem Framsfl. ber fram fyrir þjóðina.

Þetta mál verður aðeins leyst, ef þjóðin lætur sér skiljast það, að atvinnulíf hennar, fjárhagur og framtíðarafkoma er í stórkostlegri og yfirvofandi hættu, og að raunverulega er aðeins ein lausn til, sú eina lausn, að koma á jafnvægi í efnahagsstarfsemi landsins. En sú starfsemi er nú öll komin úr skorðum og í fullkomið öngþveiti, vegna þess að allir hafa til þessa, einstaklingar og stéttir, hugsað um það eitt að skara eld að sinni köku og sýnt fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart öllum öðrum sjónarmiðum.

Ef lausn þessa vandamáls, sem nú stendur fyrir dyrum, verður af þjóðinni sjálfri gerð að sandi og ösku í höndum þeirra, sem slíka lausn eiga að framkvæma, þá kveður þetta þjóðfélag upp örlagadóminn yfir sjálfu sér — dóm upplausnar og gjaldþrots.