03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

38. mál, fjárlög 1950

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið sammála meiri hl. nefndarinnar um afgreiðslu frv. og gefið út sérstakt nefndarálit.

Afgreiðsla fjárlaga hefur nú tafizt mikið, og eru ýmsar ástæður til þess, en mest er það þó vegna þeirra afleiðinga, sem gengislækkun íslenzku krónunnar hefur haft, því að það hlaut að vera, að áhrif hennar yrðu mjög mikil, en þau hafa jafnvel orðið enn meiri en þeir, sem samþykktu gengislækkunarlögin, gerðu ráð fyrir, þegar það frv. var lagt fram.

Þegar þetta fjárlfrv. er borið saman við fjárlög undanfarinna ára, virðist sem nokkuð sé stefnt inn á aðra braut, en þar hefur verið farin. Það er staðreynd, að þegar þetta fjárlfrv. var lagt fram í haust, þá voru rekstrarútgjöld þess lægri, en á fjárlögum undanfarinna ára, t.d. borið saman við fjárl. síðasta árs, þar sem niðurstöðutölur bæði gjalda og tekna á sjóðsyfirliti námu 287 millj. og halli sama sem enginn, eða rúmlega 1/2 millj.

Eins og þetta frv., sem samið er af fyrrv. ríkisstj., þeirri sem næst síðast sat, ber með sér, er rekstrarafgangur þess yfir 37 millj. Hins vegar er greiðslujöfnuður hagstæður um 4 millj. En nú hefur verið gerð grein fyrir því af hv. frsm. meiri hl. fjvn., að samkvæmt till. þess meiri hl. hækki útgjöldin um 18,2 millj., og kemur það til með að skila frv. með hér um bil 14 millj. kr. greiðsluhalla, þegar búið er að greiða vexti og afborganir af lánum.

Hér er þó að gæta þess, að lagt er til að fella niður liði, sem voru miklir póstar á síðustu fjárlögum og þá voru áætlaðir 64 millj. 640 þús. kr., þ.e.a.s. dýrtíðargreiðslurnar, en nú eru þær áætlaðar 33,5 millj. kr., og þar af leiðir, að felld eru niður útgjöld til fiskábyrgðar, 31 millj. 140 þús. kr. Þessi upphæð dregur nokkuð úr útgjöldunum, og sést þá, að áætlun um framlag til annarra hluta er hærri, svo að í raun og veru er þróunin sú sama og verið hefur, þ.e.a.s. hækkandi, en ekki lækkandi. Ég vil í sambandi við þetta benda á það, að þessi liður til dýrtíðarráðstafana, sem nú er áætlaður 33,5 millj., er að öllum líkindum óraunhæfur, ef dýrtíðarráðstafanirnar eiga að ná þeim tilgangi sínum að greiða niður vöruverð í landinu það mikið, að vísitalan hækki ekki. Þessa skoðun mína vil ég rökstyðja með því að benda á þær upphæðir, sem á undanförnum árum hafa farið til niðurgreiðslna skv. ríkisreikningum og farið hafa hækkandi frá því 1946. Þessar tölur, sem teknar eru úr ríkisreikningunum, benda til þess, að þessi liður sé nú óraunhæfur. Á ríkisreikningi 1945 eru þessar niðurgreiðslur 26.487.879 kr. Á ríkisreikningnum 1946 voru þær 16.245.874 kr., 1947 voru þær 35.930.368 kr., og 1948 voru þær 44.611.145 kr., eða m.ö.o. voru þær 1948 einum fjórða hærri, en hér er áætlað. Nú er það enn fremur vitað, að framleiðslukostnaðurinn hefur hækkað svo að segja á öllum sviðum, svo að það getur varla hjá því farið, að þessi liður eigi eftir að hækka, því að þessi upphæð nægir hvergi til þess að halda niðri vísitölunni; svo að dýrtíðin hækkar og verðlagið í landinu. Þessi áætlun fær því tæplega staðizt við þær aðstæður, sem við eigum nú við að búa.

Þegar þetta er athugað, vil ég leyfa mér að minnast með fáum orðum á þau áhrif, sem gengislækkunin hlýtur að hafa á fjárlögin og koma að sumu leyti fram beinlínis, þannig að sumar upphæðirnar hækka beinlínis og jafnmikið og gengislækkuninni nemur, en að sumu leyti koma þau fram óbeinlínis sem hækkun, sem kemur ekki beint fram á sjóðsyfirliti, t.d. greiðslur og útgjöld ýmissa ríkisstofnana. Þannig er t.d. í brtt. meiri hl. gert ráð fyrir því, að útgjöld landssímans hækki á fimmtu millj. kr., og þar af er um ein millj. vegna gengislækkunarinnar, og til þess að fá meiri jöfnuð og mæta þessu verða afnotagjöldin hækkuð. Þessi hækkun gerir það að verkum, að það kemur ekki niður á niðurstöðutölum í sjóðsyfirlitinu. Þetta dæmi, og ég get tekið fleiri, sýna að dýrtíðin í landinu hækkar meira en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Gengistap landssímans er þó helmingi meira en þessar 1.200 þús. kr., eins og sést á þskj. 611. Það er aðeins helmingurinn af gengistapinu færður á þetta ár. Gengistap póstsjóðs er á fjórða hundrað þúsund, svo að samtals er gengistap þessara tveggja stofnana hátt á þriðju, millj. króna.

Í sambandi við þetta vil ég enn fremur minna á tilraun, sem fjvn. gerði í fyrra til þess að fá dregið úr rekstrarkostnaði ríkisins. Hún lagði mikla vinnu í það að athuga þá hækkun, sem orðið hafði á næsta ári á undan, og niðurstaða þeirrar athugunar var, að hækkunin var um 20 millj. kr. Þetta varð til þess að fjvn. gerði margar tilraunir til þess að fá dregið úr þessu. Flutti n. þá 150–160 till., og af þeim munu 50–60 hafa verið um lækkun á liðum í embættisrekstri ríkisins. Þegar þessar till. komu fyrir þingið, voru þær felldar nálega allar fyrir atbeina meiri hl. þm. þeirra flokka, sem þá stóðu að ríkisstj., og þó voru þessar till. gerðar eftir till. sparnaðarnefndar, sem sú sama ríkisstj. hafði skipað, og hefði því mátt búast við því, að ríkisstj. tæki þeim tveim höndum og samþ. þær, en það var öðru nær. Þó að mikið hafi verið um það rætt í n. að taka þessar till. upp aftur núna eða þá stefnu, sem í þeim kom fram, er það skoðun meiri hl., að það sé þýðingarlaust vegna þeirrar reynslu, sem fékkst í fyrra.

Þegar hér er komið afgreiðslu fjárlaga, liggur það fyrir, að ef allar brtt. meiri hl. verða samþ., er útlit fyrir, að þau verði afgreidd með 14 millj. kr. rekstrarhalla. Nú veit ég ekki, hvort það hefur verið tilgangur ríkisstj. að hafa það þannig, en mér er nær að halda, að svo hafi ekki verið. En ég vil benda á það hér, að enn eru óafgreiddir mjög mikilvægir póstar, sem koma til með að hafa mikil áhrif á heildarafgreiðslu fjárlaganna, og meiri hl. fjvn. og ríkisstj. hafa ákveðið að láta þá bíða 3. umr., og verð ég að segja, að mér þykir það fljótvirknisleg afgreiðsla af hendi beggja. Þó vil ég taka það fram í þessu sambandi, að það hefur ekki staðið mikið á fjvn., en hins vegar hefur staðið á ríkisstj. og till. hennar, sem stuðningsmenn hennar í n. hafa orðið að taka fullt tillit til.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að engar brtt. væru enn komnar um hækkun á utanríkisþjónustunni frá n., en hins vegar hafi ríkisstj. gert till. um að hækka þennan lið um helming. Þetta er alveg rétt, en það hefði átt að afgreiða þetta alveg nú. Þá benti hv. frsm. einnig á það, að till. vegna ákvæða dýrtíðarlaganna um sjóveð væru ekki komnar enn, og ég vil enn fremur leyfa mér að benda á það, að ekki eru heldur komnar neinar till. um lögboðnar greiðslur samkvæmt lögunum um vatnsveitur, og ekki heldur samkv. l. um mjólkurstöðvar, og um það hefur heldur ekki verið tekin nein afstaða í fjvn., hvernig fara skuli með uppbætur á laun opinberra starfsmanna, sem í fyrra voru afgreiddar í þinglok með þál., eftir að fjárlög höfðu verið samþ., og það verður ef til vill svo núna, að það verði látið bíða þar til afgreiðslu fjárlaga er lokið, eins og þá. Nú er það vitað, að nefnd hefur verið starfandi að undirbúningi nýrra launalaga fyrir og í samvinnu við ríkisstj., og það er enn fremur vitað, að þau lög munu koma til með að hækka greiðslur ríkissjóðs að mun. Hins vegar kann svo að fara, að ríkisstj. fari enn þá leið, sem farin hefur verið, heimildarleiðina, og var ekki annað að heyra á hæstv. fjmrh. bæði nú í dag og eins fyrir páskana, en að fyrirhugað sé að greiða þessar uppbætur áfram í einhverri mynd, og má þá gera ráð fyrir, að þær muni ekki nema minna en 12 millj. kr. Þegar þetta er athugað, verður niðurstaðan sú, að þær ókomnu greiðslur, sem líkur eru til að ríkisstj. ætli sér að taka inn á fjárlög, munu líklega nema 16–17 millj. kr., og mundi það þá skapa um 30 millj. kr. greiðsluhalla á fjárl.

Þá er enn fremur á það að minna, að stærsta atriðið er enn þá óafgreitt í fjvn., vegna þess að engar till. hafa komið fram um það frá ríkisstj., þ.e. hvorki meira né minna en sjálf tekjuáætlunin á 2. gr. frv. Þetta er nú fimmta árið, sem ég hef verið eitthvað við afgreiðslu fjárlaga, og það hefur aldrei komið fyrir áður, að ekki hafi verið við 2. umr. málsins hægt að sjá, hvernig áætla bæri þennan lið, svo að alþm. hefðu hugmynd um það, hvernig mæta ætti gjöldum ríkissjóðs.

Í tekjuáætluninni eru tekjurnar aðallega á tvennan hátt á 2. gr., þ.e.a.s. beinir skattar og tollar. Frv. þetta var samið s.l. haust, áður en gengislækkunin var gerð. Sú breyting, sem síðan hefur verið gerð á gengi íslenzku krónunnar, hlýtur að hafa í för með sér veruleg áhrif á tekjur ríkisins. En það er líka annað, sem þessi tekjuöflun byggist á, það er útflutningurinn og innflutningurinn hjá þjóðinni á hverjum tíma. Það fer eftir atvinnunni í landinu og framleiðslunni og eftir því, hve mikið við getum flutt út af þessari framleiðslu, hvað miklar gjaldeyristekjur við fáum, en eftir þeim fer svo aftur innflutningurinn, og tolltekjurnar fara svo eftir því, hve mikill innflutningurinn er. Nú þætti mér gott að fá að heyra það frá hæstv. fjmrh., hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessu, hvort það sé meiningin að afgreiða fjárlögin með greiðsluhalla eða ekki, og ef það á ekki að afgreiða þau með greiðsluhalla, hvernig ríkisstj. hugsi sér þá að afla tekna til þess að koma í veg fyrir að svo verði.

Eitt af því, sem gert hefur fjvn. erfitt um afgreiðslu þessara fjárl., er það, að engin innflutningsáætlun lá fyrir frá fjárhagsráði, en í 3. gr. laganna um fjárhagsráð, síðustu málsgr., stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur semur fjárhagsráð fyrir ár hvert heildaráætlun um útflutning og innflutning þess árs, magn og verðmæti. Skal áætlun þessi miðast við það að hagnýta sem bezt markaðsmöguleika og fullnægja sem hagkvæmast innflutningsþörf landsmanna.“

Vitanlega á þessi áætlun fjárhagsráðs að liggja fyrir, þegar endanlega er gerð áætlun um tekjuöflun ríkissjóðs, en engin slík áætlun lá fyrir fjvn., og mér er ekki kunnugt um, hvort hún er til, en hún átti að vera til um áramót. En ýmislegt bendir nú reyndar til, að þessi áætlun hafi verið til fyrir nokkru, þó að fjvn. hafi ekki fengið að sjá hana, og er hún þá eitthvert leyniplagg í höndum ríkisstj., sem enginn fær að sjá, þó að hún ætti vitanlega að vera opinber heimild, sem allir hafa aðgang að. Ég vil benda á það, að þegar fram fóru umr. í vikunni fyrir páska um framlengingu á III. kafla l. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, þá lét hæstv. fjmrh. þau orð falla, að líkur væru fyrir því samkvæmt innflutningsáætluninni, að um 30 millj. tekjuauki yrði af innflutningnum, og það bendir óneitanlega til þess, að einhver innflutningsáætlun hafi þá legið fyrir. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvers vegna fjvn. fær ekki að sjá hana, svo að hægt sé að byggja eitthvað á þeim grundvelli áætlun fjárlagafrv. um tekjur. Ég vil enn fremur beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvort gert sé ráð fyrir auknum tekjum af tollum vegna gengislækkunarinnar, ef innflutningur er áætlaður sami og í fyrra, og hvort gert er ráð fyrir þeirri útgjaldahækkun, sem verður vegna gengislækkunarinnar, og hvort þessi upphæð, 30 millj. kr., eigi að fara til þess að mæta greiðsluhalla, sem verður vegna þeirra; eða ef innflutningurinn minnkar, eins og gert er ráð fyrir, hvort þá sé gert ráð fyrir því að mæta þessum greiðsluhalla með nýjum sköttum. Þau orð, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. lét falla hér áðan um það, að það hefði komið til orða milli ríkisstj. og fjvn. að bæta við nýjum sköttum, benda til þess, að gert sé ráð fyrir, að innflutningur minnki, og þess vegna muni tekjur ríkissjóðs ekki vaxa að sama skapi sem þær ættu að vaxa vegna þess að tollar hækka vegna gengislækkunarinnar, og þess vegna sé meiningin að bæta við nýjum sköttum, til þess að forðast annars væntanlegan greiðsluhalla.

Þetta voru helztu atriðin í því, sem ég vildi taka fram nú. Má vera, að ég segi eitthvað seinna, a.m.k. ef ég fæ svar við þessum spurningum frá hæstv. ráðh.