03.05.1950
Sameinað þing: 43. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

38. mál, fjárlög 1950

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er hverju orði sannara, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér í upphafi máls síns, að það er í verulegt óefni komið fyrir Alþingi, þegar það ár eftir ár hefur að engu skýr fyrirmæli stjórnarskrárinnar um afgreiðslu sjálfra fjárlaganna. Þar segir, að leggja beri frv. til fjárl. fram fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fari, og ekkert gjald megi inna af hendi nema samkvæmt heimild fjárl. eða fjáraukal.

Á þessu þingi var fjárlagafrv. ekki lagt fram fyrr en í nóvemberlok og vísað til n. ekki fyrr en 20. des., rétt fyrir jól, í sama mund og alþingismenn voru að fá jólafrí sitt. Af þessum sökum var ekki neitt að ráði farið að vinna að frv. fyrr en síðari hluta aprílmánaðar, og er nú skilað af hendi fjvn. 1. maí. Það er því augljóst, að það er ekki sök fjvn., að ákvæði stjórnarskrárinnar um afgreiðslu fjárl. er að engu haft, svo að 1/3 hluti fjárhagsársins er liðinn, þegar fjárl. verða afgr. Það er því í raun og veru alls ekki of djúpt tekið í árinni að segja, að það sé hneyksli, sem endurtaki sig ár eftir ár, að fjárl. eru ekki afgr. fyrr en langt er liðið á það fjárhagsár, sem þau eiga að gilda fyrir. Með því er fjárveitingavaldið í rauninni dregið úr höndum Alþingis og í hendur ríkisstj. á hverjum tíma. Það er stjórnað fjárlagalaust fyrri hluta árs, og svo koma fjáraukalög ekki fram fyrr en 3–4 árum seinna, þegar mikil breyt. er orðin á skipun þingsins. Ríkisreikningurinn kemur ekki heldur fyrr en eftir mörg ár. Eins og hv. þm. vita, var hér nýlega til umr. ríkisreikningurinn fyrir 1946.

En þó að afgreiðsla fjárl. sé svona seint á ferðinni, þá er nú samt ekki enn búið að ganga frá tekjuhlið frv. Hæstv. ráðh. vék að þessu, áðan og lét í ljós undrun sína yfir, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar væru ekki mikilvirkari í að koma með brtt. af sinni hendi til sparnaðar, sem þeir þættust hafa í huga. Ég verð að segja, að mér finnst það öfugt, ef hæstv. fjmrh. í alvöru ætlast til þess, að stjórnarandstaðan hafi vit fyrir honum, marki stefnu um sparnað á ríkisrekstrinum og hann fengi till. frá stjórnarandstöðunni um sparnað, en hafi ekki forustuna sjálfur. (Fjmrh.: Það væri gott, ef menn hefðu vit fyrir sjálfum sér.) Já, en það er ekki hægt að ætlast til, að stjórnarandstaðan hafi vit fyrir ríkisstj.

Meðan svona er, að ekki er búið að ganga frá tekjuhlið fjárl., þá er ekki hægt fyrir þm. að gera sér hugmynd um, hvort jöfnuður fáist á fjárlagafrv., þegar það verður endanlega afgr., eða hvort grípa verði til stórfelldrar skattahækkunar. Það er að vísu vitað, að verðtollur o.fl. á tekjuhliðinni á eftir að hækka stórlega í sambandi við gengislækkunina. Verðtollurinn, sem er áætlaður 58 millj., á vafalaust eftir að hækka um 50–55%, eða upp í 85–90 milljónir.

En jafnaugljóst er, að gjaldaliðir frv. eiga eftir að hækka til mikilla muna. Vatnsveitur, mjólkurstöðvar, uppbót á laun opinberra starfsmanna og ótal margir fleiri liðir eiga vafalaust eftir að hækka um margar milljónir króna. Það er ekki á þessari stund hægt að gera sér neina hugmynd um, hvernig eða hvort jöfnuður fæst á frv., meðan svona er gengið frá því.

Gengislækkunarlögin, „viðreisnarlögin“, eins og hæstv. ráðh. og málgagn ríkisstj. kölluðu þessa löggjöf, meðan frv. var til meðferðar í þinginu, markar mjög djúp spor í þessu frv. Í raun og veru eru það fyrst og fremst gengislækkunarl., sem setja svip á það, öllu öðru fremur. Það eru ekki nýjar fjárveitingar af hálfu n., eins og hæstv. ráðh. tók fram, heldur eru það gengislækkunarlögin, „viðreisnarlöggjöf“ hæstv. ríkisstj. Þetta sést strax, ef litið er á vexti af lánum. Vextir ríkissjóðs af dönskum lánum, sem áætlaðir voru 201 þús. kr., eru nú taldir þurfa að hækka vegna gengislækkunarinnar upp í 321 þús. kr. Einnig eru vextir af lánum ríkissjóðs í dollurum, sem voru í fjárl. síðasta árs áætlaðir 374 þús. kr., en í frv. þessa árs 1.077 þús. kr., taldir þurfa að vera vegna gengislækkunarinnar 1.877 þús. kr., og hækka vextirnir af erlendum lánum þannig um 937.021 kr., eins og hv. form. fjvn. hefur þegar tekið fram.

Gengislækkunin veldur einnig verulegri hækkun á rekstri ýmissa ríkisstofnana. Þannig er t.d. gert ráð fyrir 2.4 millj. kr. gengistapi hjá landssímanum og stórauknum rekstrarútgjöldum í sambandi við allar opinberar framkvæmdir, svo sem hafnargerðir, brúargerðir, vitamál, raforkuframkvæmdir. Rekstur Skipaútgerðar ríkisins hækkar t.d. um 3 millj. kr. vegna gengislækkunarinnar. Gert er nú ráð fyrir, að Sogsvirkjunin kosti um 150 millj. kr., en um 80 milljónir fyrir gengislækkunina. Laxárvirkjunin á að kosta 44 milljónir, en 25–30 milljónir fyrir gengislækkunina.

Utanríkismálin sýna þó ef til vill einna gleggst, hvaða áhrif gengislækkunin hefur á ríkisbúskapinn. Till. fjvn. um það efni eru ekki komnar í ljós enn, en till. eru komnar frá ríkisstj., hvernig þessir liðir breytist vegna gengislækkunarinnar. Sendiráðið í Kaupmannahöfn hækkar úr 122 þús. í 222 þús. kr. Það er 100 þús. kr. hækkun. Sendiráðið í Stokkhólmi gerir þó betur. Það hækkar úr 120.300 kr. í 236.700 kr., eða um 116.400 kr. Sendiráðið í London, sem í fjárl. 1949 var talið mundu kosta 263.500, er á fjárlfrv. þessa árs talið kosta 305.500, en eftir gengislækkunina hvorki 263 né 305 þús. kr., heldur 570.300 kr. Sendiráðið í Washington, sem á síðasta árs fjárl. var talið mundu kosta 220 þús. kr., er í frv. þessa árs áætlað á 364.500 kr. og eftir gengislækkunina 661.300 kr. Sendiráðið í Moskvu var á síðasta árs fjárlögum talið kosta 246.300 kr., á fjárlfrv. þessa árs 400.000 kr. og eftir gengislækkunina hvorki meira né minna en 967 þús. kr., eða því nær eina milljón króna (Fjmrh.: Ekki er það allt gengisbreytingin.) Það er gengisbreyt. á rúblunni, sem veldur þessu líka. Sendiráðið í París hækkar úr 260.900 kr. í 470.400 kr. Sendiráðið í Osló hækkar úr 134.300 kr. í 247.700 kr. Aðalræðismannsskrifstofan í Hamborg hækkar úr 107.700 kr. í 197.300 kr. Aðalræðismannsskrifstofan í New York, sem var í síðasta árs fjárl. með 23.500 kr., er nú í frv. með 31.300 kr. og eftir gengislækkunina með 54.400 kr. Ferðakostnaður erlendis hækkar úr 75.000 kr. í 125.000 kr. Kostnaður við samninga við erlend ríki hækkar úr 250 þús. kr. í 550 þús. kr. Kostnaður við þátttöku í alþjóðaráðstefnum hækkar einnig úr 250 þús. kr. í 550 þús. kr. Áætlunarliður til upplýsingarstarfsemi hækkar úr 10 þús. kr. í 15 þús. og kostnaður vegna kjörræðismanna úr 5 þús. í 10 þús. kr. Samtals hækkar þessi eini liður fjárlaganna, sem var 2.4 millj. kr., í 2.8 millj., eða um 100%. Hann tvöfaldast m.ö.o. Á sama hátt hækka öll framlög Íslands vegna alþjóðlegrar samvinnu, svo sem tillag til Sameinuðu þjóðanna úr 156 þús. kr. í 272 þús. kr. Tillag til alþjóðavinnumálastofnunarinnar hækkar úr 47 þús. kr. í 82 þús. kr. Tillag til heilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna hækkar úr 18750 kr. í 33000 kr. og tillag til alþjóðaflóttamannastofnunarinnar úr 108 þús. kr. í 400 þús. kr. Raunar setur gengislækkunin verðhækkunarmerki sín á flesta liði frv., en þetta verður að nægja sem sýnishorn.

Það hefur oft verið talað af miklum fjálgleik og vandlætingu um, að menn hefðu áhuga fyrir því að draga úr nefndafargani og útþenslu ríkisbáknsins. Er nú gert ráð fyrir því í fjárlfrv. að leggja niður fjölda af launuðum n.? Ég minnist þess ekki, að neinar slíkar till. hafi legið fyrir fjvn. að þessu sinni frá hæstv. ríkisstj., og þá ekki heldur neinna myndarlegra átaka um að draga úr ríkisbákninu. Ég hafði, og ég hygg margir, búizt við, að eitthvað kæmi frá hæstv. ríkisstj. í þá átt, þegar búið er að grípa til ráðstafana, sem þyngja byrðarnar á öllum stéttum þjóðfélagsins eða flestum stéttum, a.m.k. öllum þeim, sem höllustum fæti standa fjárhagslega. En ég hef ekki heldur orðið var við það, heldur þvert á móti till., sem stefna að enn meiri útþenslu á þessu ríkisbákni (Fjmrh.: Hvaða till. eru það?) Ég skal nú koma að því. Borgardómaraembættið átti að kosta samkvæmt síðustu fjárl. 258 þús. kr. Nú er áætlað, að það kosti 281.600 kr. Sakadómaraembættið var 1949 543 þús. kr., en nú 601.325 kr. (Fjmrh.: Vill ekki hv. þm. kynna sér, hvað þessi embætti hafa raunverulega kostað?) Það er nú svo vísdómslegt, að þrátt fyrir það, að komið er langt fram á árið 1950, þá liggur ríkisreikningurinn fyrir 1949 ekki fyrir enn, svo að ég hef ekki átt þess kost að kynna mér, hversu mikill kostnaðurinn hefur verið. Svona eru hækkanirnar hlutfallslega frá síðasta árs fjárl. til frv., eins og það liggur nú fyrir. Hegningarhúsið og vinnuhælið voru talin á fjárl. 1949 370 þús. kr., en eru nú 434 þús. kr. Annaðhvort er nú dýrara að tukthúsa menn en áður, eða það þarf að tukthúsa fleiri. Eftirlit með verksmiðjum og vélum var 111 þús. kr. árið 1949, en nú 120 þús. Löggildingarstofan, sem virðist ekki vera stór stofnun, var 35 þús. kr. á síðasta árs fjárl., en nú 57 þús. kr. Fiskimatið var 1949 samkvæmt fjárl. 235 þús. kr., en nú 332 þús. Eftirlit með viðskipta- og verðlagsmálum og hið mikla fyrirtæki, Skömmtunarskrifstofa ríkisins, sem átti að kosta samkvæmt áætlun fjárl. 1949 2.1 milljón, er nú ráðgert að kosti samkvæmt fjárlfrv. 3.5 millj. kr. Það er 1.4 millj. kr. hækkun frá síðasta árs fjárl. á þessari einu stofnun, sem hefur ekki nokkur áhrif á verðlagið og ekki er kunnugt, að komi að neinu gagni. Þó á að eyða í hana 31/2 millj. kr. Þannig er útþensla ríkisbáknsins, sem allir fordæma. Fyrir síðustu kosningar hafði ég nokkur kynni af manni úr liði stj. Hann fordæmdi alla útþenslu ríkisbáknið og nefndafargan. Allur sá ófögnuður átti að fylgja jafnaðarstefnunni, og þetta átti allt að afnema. Nú eru kosningar liðnar og langt liðið á þetta þing, og ekki bólar enn á, að eigi neitt að minnka nefndafarganið eða taka fyrir útþenslu ríkisbáknsins. Kannske koma þessar till. fyrir 3. umr. fjárl., og þá þarf ekki að óttast, að verði halli á afgreiðslu þeirra.

Kostnaður við innheimtu tolla og skatta hefur líka hækkað á annað hundrað þúsund krónur, og tollgæzlan í Reykjavík hækkar líka um 142 þús. kr. Þannig má lengi telja. Ég veit ekki, hvort þeim hæstv. ráðh., sem greip fram í fyrir mér áðan, þykir þetta tæmandi, og það er fjarri því, að það sé tæmandi, það eru aðeins nefndir nokkrir liðir.

Einn er þó sá liður, sem nokkuð er dregið úr. Það er framlag til vega, hafna og brúa. Þar er veitt um það bil sama upphæð og síðast í krónutali, en það þýðir minni framkvæmdir en síðastliðið ár, því að nú verður allt dýrara en fyrr. Og þótt merkilegt sé, þá held ég, að enginn í fjvn. hafi möglað við þeim ráðstöfunum.

Mér finnst það ekki heldur bera vott um mikla viðleitni til að draga ríkisbáknið saman, þegar embætti stendur eftir með á annað hundrað þúsund króna útgjöldum á fjárl., en embættismaðurinn, sem þessu embætti á að gegna, er fluttur búferlum úr landi og sennilega með samþykki hæstv. ríkisstj. upp á þau býti, að hann skuli vera í embættinu áfram, hafa skrifstofu úti í Kaupmannahöfn, en eiga áfram að sjá um klak í ám og vötnum á Íslandi. Mér hefði fundizt, að ef ríkisstj. hefði haft huga á að draga ríkisbáknið saman, hefði hún átt að leggja þetta embætti niður um leið og maðurinn flutti úr landi eða gera skipulagsbreytingu á þessu og leggja það undir Búnaðarfélag Íslands, og hefði það þá kostað sáralitla peninga. Ég hygg, að fólki úti um land sé lítil huggun í því, þó að hér skammt frá alþingishúsinu sé skrifstofa full af bókum um það, hvernig eigi að rækta silung í ám og vötnum, þegar það fær engar leiðbeiningar þaðan um þessi mál. Að mínu áliti ætti sem sagt að leggja veiðimálastjóraembættið niður, ef sýna á nokkra viðleitni í þá átt að spara. — Fyrir þessu Alþ. liggur frv. um að leggja niður alla minkarækt í landinu. Mér þykir líklegt, að þetta verði samþykkt og að gengið verði af síðasta minknum, sem er í búri, dauðum með ákveðinni löggjöf, en það verður samt eftir stofnun, embætti, þó að þetta yrði samþ., því að þá verður embætti loðdýraræktarráðunautar ríkisins eftir. Mér hefði nú fundizt, að það mætti hverfa. Ef til vill kemur till. frá hæstv. ríkisstj. um það, áður en frv. fer til 3. umr. (Fjmrh.: Eða frá hv. þm.) Ég mundi gera till. um það, að þetta embætti yrði lagt niður, svo framarlega sem till. um að leggja minkarækt niður yrði samþykkt. En þegar minnzt er á það í fjvn. að leggja niður t.d. þessi embætti, er sagt sem svo: Já, það er nú komið hálft ár og búið að standa straum af þessum embættum þann árshluta, sem liðinn er, og ekki hægt að losna við þessa embættismenn nema með minnst 6 mánaða uppsagnarfresti. Þetta þýðir, að við svo búið verður að standa út þetta ár. Með öðrum orðum, afleiðingar þess, hvað fjárlagaafgreiðslan er seint á ferðinni, eru þær, að ekki er hægt að gera leiðréttingar í ríkisrekstrinum, sem snerta jafnaugljósa hluti sem þessa. Fjvn. er þannig að vissu leyti með bundnar hendur og getur ekki gert þær till., sem hæstv. ráðh. raunverulega óska, að nm. geri.

Ég skal nú stytta mál mitt. Ég skal aðeins taka fram í sambandi við þær háu upphæðir, sem eru komnar á 18. gr. fjárl., að ég álít, að það sé orðin ein endileysa. Ég sé ekki, að sá mikli mismunur, sem þarna er á tölum, styðjist við neitt annað en hve volduga aðstandendur þeir einstaklingar eiga, sem þarna eiga að fá fjárhæðir úr ríkissjóði. Ef það er uppgjafa embættismaður, fær hann þúsundir, en sé það t.d. póstur, skal hann hafa nokkur hundruð á 18. gr. Ég held, þó að það fengi kannske litinn byr hér, að 18. gr. ætti öll að strikast út og allir menn og konur úr öllum stéttum að búa jafnt við þau eftirlaun, sem tryggingasjóður getur veitt öllum, sem búnir eru að slíta sér út fyrir þjóðina.

Ég viðurkenni fyllilega þörfina á því að afgreiða tekjuhallalaus og greiðsluhallalaus fjárlög, og ég veit, að minn flokkur mun síður en svo bregða fæti fyrir það, ef ríkisstj. sýndi raunverulega viðleitni í þá átt.

Að síðustu vil ég svo aðeins víkja að því, sem ég hóf mál mitt með, að ég tel mjög vítavert, þegar það endurtekur sig ár eftir ár, þó að það sé greinilega lögbrot, að afgreiða ekki fjárl. fyrr en margir mánuðir eru liðnir af fjárhagsárinu. Af störfum mínum í fjvn., í þetta eina skipti, sem ég hef starfað í henni, hef ég sannfærzt um það — og ég veit, að hv. form. er mér þar sammála —, að með rösklegu og skipulegu eins mánaðar starfi í fjvn. er hægt að afgreiða fjárlög, ef þau eru sæmilega undirbúin af ríkisstj. Það er því eitthvað, sem liggur á bak við, sem ekki er látið uppi, þegar það er gert að algildri reglu ár eftir ár að stjórna fjárlagalaust jafnvel hálft árið.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég hef sem sagt síður en svo staðið í vegi fyrir því, að meiri viðleitni yrði sýnd í sparnaðarátt og til þess að draga úr ónauðsynlegum útgjöldum. Og ég hygg, að þegar búið er að ganga svo mjög á hagsmuni þjóðarinnar sem raun ber vitni, eigi hún erfitt með að sætta sig við áframhaldandi eyðslustefnu af hálfu ríkisvaldsins. — Eitt af því, sem ég heyrði minnzt á í fjvn. í sparnaðarátt, var það, hvort nauðsynlegt væri að eyða nokkrum tugum þúsunda í fálkaorðuna. Ég álít, að það sé algerlega óþarft að hafa fálkaorðuna til þess að svala metnaði og hégómagirnd íslenzkra manna, en hitt má vera, að það þurfi að hafa hana til þess að geta sæmt erlenda menn, með öðrum orðum sem diplomatiska mynt.

Skal ég svo láta útrætt um þetta að sinni.