04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

38. mál, fjárlög 1950

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera afgreiðslu fjárlaganna eða nál. hv. meiri hl. fjvn. að umtalsefni, enda hefur það þegar verið gert allrækilega af hálfu míns flokks í ræðu hv. 5. landsk., heldur ætla ég að mæla fyrir þremur brtt., sem ég er fyrsti flm. að. Þó eru nú í raun og veru tvær þeirra um sama efni, þ.e.a.s. brtt. á þskj. 633, XV og XX, sem fjalla um útrýmingu á heilsuspillandi húsnæði samkv. III. kafla l. nr. 44 7. maí 1946. Sú fyrri er um, að leggja skuli nú fram 750 þús. kr. í þessu skyni, og sú síðari um að heimila ríkisstj. að taka fé að láni til þess að lána bæjar- og sveitarfélögunum samkv. III. kafla fyrrgreindra l., þeim, sem þess þurfa, til útrýmingar hinu heilsuspillandi húsnæði og byggingar nýrna íbúða. Ég hygg, að það sé alveg óþarfi að hafa mörg orð um þetta mál, svo kunnugt sem það er öllum hv. þm., en ég vil þó mínna á, að með sérstökum l. var III. kafla l. um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og aðstoð við bæjar- og sveitarfélög til byggingar góðra og hentugra íbúða raunverulega frestað þannig, að hann kæmi ekki til framkvæmda nema að því leyti, sem til þessa væri veitt fé á fjárlögum. Nú liggur að vísu fyrir Alþingi frv. um, að þessi kafli komi að nokkru leyti til framkvæmda. Um þetta frv. var í dag útbýtt nál. En nú er mjög liðið á þingtímann, svo að telja má mjög litlar líkur á, að þetta frv. nái fram að ganga nú á þessu þingi. Af þessum ástæðum höfum við flm. fyrrnefnds frv. leyft okkur að flytja þessar brtt. Í þessum till. er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram 750 þús. kr. til bæjar- og sveitarfélaganna í þessu. skyni, en hins vegar er einnig gert ráð fyrir, að ríkið taki að láni fé, sem næmi 75% af kostnaðinum við þessar framkvæmdir, og lánaði það bæjar- og sveitarfélögunum. Þetta er að vísu í samræmi við það, sem við sósíalistar höfum flutt áður og ekki náð fram að ganga, en kringumstæðurnar eru nú allt aðrar og verri í þessum efnum, en þær hafa áður verið, og hefur það verið viðurkennt jafnvel af stjórnarflokkunum, ekki sízt fyrir síðustu kosningar.

Einnig er að verða mjög alvarlegt atvinnuástand í landinu, þar sem upprennandi er og að vísu þegar byrjað mjög tilfinnanlegt atvinnuleysi, og væri því mjög eðlileg leið að bæta samtímis úr atvinnuleysinu og húsnæðisvandræðunum. Læt ég svo þetta nægja um þessar till.

Svo flyt ég hér einnig ásamt þrem öðrum þm., hv. þm. Mýr., þm. V-Ísf. og þm. N-Ísf., litla brtt. á þskj. 633, XVIII, um að greiða Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara 15 þús. kr. byggingarstyrk. Eins og hv. þm. eflaust vita, horfa málin allt annan veg fyrir myndhöggvara, en aðra listamenn. Það hefur verið svo undanfarið, að allflestir rithöfundar hafa getað selt bækur sínar og haft af andvirði þeirra a.m.k. nóg fyrir sig og sína. Fyrir málara hefur aðstaðan verið svipuð, þar sem þó nokkur markaður hefur undanfarin ár verið fyrir málverk. Hins vegar hefur öðru máli verið að gegna um myndhöggvara. Fyrir þeirra vöru hefur ekki verið eins mikill markaður. Þeir hafa og löngum verið studdir af hinu opinbera. Á miðöldum var það aðallega kirkjan, sem keypti listaverk þeirra og studdi þá þannig, en þar átti ríkið einnig sinn þátt. En nú á seinni tímum hefur það aðallega verið ríkið, sem haldið hefur þeim uppi, og í því sambandi minnist ég þess, er hæstv. menntmrh. sagði í ágætri ræðu við setningu listamannaþingsins um daginn, að það væri sjálfsögð regla, þegar opinberar byggingar væru reistar, að þá skyldi allt að 1/4 byggingarkostnaðar varið til skreytingar með höggmyndum. Og það mikið er víst, að hvar sem maður kemur til annarra landa, verður manni starsýnt á hinar glæsilegu höggmyndir, sem skreyta þar hverja veglega byggingu. Nú höfum við hins vegar byggt allmikið á síðustu árum af stórhýsum undir ýmiss konar opinbera starfsemi, en í sambandi við slíkar byggingar hefur þess ekki verið gætt að prýða þær með veglegum höggmyndum, og hafa kannske verið nokkrar ástæður fyrir því. Hins vegar höfum við eignazt listamenn á sviði myndhöggvaralistarinnar jafnt og á sviði málaralistarinnar, sem fyllilega standa á sporði listamönnum á Norðurlöndum og þola samanburð við þá bæði á sviði hins forna og hins umdeilda nútímastíls. Sigurjón Ólafsson er einn í tölu þessara listamanna, og býst ég við, að allir hv. þm. þekki ýmislegt eftir hann, a.m.k. myndina „Móðirin“, sem öll listasöfn á Norðurlöndum eiga nú. Hann hefur einnig gert ýmisleg fleiri listaverk, eins og myndina af Krabbe, sem sýna, að hann er fær um að skapa listaverk í hinum forna klassíska stíl, sem seint munu gleymast þeim, sem séð hefur. Einnig hefur Sigurjón skapað listaverk í nýtízku stíl, sem auðvitað eru umdeild eftir smekk manna. En eins og ég sagði áðan, þá hefur Sigurjón sýnt, að hann er fær um að skapa sönn listaverk, um það erum við allir vissulega sammála. Aðbúnaður þessa listamanns hefur verið þannig, eftir að hann kom heim að stríðinu loknu, að þau hjónin, en kona hans er líka listamaður, hafa búið í hermannabragga og hafa þar skapað sín listaverk. En ég kann ekki við að öðru leyti að hafa mörg orð um persónuleg kjör þeirra. En á sama tíma sem við tölum með söknuði um kjör og allan aðbúnað listamanna okkar á 19. öld, þá býst ég ekki við, að við viljum eiga þátt í því, að aðbúnaður listamanna okkar á 20. öldinni sé svipaður. Alþingi hefur líka skilizt þetta, eins og það hefur sýnt með aðbúnaðinum að Einari Jónssyni myndhöggvara. En við megum ekki hætta á þeirri braut, sem við höfum þegar byrjað að ganga í þessu efni. Ég vona því, að hv. Alþingi samþ. þessa litlu, brtt. um að veita Sigurjóni Ólafssyni 15 þús. kr. byggingarstyrk. Ég veit ekki heldur, hvort aðrir listamenn eiga frá fagurfræðilegu sjónarmiði og miðað við þann aðbúnað, sem hann hefur, meiri rétt á styrkveitingum frá Alþingi eða hafa meiri þörf fyrir styrk, en hann.