04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

38. mál, fjárlög 1950

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem hv. 4. landsk. þm. sagði hér, að það er brýn nauðsyn að fá sem hæsta fjárveitingu til að fullgera fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, og sérstaklega með hliðsjón af því, að það vantar aðeins herzlumuninn, til þess að hægt sé að taka húsið í notkun. Ég vildi í þessu sambandi leyfa mér að minna á það atriði, að þetta er ekki einungis hagsmunamál fyrir Akureyringa, að fjórðungssjúkrahúsið sé klárað, heldur einnig fyrir svo að segja allt Norðurland. Þegar búið er að ganga frá húsinu, munu sækja þangað sjúklingar úr öllum nærliggjandi sýslum. Til fróðleiks og til að sýna, hvað þörfin er brýn að ljúka við sjúkrahúsið, vil ég geta þess, að sjúkrasamlag Akureyrar hefur greitt á árinu 1949 fyrir 1.876 legudaga í Reykjavík. Akureyrarbær hefur sem sé þurft að senda mikinn fjölda af sjúklingum í bænum hingað til Reykjavíkur, til þess að þeir gætu fengið sómasamlega læknishjálp. Samkvæmt l. frá 1945 um fjórðungssjúkrahús ber ríkinu að greiða 3/5 byggingarkostnaðar þeirra. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, mun allur byggingarkostnaður við fjórðungssjúkrahúsið nema 3.800.000,00 kr. Þar af hefur ríkissjóður þegar greitt 1.610.000,00 kr. Mér skilst því, að ríkið muni nú þegar skulda af framlagi sínu til sjúkrahússins um 670 þús. kr. Við afgreiðslu fjvn. á fjárlfrv. kom ég með þá brtt., að fjárveitingin yrði hækkuð upp í 350 þús. kr., en á fjárlfrv. var gert ráð fyrir 300 þús. kr. til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég taldi mér ekki fært að fara fram á frekari hækkun, með hliðsjón af því, hve miklu er varið til heilbrigðismála í Landinu. Jafnframt lágu fyrir beiðnir frá Blönduósi og Sauðárkróki um, að Alþ. veitti verulegt fé til byggingar sjúkrahúsa á þessum stöðum, og þess vegna fannst mér ekki fært að fara fram á frekari fjárveitingu, en að ríkið greiddi 350 þús. kr. á þessu ári til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.