04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

38. mál, fjárlög 1950

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég á brtt. á þskj. 633 ásamt hv. 2. þm. S-M., sem fer í þá átt að hækka áætlað framlag til íþróttasjóðs úr 500 þús. kr. í 700 þús. kr. Ég veit, að þessi till. á fylgi hjá mörgum þm., og þyrfti ég því ekki að mæla mörg orð fyrir henni, en hins vegar veit ég einnig, að það eru sumir, sem segja sem svo, að vegna hinna almennu fjárhagsvandræða nú verði að sitja við það, sem þegar eru gerðar till. um, að íþróttasjóður fái ekki nema 500 þús. kr. á þessu ári. Ef hv. alþm. hugleiða þetta, þá er ég sannfærður um, að þeir komast að þeirri niðurstöðu„ að slíkt eru hvatvíslegar ástæður fyrir afstöðu til þessa máls, og sannleikurinn er sá, að þeir tímar, sem æska landsins ver á íþróttaleikvöngum, bera ríkulegan ávöxt í lífi einstaklinganna með þeim afleiðingum að gefa þjóðfélaginu glaða og hrausta borgara, og hvaða þm. vildi ekki leggja lið til þess að svo mætti verða, að hér vaxi upp stæltari og hraustari æska en áður og þegar líður á lífdagana einnig mun betri og lífsglaðari borgarar? Þetta veit ég að hv. þm. viðurkenna og ekki sízt nm. fjvn., og þeim hefur verið þetta ljóst, þó að þeir hafi ekki gert till. um hækkun, enda þótt því hafi verið hreyft, og stendur það líklega í sambandi við það, að menn hafa ekki séð fram úr því, að það mætti hækka fremur eitt en annað. En ég vil vekja athygli á því, að frá íþróttan. liggur fyrir skýrsla, sem fjvn. fékk til meðferðar, þar sem hún gerir ráð fyrir, að þörfin til íþróttaframkvæmda í landinu á þessu ári verði 1.857.000 kr., og gerir till. til vara um 970 þús. kr. Þó að till. okkar væri samþ., þá er ekki gert meira en fara bil beggja frá því, sem nú er í till. fjvn., og því lágmarki, sem fyrir liggur frá íþróttan.

Ég held, að það þurfi ekki að ræða frekar rökin fyrir því, að það væri sjálfsagt og rétt að gera þetta, ef ríkissjóður hefur möguleika til þess. Spurningin er þá, hvort þetta, miðað við aðrar fjárveitingar, mætti hækka, og þá vil ég biðja hv. þm. og ekki sízt fjvnm. að veita einu atriði athygli í sambandi við íþróttaleikvangana í landinu, að eins og nú horfir, þá er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að yfirvofandi er hætta á stöðvun ýmissa atvinnugreina vegna skorts á efnivörum. Það er t.d. þannig í dag, að það vofir yfir mikil hætta á því, að stöðva þurfi ýmsar framkvæmdir bæjarfélags Reykjavíkur vegna slíks efnisskorts, það er ekki til efni í götugerð og holræsagerð, og pípugerð bæjarins er lokuð af þessum ástæðum. Rafmagnsstjóri var á fundi bæjarráðs í morgun og gerði ráð fyrir því, að vegna skorts á efni til lagna hér í bænum til viðhalds væri hætta á því, að þar þyrfti að koma til stöðvunar, ef ekki verður úr bætt. Þegar þetta er haft í huga, þá er ómögulegt að komast hjá því að hugsa sérstaklega um þær framkvæmdir í landinu, sem taka til sin töluvert vinnuafl, en lítinn gjaldeyri þarf til, svo sem t.d. íþróttavellina. Í því sambandi vil ég leyfa mér að vekja athygli hv. form. fjvn. á því að, að vísu er það svo, að til sumra framkvæmda, sem íþróttan. áætlar, svo sem sundlaugabygginga, þarf sement og annað erlent efni, en þegar skorið er niður til íþróttaframkvæmda, þá mætti haga þessum framkvæmdum þannig, að unnið væri að þeim mannvirkjum, sem ekki þarf erlendan gjaldeyri til. Ég vona, að þetta atriði verði tekið til athugunar og hv. fjvn. vilji líta með skilningi á þessa till. á síðara stigi málsins út frá þessum forsendum sérstaklega. Á það er einnig að líta, að hv. fjvn. sýnist með sínum tillögum hafa opin augun fyrir þeim óskum, sem fram hafa komið frá íþróttamönnum, bæði með því að velta frjálsíþróttasambandi Íslands vegna þátttöku í Evrópumeistaramóti 25 þús. kr. og til glímufélagsins Ármanns vegna fimleikafarar 10 þús. kr.

En um leið og þetta er athugað, þá berst hugur að því, hvort ekki er rétt að tryggja, að íþróttamenn hafi sem bezta aðstöðu til íþróttaiðkana í landinu, áður en þeir eru sendir á erlendan vettvang, þegar fyrir liggur sá skilningur hv. n. um nauðsyn þess, að íslenzkir íþróttamenn kynni land sitt á erlendum vettvangi. Ég vil vekja athygli á því, að um leið og það er viðurkennt, verður að meta þá miklu þörf á því, að okkar íþróttamenn eigi kost á þeim undirbúningi heima fyrir, að þeir geti orðið til sem mests sóma fyrir land sitt, þegar þeir koma á erlendan vettvang. Ég vona því, að á þessa till. verði litið með skilningi í meðferð hv. fjvn., sem kynni að fara fram á síðara stigi málsins.