04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

38. mál, fjárlög 1950

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég er á þessu stigi ekki alls kostar vel undirbúinn að tala, þar sem ekki hefur verið útbýtt einni brtt. minni. Skal ég og ekki fara út í almennar umræður um fjárlögin, íþótt ef til vill. væri nokkur ástæða til þess. Ég get þó ekki stillt mig um að taka undir ummæli hv. form. fjvn. um það, hversu óheppilegt það er og algerlega á móti öllum reglum, að fjárlög skuli ekki vera afgreidd fyrr en langt er liðið á árið, sem þau eiga að gilda fyrir. Það hefur nú verið gerð allmikil breyting á efnahagsmálunum með gengislækkuninni, og má búast við, að það leiði til meiri stöðvunar á verðlagi, og væri þá tími nú til að reyna að ráða bót á þessu vandræðaástandi. Þetta hefur gengið svona ár eftir ár og má ekki oftar koma fyrir, og þyrfti að taka upp fast skipulag um það, hvenær Alþingi á að sitja, því að óþægilegt er fyrir þm., sérstaklega þá, sem úti á landi búa, að vita ekki fyrir víst um samkomudag þingsins. Ég vildi vona, að á næsta ári gæti Alþingi komið saman samkv. stjórnarskránni, eða þann 15. febr., og stæði þá hæfilegan tíma. — En hér er nú fjárlagafrv. og brtt. til 2. umr., og er venja að ræða aðallega brtt. við þessa umr. Við athugun á brtt. hv. fjvn. kemur í ljós, að ekki er um róttækar breytingar að ræða, sem þó mundi þörf. Skal þó hv. n. ekki ásökuð um það, því að ef koma á fram verulegum breytingum á fjármálastjórninni, þá verður frumkvæðið og undirbúningurinn að koma frá hæstv. ríkisstj. Þm. geta ekki gert breytingar á efnahagskerfinu á skömmum tíma.

Það, sem helzt mun umtalsefni, er skiptingin á fjárframlögum til verklegra framkvæmda milli hinna einstöku héraða, og get ég búizt við, að ýmsir þm. séu óánægðir með þá skiptingu, og mun svo jafnan vera, því að enginn gerir svo öllum líki. Ég geri þó ráð fyrir, að það fari ekki fram hjá hv. þm., að nú sem áður — sjálfsagt af tilviljun — er það svo, að þau kjördæmi, sem hafa fjvnm. fyrir þm, eða þá einstaka hæstv. ráðh., bera mest úr býtum. Ég geri ráð fyrir, að í þeim kjördæmum sé þörfin mest, en þetta er dálitið einkennileg tilviljun, að menn úr verst settu sýslunum veljist ævinlega í fjvn. eða þá ráðherrastöður. Ég verð að segja um vegaframlög, að það leikur ekki vafi á því, að mitt kjördæmi hefur orðið fyrir misrétti, að minnsta kosti er minnsta upphæð þangað veitt ásamt V.-Húnavatnssýslu. Þetta á kannske að byggjast á því, að Eyjafjarðarsýsla sé bezt veguð, en ekki hefur nú verið gengið úr skugga um það, að svo sé, og svarið getur nokkuð farið eftir því, sem miðað er við. Ég hef heyrt, að hv. n. hafi miðað við vegi, sem teknir hafa verið í þjóðvegatölu. Fleira kemur hér til greina, og þá fyrst hin almenna vegaþörf, og hún fer ekki eftir einni saman lengd veganna, heldur verður að taka til greina atvinnuvegi héraðsbúa. Það er t.d. annað, þegar um er að ræða hérað eins og Eyjafjarðarsýslu, þar sem þarf að flytja mjólk frá svo að segja hverju býli daglega, heldur en ef um er að ræða sauðfjárræktarhéruð, og þá má benda á það, að í Eyjafirði og austanverðum Skagafirði hefur farið fram niðurskurður fjár s.l. haust, og í fyrra var að minnsta kosti talað um það, að bændur á þessu svæði þyrftu að komast í vegasamband, svo að þeir gætu komið mjólk á markaðinn, og einnig var rætt um einhverjar atvinnubætur. Þá er ekki úr vegi að líta á íbúatöluna og það, hve mikið kemur á hvern íbúa, því að það, sem héraðið greiðir af gjöldum í ríkissjóð, fer mikið eftir því, hve fjölmennt það er. Ég var nú að blaða í manntalinu frá 2. des. 1940. Einhverjar breytingar kunna að hafa orðið síðan, en það má gera ráð fyrir, að hlutfallið hafi ekki mjög raskazt. Ég blaðaði í þessu af því, að ég hafði ekkert nýrra. Í Eyjafjarðarsýslu eru íbúar taldir 5.400, og þeir fá 17 þús. til vega. Vestur-Húnavatnssýsla, þar sem eru þrisvar sinnum færri íbúar, fær jafnmikið. Ég hygg, að svipað sé um aðra staði, að þeir fái þrefalt á við Eyjafjarðarsýslu. Rangárvallasýsla er 1/3 fámennari en Eyjafjarðarsýsla, en fær þrátt fyrir það 1/2 millj. kr. — eða upp undir 1/2 millj. Að vísu eru þar engar hafnir, og þess vegna ekkert fé veitt til hafnarbóta, en þó að tillit sé tekið til þess, eins og rétt er, er samanburður óhagstæður fyrir Eyjafjarðarsýslu. Barðastrandarsýsla, en þar er íbúafjöldi tæplega 3.000, fær yfir 1/2 millj. kr. til vega og miklu meira framlag til hafna en Eyjafjarðarsýsla. Þetta eru almennar athugasemdir, sem ég geri. Mér þykir sem Eyjafjarðarsýsla njóti ekki sömu hlunninda og ýmis önnur héruð. Þm. Eyf. hafa þó, eins og flestir aðrir þm., er styðja stj., gengið inn á að sætta sig við þessa skiptingu, enda ekki að vænta brtt. frá okkur, ef ekki verður bætt við önnur héruð.

En það er eitt smáatriði, sem ég vildi minnast á, sem aldrei var talað um við okkur og ég spurði fjvnm. um, en fékk ekki upplýst. Það varðar svokallaða ræktunarvegi í eyjum. Ég tel mig ekki bundinn við þá skiptingu eða þann flokk, sem ég tilheyri. Mér þykir einkennilegt, hvernig skipt hefur verið. Flatey á Breiðafirði fær 10 þús. kr., en Hrísey 4 þús. kr. Í Flatey voru 276 íbúar árið 1940, en í Hrísey 377, svo að ekki er petta miðað við íbúatölu. Ég hef ekki komið í Flatey, það kann svo að vera, að ræktunarland sé þar langt frá byggð, hitt er vitað, að í Hrísey verður ræktunarland ekki notað, nema lagður sé vegur að því. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess, að Hrísey fær lægra framlag, og mér hefði fundizt réttmætt, að þessar tvær eyjar fylgdust að. Það mun því verða útbýtt brtt. frá okkur þm. Eyf. um að hækka framlagið til ræktunarvega í Hrísey. Er það eina brtt., sem við berum fram fyrir kjördæmið, og hún er borin fram vegna þess, að ekki var kostur að ræða málið við n., nema í bréfi, eða svokölluðum óskalista, þar sem farið var fram á 12 þús. kr. Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta.

En svo er lítil brtt. á þskj. 633, sem ekki kemur þessu máli við. Hún er við 15. gr. A. XVIII, og á þá leið, að þar verði bætt við nýjum lið: Til Þorfinns Kristjánssonar prentara í Kaupmannahöfn, til að greiða fyrir heimsóknum aldraðra Íslendinga í Danmörku heim til Íslands, kr. 1.500. Í fjárl., og brtt. hv. n., er gert ráð fyrir allverulegum fjárhæðum til að greiða fyrir og styðja ýmsa starfsemi í Ameríku, og er ég ekki að hafa á móti því, að svo sé gert. Það er auðvitað mál, að þjóðarbrotið þar á sinn siðferðilega rétt á því, að við gleymum því ekki alveg. En mér finnst, að á hitt megi líka líta, að margir Íslendingar eru í Danmörku og hafa verið þar áratugum saman, og þó að margt sé vel um landa okkar í Vesturheimi, hafa þeir þó ekki komizt fram úr Hafnar-Íslendingum, ef litið er á söguna frá því fyrsta. Um Þorfinn Kristjánsson er það að segja, að hann fær ekki eyri af þessu sjálfur, heldur fer það til gamalla Íslendinga í Danmörku til þess að kosta heimsóknir þeirra til Íslands, og er það fordæmi, að Vestur-Íslendingum hefur verið veittur slíkur styrkur. Þorfinnur hóf þessa starfsemi fyrir tveimur árum og leitaði samskota í Höfn til þess að hrinda þessu í framkvæmd. Auk þess hefur hann unnið að því að fá menn hér heima til þess að styrkja þessa starfsemi, og hafa þeir Valtýr Stefánsson ritstjóri og Guðbrandur Magnússon forstjóri eitthvað beitt sér fyrir málinu. Ég veit, að Þorfinnur sendi heim s.l. ár gamlan Íslending, sem búinn var að dvelja 40 ár í Danmörku, og hafði hann mikla ánægju af að sjá föðurland sitt. Þetta er lítið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð, en það skiptir miklu fyrir þá, sem um er að ræða, og þess vegna vænti ég þess, að hv. þm. samþ. þessa brtt. mína. Þó er ég fús að taka hana aftur til 3. umr., ef fjvn. vildi taka hana til vinsamlegrar athugunar. Ég hygg, að fjvn. hafi haft þetta mál til athugunar. Ef það er ekki rétt, er ég fús að gefa frekari upplýsingar, og hef ég afrit af bréfi varðandi málið.

Ég vil loks geta þess um brtt. okkar þm. Eyf., að við erum fúsir að taka hana aftur til 3. umr. í þeirri von, að n. taki hana til athugunar og taki aftur til 3. umr. sína till.