04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

38. mál, fjárlög 1950

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér mál kjördæmis míns, og hvorki vitna í höfðatölureglu né flatarmálsfræði til þess að sanna ágæti þeirrar till., er ég ber fram. Ég stend upp í tilefni af till. á þskj. 633, VIII, þar sem ég ásamt fleiri þm. hef lagt til að veita Hallgrími Helgasyni tónskáldi 12.500 kr. styrk til að safna íslenzkum þjóðlögum og gefa þau út. Svipuð upphæð hefur verið á fjárl. undanfarið, en hefur ekki verið tekin með nú, svo að við höfum talið okkur tilknúna að bera fram till. um þetta.

Þessi maður er einn af efnilegustu og gáfuðustu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Allan tímann síðan hann var í menntaskólanum hefur hann stundað þessa listgrein, en fór, er hann hafði lokið menntaskólaprófi, utan til háskólanáms. Hann hafði að mestu lokið háskólanámi, þegar heimsstyrjöldin skall á, en hefur síðan notað tímann til þess að vinna að hugðarefnum sínum: safna gömlum lögum og raddsetja þau, svo að þau mættu koma fyrir almenningssjónir. Hér fyrir framan mig liggur sönglagahefti með sex gömlum lögum, sem hann hefur gefið út. Hallgrímur Helgason er ekki hér á landi nú. Fyrir tveimur árum fór hann til Sviss til þess að ljúka þar framhaldsnámi. En hann hefur ekki verið áhugalaus um þessi mál, þó að hann hafi verið við nám erlendis. Þar hefur hann, samtímis náminu, unnið að útgáfu allra þessara sönglaga.

Allir, sem kynnt hafa sér starf Hallgríms Helgasonar, telja það merkilegt. Ég hef hér í höndum sex umsagnir merkra erlendra tónlistarfræðinga, sem kynnzt hafa honum sjálfir. Ég skal ekki þreyta hv. þm. með því að lesa allar þessar umsagnir, en skal taka hér eitt dæmi: Prófessor Ole Mörk, sem er tónlistarfræðingur norska útvarpsins, segir:

„Mér virðast tónverk Hallgríms Helgasonar ákaflega athyglisverð. Hér er á ferðinni tónskáld, sem kann sitt verk og getur byggt listaverk úr hrynjandi og hljómum á þann hátt, að persónuleg sérkenni hans njóta sín. Ekki virðist mér hann líkjast neinu öðru norrænu tónskáldi.“ Hann segir enn fremur: „Ég mæli með honum við norska útvarpið sem ágætum fulltrúa íslenzkrar tónlistar og fer þess á leit, að fallizt verði á þá tillögu, sem ég hef gert um flutning á fleiri verkum frá hans hendi.“

Þetta er skrifað til norska útvarpsins. Umsagnir, sem ganga í sömu átt, liggja fyrir frá svissneskum og þýzkum tónlistarmönnum, þeir ljúka allir lofsorði á verk hans. Ég veit, að þetta verk, sem Hallgrímur Helgason vinnur að, verður ekki í askana látið. En það hefur verið sagt, að maðurinn lifi ekki á einu saman brauði, og ég held, að við Íslendingar verðum að athuga það, að hróður okkar er aðallega á andlega sviðinu. Þess er vert að minnast, og okkur ber að styðja alla viðleitni af fremsta megni, sem orðið getur til þess að auka þann hróður.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, að hv. alþm. láti Hallgrím Helgason njóta sama styrks og áður.