04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

38. mál, fjárlög 1950

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég hef borið hér fram brtt. ásamt hv. 9. landsk. á þskj. 633, og er það 14. liður — um það, að styrkur til Kvenréttindafélags Íslands verði hækkaður úr 15 í 25 þús. kr. Kvenréttindafélag Íslands hefur nú starfað í rúmlega 40 ár og á merkilega sögu að baki. Fram til síðustu tveggja–þriggja ára hefur félagið að mestu miðað starf sitt við Reykjavík, án þess að um skipulagða starfsemi hafi verið að tala annars staðar á landinu; en frá því um 1946 hefur starfið náð meira út til ýmissa kvenfélaga víðs vegar um land. Þessi aukna starfsemi hefur í för með sér mikla vinnu og ferðalög fyrir forstöðukonuna, sem heldur sambandi við félögin m.a. með því að ferðast á milli þeirra og flytja þar erindi um ýmis efni. Önnur ástæðan fyrir því, að félagið þarfnast nú aukins styrks, er sú, að það er nú farið að hafa samband við sams konar félög erlendis og rekur þannig mikla og merkilega landkynningarstarfsemi, sem langt er frá að metin hafi verið að verðleikum til þessa. Allir, sem eitthvað þekkja til slíkra samtaka þjóða á milli, vita, að það fylgir því mikið starf að viðhalda slíku sambandi. Hin erlendu félög hafa miklu meira fé úr að spila, en félag okkar þarf engu að síður að svara fjölda bréfa og gefa margs konar skýrslur, og til þess að geta haldið uppi þessu starfi er brýn nauðsyn fyrir Kvenréttindafélag Íslands að fá aukinn fjárstyrk.

Fjórða hvert ár er haldinn í Rvík landsfundur kvenna. Alþingi hefur sýnt því starfi skilning með því að styðja þá samtökin með auknum fjárstyrk. En hagkvæmara mundi vera, að styrkurinn væri jafn frá ári til árs. Félögin munu ekki hafa ráð á að halda næsta landsfund nema fá fjárstyrk sem áður, en hagkvæmara yrði, að hann yrði veittur í þessu formi. Vil ég leyfa mér að vona, að hv. alþm. sýni þessu máli velvilja og sjái sér fært að styðja umrædda till.