04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

38. mál, fjárlög 1950

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég flyt nokkrar brtt. við fjárl. Sumum er að vísu ekki búið að útbýta, en það verður væntanlega gert alveg á næstunni, svo að óhætt er að fara um þær nokkrum orðum nú. Till. eru þær, sem nú skal greina.

Samkvæmt tillögum fjvn. eru lagðar til hafnarinnar á Siglufirði 130 þús. kr. Það er allmiklu lægra en það, sem vitamálastjóri gerði till. um; hann gerði a.m.k. ráð fyrir 150 þús. kr. framlagi. Og yrðu veittar 6 milljónir í heild til þessara hluta, þá gerði hann till. um, að Siglufjörður fengi 250 þús. Fjvn. hefur aftur lækkað framlagið niður í 130 þús., og á ég erfitt með að skilja, hvernig sú lækkun er rökstudd. Innri höfnin á Siglufirði hefur undanfarið grynnzt svo, að horfir til vandræða; sumar söltunarbryggjurnar þar eru ekki orðnar nema fyrir smærri báta. Í síldarleysisárum er það þó framar öllu nauðsynlegt að auka söltunina, og eitt af skilyrðunum fyrir því, að svo geti orðið, er að halda áfram hafnarframkvæmdum og dýpkun innri hafnarinnar. Ég legg því til, að veittar verði til hafnarinnar 250 þús. kr., en til vara 200 þús. kr. Það má ekki minna vera. Þrátt fyrir það að miklar hafnarframkvæmdir hafi staðið yfir á Siglufirði, þá fékk bærinn þó aðeins 100 þús. kr. til þeirra í fyrra; ríkið er komið í skuld við bæinn, og er þetta mjög tilfinnanlegt.

Þá legg ég til í annan stað, að 150 þús. kr. verði veittar til að reisa sjúkrahús á Siglufirði, og miða ég við það framlag, sem ákveðið var í fyrra til sjúkrahúss á Ísafirði. Þar var þó til sjúkrahús, sem hægt var að nefna því nafni, en á Siglufirði er það hús, sem orðið hefur að notast við, svo lítið, að það er langt frá því að vera viðunandi á stað eins og þeim, þar sem íslenzkir og erlendir sjómenn af hundruðum skipa þurfa að leita læknishjálpar, svo að oft verður að koma fyrir allt að 50 sjúklingum í húsi, sem aðeins hefur 17 sjúkrarúm. — Nú er búið að ákveða hinu nýja sjúkrahúsi stað og grafa grunn að því. Og til þess að veita bænum nauðsynlega aðstoð við að koma þessu í framkvæmd er hér lagt til að veita 150 þús. kr. til þessa húss.

Þá flyt ég enn brtt. við 22. gr., þess efnis, að ríkisstj. sé heimilað að greiða styrk til vatnsveitu á Siglufirði eins og lög mæla fyrir um. Í fyrra var vatnsveitan stækkuð og lögð ný æð úr Skarðsá fyrir um 300 þús. kr., og er ríkisvaldið þar aðili að. En þessa framkvæmd var óhjákvæmilegt að ráðast í, svo að ekki yrði verksmiðjustöðvun; og samkvæmt lögum frá 1947 ber ríkinu að styrkja þessar framkvæmdir.

Þá hef ég lagt til, að Tónlistarfélagi Siglufjarðar, sem er nýtt félag, en hefur þó verið mjög athafnasamt og haft ráðinn tónlistarkennara, verði veittar 5 þús. kr. til styrktar starfsemi sinni. Ber ég það t.d. saman við Akureyri, þar sem slíkt félag er styrkt með 20 þús. kr., og Ísafjörð, sem fær í sama skyni 10 þús. kr. Virðist því ekki ósanngjarnt, að 5 þús. kr. væru veittar þessum félagsskap til styrktar.

Loks flyt ég viðaukatill. við 22. gr., þar sem lagt er til, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast allt að 500 þús. kr. lán til Siglufjarðarkaupstaðar vegna þess, hve aðalatvinnuvegur bæjarbúa, síldveiðarnar, hefur brugðizt undanfarið, og þeirra fjárhagsörðugleika, sem bærinn á við að stríða af þeim sökum og eru mjög tilfinnanlegir. í bæjarstjórn á Siglufirði eiga sæti fulltrúar allra flokka, sem telja það óhjákvæmilegt fyrir kaupstaðinn að fá lán, til þess að bærinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Hefur bæjarstjórnin eindregið mælzt til þess, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir slíku láni, sem bæjaryfirvöldin mundu þá sjálf annast um að útvega, ef ríkisábyrgð fæst.