04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

38. mál, fjárlög 1950

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég sé, að tveir þm. Kommúnistaflokksins flytja hér brtt. um að hækka framlag til Vestmannaeyjahafnar. Sú brtt. er að vísu ekki flutt í samráði við mig. En ég vil geta þess, að hún er ekki að ófyrirsynju fram komin. Þessi höfn er frekar lágt sett, þegar tekið er tillit til þeirrar afar miklu þýðingar, sem hún hefur fyrir framleiðslu landsmanna á útflutningsverðmætum. Ég hef á sínum tíma ritað bréf til hv. fjvn. og sent henni áætlun um fyrirhugaðar framkvæmdir, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja lét mér í té. Þar var gert ráð fyrir því, að höfnin þyrfti ekki 300 þús., heldur 400 þús. kr. En í till. fjvn. er gert ráð fyrir 200 þús. kr. í þessu bréfi mæltist ég til þess, að áður en n. tæki ákvörðun endanlega í málinu, fengi ég tækifæri til að skýra það betur fyrir henni. Ég flutti því ekki brtt. við þessa umræðu, af því að ég vildi bíða ákvarðana um endurskoðun á skiptingu hafnafjárins.

Ég ætla, að það sé öllum ljóst, að þótt margir staðir þurfi að fá aðstoð við hafnarbótaframkvæmdir, þá eigi þó hafnir, sem leggja jafnmikið í þjóðarbúið og Vestmannaeyjahöfn, að vera þar í fyrstu röð um styrk til framkvæmda og endurbóta. Þetta og margt fleira hefði ég viljað segja nm., ef mér hefði gefizt færi á. Ég er þess vegna engan veginn vanþakklátur þeim hv. þm., sem hér hafa vakið máls á þessu, og þykir vænt um, að Eyjarnar eignist sem flesta og bezta forsvarsmenn. Þótt ég sé ekki meðflytjandi brtt., mæli ég með samþykkt hennar, um leið og ég vænti þess, að hv. fjvn. gangi eigi þegjandi fram hjá því, er þm. biðja skriflega um viðtal við hana varðandi hagsmunamál umbjóðenda sinna.