04.05.1950
Sameinað þing: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

38. mál, fjárlög 1950

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ræða hv. frsm. gaf mér tilefni til að segja nokkur orð, en á meðan ég beið eftir því, að röðin kæmi að mér, hef ég hlustað á ræður manna, m.a. hv. 6. landsk., sem var mjög hneykslaður yfir þenslu á kostnaði við fiskmat. Ég held, að hægt hefði verið að finna annað heppilegra dæmi um þenslu á opinberum rekstri, en fiskmatið. Ég greip ekki summuna, sem hv. þm. nefndi, en mér fundust tölur þær, sem hann hafði tanna á milli, svo háar, að ég held, að hann hafi slengt öllu mati saman, ullarmati, kjötmati o.fl. Ef fiskmatið er allt tekið, þá hefur ekki orðið ægileg þensla á því, og hægt að sýna af hverju hún stafar. Ég vil benda á það, að í fjárl. fyrir 1948 er kostnaður við mat á freðfiski, ísfiski og saltfiski áætlaður 363.900 kr. og auk þess á fiskmatið þátt í lið, sem nefndur er „Ferðakostnaður matsmanna“ og er 89.300 kr. 1948 var svo flutt á Alþ. frv. að minni tilhlutan um að samræma mat á salt- og freðfiski í sparnaðarskyni. En þær vonir hafa ekki að fullu rætzt, en að því liggja augljós rök. En af þessari sameiningu var gert ráð fyrir að leiddi lítils háttar sparnað, og gerði rn. 1949 ráð fyrir 332 þús. kr. fyrir þetta sama mat, og ef þetta tvennt: álit Alþ. 1948 og álit rn. 1949 — er borið saman, þá er nú gert ráð fyrir lægri upphæð í fiskmatið en var. Ég sagði áðan, að vonir þær, sem staðið höfðu til að lækka fiskmatið, hefðu ekki rætzt eins og gert hafði verið ráð fyrir, en það hefur sínar ástæður. Frá 1948 hefur þeim stöðum og hraðfrystihúsum, sem matsmenn þurfa að hafa eftirlit með, stórfjölgað, þannig að mannaflinn frá 1948 reyndist of litill, svo að taka varð aukamenn nokkurn tíma ársins. Um matið að öðru leyti, þá er það sízt hægara, en var fyrir stríð. Landsmenn nutu ávaxtanna af starfi hins fræga föður fiskmatsins hér á landi og samstarfsmanna hans fram að stríði, en á stríðsárunum spilltist þetta allt og meðferðin varð lakari. Menn urðu hirðulausari í þessum efnum, þegar ekki þurfti annað að gera en róta fiskinum upp úr bátunum og út í ísskipin. Það hefur því mikið týnzt niður í saltfiskverkun á stríðsárunum og stórum verra að fá meðal sjómanna og verkamanna góða verkunarmenn á saltfisk, en áður var. Þetta eykur á erfiðleika matsins, og síðan matið herti aftur á kröfunum, hafa sífelldar kvartanir verið að koma til rn. frá fiskeigendum um of strangt mat. Ég vildi geta þessa til að sýna, að ekki er réttmætt að leggja harða dóma á matsmennina, sem nú eru að stríða við að koma á hollari og betri verkun á fiskinum, svo að fiskverkun komist hér aftur á sama svið og var fyrir stríð, því að það er höfuðnauðsyn að koma sama orði á íslenzka fiskinn og var fyrir stríð, að hann væri betri vara, en keppinautar okkar bjóða. Að þessu stefnir nú fiskmatið og mun rn. styðja þá viðleitni. Þetta var því ekki heppilega valið dæmi, og hafi þjóðin ekki efni á að verja nokkru fé í þessu skyni, þá hefur hún ekki efni á að verja ýmsum þeim upphæðum, sem nú eru á fjárl. og eru látnar óátaldar.

Út af ummælum hv. form. varðandi brtt. mína um flugvelli vil ég segja það, að ég skal fúslega draga till. mína aftur til 3. umr., þar eð hann hét því fyrir hönd fjvn. að draga til baka í bili brtt. á þskj. 611, því að mín brtt. er við þá brtt. Hv. frsm. drap á það, að hæstv. ráðh. hefði átt að segja það, að upphæð sú, sem fjárlfrv. ætlaði til þessa, væri hærri en svo, að fjárhagsráð vildi samþ. hana, og mér skildist, að hann vildi með því segja, að ekki þýddi að deila við dómarann, en ég vil þá spyrja: Ræður fjárhagsráð því, hvað fer til nýrra vega, þar sem ekkert útlent efni er notað ? — Ég held það tæplega, og sé svo ekki, þá hefur það varla heldur afskipti af flugvallaendurbótum og byggingu, þar sem minnst er notað erlent efni og aðalvinnan er fólgin í því að slétta land fyrir fluglendingar. Og þótt vitnað sé til fjárhagsráðs, þá finnst mér, að Alþ. verði að ráða um það, hvort flugvöllum er haldið við og aðrir nýir byggðir. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en vonast eftir því, þegar till. verða teknar fyrir til 3. umr. og viðræður hafa farið fram milli n. og réttra aðila, að heppilegri lausn fáist í flugvallarmálunum en blasir nú við á þskj. 611.