14.03.1950
Sameinað þing: 34. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

Stjórnarskipti

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Afstaða Sósfl. til þessarar ríkisstj. markast af yfirlýstri stefnu hæstv. ríkisstjórnar, eins og hún hefur komið fram, bæði af því, sem hún hefur samið um að gera, og því, sem hún augljóslega hefur samið um að sleppa. Þessi ríkisstjórn er mynduð til þess að skipuleggja og framfylgja skipulagðri árás á launamenn, verkamenn og bændur, með ákvæðunum, sem felast í gengislækkunarfrv., sem nú liggur fyrir hæstv. Alþ. Þessi ríkisstj. er auðsjáanlega — eins og sést á því, hverju sleppt er í gengislækkunarfrv., — ráðin í að vernda þá gróðalind auðvaldsins á Íslandi, sem einokunin á útflutnings- og innflutningsverzluninni er, í þágu örfárra útvaldra. Í stefnu hennar sést hins vegar ekkert votta fyrir þeirri þjóðnýtingu verzlunargróðans, sem er höfuðskilyrðið fyrir efnahagslegri velferð íslenzku þjóðarinnar. Þessi ríkisstjórn þorir ekki né vill horfast í augu við aðalvandamál íslenzku þjóðarinnar, efnahagsmálin, fjárhagsöngþveiti hins íslenzka þjóðfélags, undir stjórn hins ameríska auðvaldsskipulags, sem við á síðustu árum höfum verið hlekkjaðir við og hv. form. Alþfl. lýsti fögnuði sínum yfir áðan og sagði, að hann vonaði, að það fyrirkomulag mundi duga. Þessi ríkisstjórn sér ekki við útlendu og innlendu arðráni sem átt hefur sér stað með hjálp verzlunaryfirvaldanna. Þess vegna leiðir þessi ríkisstjórn fátækt yfir þjóð vora í enn ríkara mæli en þær tvær ríkisstjórnir, sem setið hafa á undan henni, hafa gert. Sú braut hennar er nú sérstaklega hafin með gengislækkunarfrv., sem hún er mynduð um. Það leiðir því af þessari stefnu hæstv. ríkisstj., að Sósfl. er henni andvígur. Hann mun leggjast gegn þeim árásum, sem hún framfylgir, með þeim kröftum, sem alþýðan í landinu gefur honum. En komi mál frá henni, sem til heilla horfa, mun hann taka afstöðu til þeirra samkv. málefnum. Hann veitir henni hvorki hlutleysi né stuðning, en mun berjast gegn henni og þeim málum hennar, sem beint er gegn íslenzkri alþýðu.