10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

38. mál, fjárlög 1950

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Aðalmál hvers þings er afgreiðsla fjárl. Í stjskr. er svo fyrir mælt, að fjárl. skuli afgreidd fyrir byrjun þess árs, er þau eiga að gilda fyrir. Síðustu árin hefur þetta ákvæði verið mjög brotið, og er nú liðinn meira en þriðjungur árs, þá er fjárl. fá afgreiðslu. Mikið er um þetta rætt og engir háværari, en ýmsir þingmenn stjórnarflokkanna sem telja þetta hið mesta hneyksli.

Í þetta skipti má þó e.t.v. telja þennan drátt afsakanlegan, því að þetta mun vera í fyrsta sinn í sögu Alþ., sem þrjár ríkisstj. hafa setið á sama þ. Vegna annríkis við að búa til nýjar ríkisstj. höfðu því stjórnarflokkarnir lengi vel ekki tíma til að sinna jafnómerkilegum málum og afgreiðslu fjárl. og verður að metast til málsbóta, — þótt hæpið megi teljast, að þar með hafi fyrst og fremst verið hugsað um þjóðarhag.

Nokkurn veginn víst er, að þessi fjárl. verði hin hæstu, sem afgreidd hafa verið á Alþ. Tekjur ríkisins eru áætlaðar 298 millj., og 330 þús., en á síðasta ári 287 millj. 728 þús., , þ.e. rúml. 10 millj. hærri núna. Á frv. og þeim till. fjvn., sem fyrir liggja og án efa verða samþ.. nemur gjaldaáætlunin 280 millj. rúmum í stað 287 millj. í fyrra. En þó ber þess að gæta, að enn þá munu ókomnar inn upphæðir, að öllum líkindum á annan tug millj., svo að þáðum megin verða niðurstöðutölur hærri, en á fjárl. s.l. ár.

Auk þessa verður ekki gengið fram hjá því, að nú hafa verið felldar niður þær upphæðir, sem ætlaðar voru til greiðslu vegna fiskábyrgðarlaganna. Í fyrra voru tekjur dýrtíðarsjóðs áætlaðar 641/2 millj. rúmlega. Nú eru ætlaðar til dýrtíðarráðstafana 331/2, sem vitanlega er of lítið, og kem ég að því seinna. Þannig hefur verið tekinn burt áætlaður gjaldaliður að upphæð 311/4 millj. kr., en engar líkur til, að heildarútgjöldin lækki fyrir því. Þeir, sem fylgdust með kosningabaráttunni í haust, munu minnast þess, að eitt af aðalmálum núverandi stjórnarflokka var það, að útgjöld ríkissjóðs þyrftu að lækka og handhægasti liðurinn til lækkunar væru fiskábyrgðargreiðslurnar. Nú er búið að lækka krónuna og fella þessar greiðslur niður. En útgjöldin lækka samt ekki, heldur hækka. Og af hverju stafar það? Ekki eru hækkuð framlög til verklegra framkvæmda. Í flestum tilfellum er krónutalan áætluð hin sama, en í sumum tilfellum þó lækkuð, eins og t.d. til flugvallagerða.

Nei, hækkunin stafar af tvennu. Hún stafar af því, að enn þá heldur áfram sú þróun, sem mjög er um talað og allir þykjast sammála um að verði að hætta, að embættiskostnaður ríkisins vex, og að öðru leyti stafar hún af áhrifum gengislækkunarinnar. Um fyrra atriðið vil ég segja það, að á síðasta ári var fjvn. sammála um flutning á nokkrum till. til sparnaðar í rekstri ríkisins, enda hafði sú stj., sem þá fór með völd, haft alldigurbarkaleg orð um það, að í þá átt vildi hún vinna, og m.a. skipað svokallaða sparnaðarnefnd til undirbúnings. En þegar þessar sparnaðartill. fjvn. komu til atkv. í þ. snerist sú hin sama stj. gegn þeim og myndaði samtök um að fella þær.

Nú hefur meiri hl. fjvn. ekki viljað gera þessa tilraun aftur, mest vegna reynslunnar frá síðasta ári. Þegar ég gerði þetta að umtalsefni við 2. umr. fjárl. hér fyrir nokkrum dögum, þá svaraði hæstv. fjmrh. með því einu að spyrja, hvers vegna stjórnarandstæðingar flyttu ekki sínar brtt. um þessi mál. Ég vil hér með endurtaka mín orð til hans um það, að það er á engan hátt forsvaranlegt af ráðherrum að lýsa eftir úrræðum frá stjórnarandstöðunni til lausnar þeim málum, sem þeir hafa tekið að sér að leysa. Og það er ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að semja fjárl. fyrir neina ríkisstj. Þó hef ég lagt fram nokkrar till. í þessa átt, sem koma munu til atkv.

Um áhrif gengislækkunarinnar á útgjöld fjárl. skulu nefnd dæmi:

Utanríkisþjónustan hækkar úr 2 millj. 436 þús. upp í 4.555 þús., eða nærri því um helming. Gengistap landssímans vegna greiðslna til útlanda nemur 2,4 millj. og gengistap póstsjóðs 326 þús. Tvennt þetta síðastnefnda kemur þó ekki fram á heildarútgjöldum fjárl. vegna þess, að þessar stofnanir hækka sín þjónustugjöld til að vega á móti. Upphæð til byggingar nýrra varðskipa, sem áætluð var 2 millj. og 200 þús., þarf nú að hækka upp í 3.850 þús. eða um 1 millj. 650 þús. Ég læt þessi fáu dæmi af mörgum nægja til að sýna, hve auðveldlega étast upp 30 millj., sem sparaðar voru með afnámi fiskábyrgðarinnar.

En nú veit ég, að einhver mun svara þannig: Gengislækkunin skapar ríkinu einnig beinar tekjur. Og þetta er rétt. Verðtollur er áætlað að muni hækka um 20 millj. kr., úr 58 í 78. Og söluskattur er áætlað að hækki um 111/2 millj. kr., úr 36 millj. upp í 471/2 millj., hvort tveggja er vegna gengislækkunarinnar, vegna hækkandi vöruverðs, og þrátt fyrir áætlaðan minnkandi innflutning.

En hvort tveggja, þessar 311/2 millj., er aðeins aukinn skattur á það fólk, sem vörurnar kaupir. Kem betur að því síðar.

Þá vil ég aðeins minnast á grundvöll þann, sem fjárl. og fjárhagurinn byggist á, en það eru útflutnings- og gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Þótt ríkið haldi uppi stofnunum, sem kosta meira en Alþ., til að stjórna gjaldeyris- og viðskiptamálum, hefur engin áætlun fengizt um væntanleg útflutnings- og innflutningsverðmæti, er byggja mætti á sem líklegasta afgreiðslu fjárl.

Að undanteknu síðasta ári hafa gjaldeyristekjur ætíð verið mun hærri, en áætluð útgjöld og tekjur fjárl. S.l. ár voru þær nokkurn veginn jafnar. En eftir öllum upplýsingum, sem núna liggja fyrir, eru ekki miklar líkur til, að þær verði hærri núna. En væntanlega hjálpar Marshallfé upp á sakirnar, og þá e.t.v. því meira, ef svo skyldi fara, að gjaldeyristekjurnar næðu nú ekki sömu upphæð og fjárl.

Ég veit ekki, hvort allur þorrinn af þm. stjórnarflokkanna hefur gert sér þetta fyllilega ljóst. En leiðtogar þeirra munu vera farnir að skilja það. Ætli þeir séu ekki einmitt nú að vakna við þann vonda draum, að sjálft björgunarstarfið hafi verið á sandi byggt og aðeins orðið til að gera ástandið verra en áður?

Hv. þm. Siglf. hefur nú lýst því, hver bjargráð gengislækkun mun reynast fyrir sjávarútveginn. sem hún átti að vera sérstaklega gerð fyrir. Hér hafið þið heyrt nokkuð um áhrif hennar á fjárl. Eftir er að athuga áhrif hennar á annan aðalatvinnuveginn, — landbúnaðinn. Ýmsir af þeim mönnum, er telja sig sjálfkjörna til að vera pólitískir forustumenn bændastéttarinnar, hafa undanfarin ár viljað telja gengislækkun henni hagstæða, þegar um það hefur verið rætt á fundum bændasamtakanna. Nú hafa þeir forustumenn fengið vilja sinn fram, og dæmin um áhrifin liggja fyrir deginum ljósari hvert af öðru.

Á síðustu 10 árum hefur meira verið flutt inn af vélakosti til landbúnaðarins en samanlagt áður, síðan innflutningur slíkra véla hófst, enda meira verið unnið á þeim árum en á Íslandi hefur sézt fyrr í þeim efnum. Þannig er hafin í landbúnaðinum sú vélbylting, sem flestir játa að þurfi að koma. En hún er raunverulega ekki nema hafin, sem eðlilegt er. Landbúnaðurinn er að því leyti annars eðlis en t.d. bæði sjávarútvegur og iðnaður, að hann þarf fyrst að breyta afrakstrarskilyrðum náttúrunnar, áður en hann getur farið að uppskera framleiðsluvörur til vinnslu og notkunar. Breyting á honum frá frumstæðni til véltækni hlýtur því að taka lengri tíma, en í hinum fyrrnefndu, þótt svipaðar ástæður væru fyrir hendi að öðru leyti. Þess vegna er líka svo mikið óunnið í landbúnaðinum enn þá.

Með þeim breytingum á genginu, sem gerðar hafa verið er þessi vélbylting óhjákvæmilega stöðvuð. Þær vélar, sem við þurfum að flytja inn frá dollarasvæðinu, eru nú 150% hærri í innkaupsverði, en var fyrir einu ári síðan. Beltisdráttarvélar, sem á s.l. vori kostuðu hingað komnar 80 þús. kr., kosta nú 180 þús. kr. Þótt hækkunin frá sterlingssvæðinu sé ekki svona gífurleg, þá er hún samt nægilega mikil til þess að gera bændum ómögulegt að kaupa landbúnaðarvélar í nokkrum verulegum mæli. Um rekstrarvörur, s.s. benzín og olíur, sem tæknibúskapur krefst mikils af, er sama að segja. Yfirleitt eru þær vörur greiddar í dollurum og fá því á sig hina mestu hækkun, sem um er að ræða. Aðrar rekstrarvörur, — fóðurvörur og áburð, gildir hið sama um. Margir bændur tala nú um það í fyllstu alvöru að minnka kaupin á fóðurvörum til mjólkurframleiðslunnar og minnka kaupin á tilbúnum áburði til jarðræktarinnar. Hvað framleiðslu garðávaxtanna snertir, má vera, að hæstv. ríkisstj. telji, að þann skaða megi bæta með því að fá Marshall-kartöflur að gjöf frá Bandaríkjunum. Þær eru eyðilagðar þar hvort sem er, og hví þá að vera að leggja fé og fyrirhöfn í það að rækta þær hér? Þetta er virkilega eitt sjónarmið, sem til greina getur komið, og raunverulega í fullu samræmi við margt annað, sem tengt er þessari frægu Marshalláætlun. En neyzlumjólk verður bæði dýrt og erfitt að flytja frá Ameríku, jafnvel þótt nóg kynni að vera þar til af henni.

Annars liggur ljóst fyrir líka, að sú fjárhagskreppa, sem nú hellist yfir allan fjöldann af neytendum landbúnaðarvara í bæjum landsins, hlýtur að draga stórlega úr fjárhagslegri getu þeirra til kaupa á þessum vörum. Þeir bændur, sem muna markaðskreppuna, er sigldi í kjölfar heimskreppunnar, er hófst 1932, munu nú skilja, hvað að þeim stefnir.

Af því að landbúnaðurinn íslenzki byggir svo að segja eingöngu á innlendum markaði, hlýtur gengislækkunin að skella á honum með fullum þunga, nema ríkissjóður eigi að inna af höndum enn þá meiri greiðslur til dýrtíðarráðstafana, en áður. Á þessum fjárl. eru ætlaðar 331/2 millj. til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Þegar þetta er borið saman við undanfarin ár, er sýnilegt, að í þeirri áætlun er engin heil brú til. Ég hef ekki fengið upplýsingar um það, hve há upphæð var greidd til þess s.l. ár, en skv. ríkisreikningi 1948, — að vísu óendurskoðuðum, — kostaði þetta 44 millj. það ár, eða einum fjórða hluta hærra, en nú er áætlað. Með þessum 44 millj. voru greiddar niður landbúnaðarvörur að mestu, en þó lítið eitt meira, s.s. erlent smjör, smjörlíki og sykur. Nú liggja fyrir till. frá stjórnarflokkunum um að hækka verðtollinn úr 58 millj. frá síðasta ári upp í 78 millj., eða um 20 millj., enn fremur að hækka áætlun söluskattsins úr 36 millj. upp í 471/2 millj. Þannig er um að ræða 311/2 millj. samtals í hækkuðum verðtolli og hækkuðum söluskatti, og er hvort tveggja þó aðeins afleiðing þeirrar verðhækkunar sem gengislækkunin skapar í innfluttum vörum. Nú er það enn fremur upplýst, að ráð er gert fyrir allmiklu minni innflutningi en áður, og gerir það ástandið enn þá ömurlegra, sýnir enn þá betur, hvílíkt geipiverðbólguflóð er að skella hér yfir. Mun minna innflutningsmagn á að bera uppi svo miklu hærra verð, þ.e. fleiri krónur í vöruverði, að söluskattur og verðtollur hækka af þeim ástæðum um 311/2 millj. kr. Þetta er önnur hliðin. Hin er sú sem ég minntist á áðan, hinn stóraukni framleiðslukostnaður neyzluvaranna, sem framleiddar eru innanlands — landbúnaðarvaranna.

Fyrst 44 millj. þurfti 1948 til þess að halda dýrtíðinni í skefjum það ár — þó ekki alveg — við það ástand, sem þá var, munu 331/2 millj. hrökkva skammt til að stöðva þetta flóð í viðbót við það, sem fyrir var. Ef einhverjir leiðtogar bændanna vilja telja þeim trú um, að þeir muni fá framleiðslukostnað sinn bættan með hækkuðu verði, þá vil ég leyfa mér að fullyrða, að slíkt eru blekkingar. Markaðsþrengslin vegna minnkandi kaupgetu væru fyrirsjáanleg og eru það raunar að öllum líkindum hvort eð er.

Í grg. þeirri hinni miklu, er fylgdi gengislækkunarfrv. og er rökstuðningur fyrir ágæti þeirra ráðstafana, stendur m.a. þessi klausa:

„Við það, að verðlag á landbúnaðarafurðum lækkar til muna innanlands, flyzt fólk yfir í aðra framleiðslu, nema því aðeins, að það borgi sig að framleiða landbúnaðarvörur til útflutnings“, og litlu síðar: Þótt verðlag á landbúnaðarvörum lækki undir svona kringumstæðum, er ekki líklegt, að skjótur samdráttur verði á framleiðslunni. Líklegra er, að reynt verði að flytja út það magn afurða, sem ekki selst innanlands. Landbúnaðurinn getur samt átt erfitt uppdráttar, meðan breytingin er að gerast. Það er búið á fleiri býlum, en þörf er á vegna innanlandsneyzlunnar. Það má gera ráð fyrir, að bændur reyni að taka upp fullkomnari framleiðsluaðferðir, til þess að láta búskapinn bera sig, enda er það sú reynsla, sem fengizt hefur.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta er þá hin fyrirhugaða þróun. Hvað segja hv. framsóknarmenn um hana?

Fólkið á að flytjast frá landbúnaðinum yfir í önnur störf. Það, sem helzt virðist vekja ótta þessara sérfræðinga, er það, að samdrátturinn í landbúnaðarframleiðslunni verði ekki nógu ör, því að það verði búið á of mörgum býlum, a.m.k. fyrst í stað.

Þótt bændurnir vildu auka afköstin með meiri tækni og þannig fá búskapinn til að bera sig, þá verður það ekki gert nema með fullkomnari tækjum.

Og hvernig verður með útvegun á þeim? Reynslan er ólygnust. Eftirsóttustu tækin til alhliða notkunar á sveitabæjum eru jeppabílar. Á síðasta þ. flutti hálfur þingflokkur sjálfstæðismanna tillögu um innflutning á 600 jeppum.

Framsókn þurfti að bjóða betur, og talan var hækkuð upp í 750 og samþ. þannig. Nú er liðið á annað ár síðan. Enginn jeppi fluttur inn. En annað var gert í staðinn. Það voru samþ. ýtarleg l. um úthlutun þessara jeppa. Og útlit er fyrir, að bændur verði að láta sér þau nægja fyrst um sinn.

En einmitt núna er sams konar saga að gerast hér. Nú þessa dagana er til meðferðar hér sams konar frv. um úthlutun heimilisdráttarvéla. En jafnframt berast þær fregnir, að gjaldeyrisyfirvöldin muni ekki sjá sér fært að leyfa neinn slíkan innflutning. Í annað sinn mun bændastéttin verða að láta sér nægja snuðtúttuna. Í fyrra munu þeir hafa átt að undirbúa jarðveginn og sá með úthlutunarreglum um jeppa, sem engir fengust, og í ár munu þeir eiga að hirða uppskeruna og skapa úr henni verðmæti með úthlutunarreglum um heimilisdráttarvélar, sem engar fást. Þannig munu þeir eiga að láta búskapinn bera sig við þau nýju skilyrði, sem skapazt hafa.

Mætti ég nú biðja hlustendur að minnast loforðanna um allar hliðarráðstafanirnar, sem lofað var jafnhliða gengislækkuninni? Ætli þetta þ. verði ekki sent heim án efnda á þeim loforðum? Svo virðist mér horfa nú.

Í umræðum um vantraust á fyrrv. ríkisstj., sem þjóðin hlustaði á fyrir fáum mánuðum, komst formaður Framsóknar, núv. hæstv. landbrh., svo að orði um gengislækkunina: „En það þarf að hugsa fyrir því, að málið sé svo réttilega fram borið, að alþýða manna viti það og trúi því, að Alþingi geri jafnframt allt, sem í þess valdi stendur, til að draga úr byrðum almennings. Þetta er ekki aðeins réttlætismál, heldur er þessi vinnuaðferð sú eina, sem gefur nokkrar vonir um, að málið verði ekki ónýtt í framkvæmd. En ef svo færi, væri ástandið í fjármálum orðið verra en áður“.

Ekkert af þessu var gert, nema gengisbreytingin. Þess vegna er nú ástandið í fjármálum verra en áður.