11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

38. mál, fjárlög 1950

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það er fyrst og fremst ein brtt., sem ég vildi með nokkrum orðum mæla fyrir. En áður en ég kem að henni, vildi ég leyfa mér að þakka hv. fjvn. fyrir brtt., sem hún hefur flutt og er 15. brtt. á þskj. 699, þar sem lagt er til, að tekin verði upp fjárveiting til aflatryggingasjóðs Bolungavíkur samkv. l. nr. 109 frá 1943, 12 þús. kr. Eins og hv. þm. er kunnugt, liggur nú fyrir hv. Ed. frv. um breyt. á l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, sem flutt var af mér í hv. Nd., en er nú komið til síðustu umr. í hv. Ed. Það er samkv. þessu frv., sem hv. fjvn. hefur tekið þessa fjárveitingu upp í till. sínar, sem er framlag ríkissjóðs á móti framlagi sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík til hlutatryggingasjóðs síns á árinu 1950. Ég þarf ekki að gera grein fyrir, hvernig á þessum sjóði stendur, því að hv. þm. er kunnugt allt um hann, að hann hefur starfað síðan 1939 og er eini hlutatryggingasjóður sjómanna á Íslandi, sem stofnaður hefur verið. Og var hann stofnaður fjórum árum áður, en lögin um hlutatryggingafélög voru sett á Alþ., sem var 1943. Nú er það svo, að hæstv. Alþ. hefur fallizt á það að greiða þessum hlutatryggingasjóði sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík framlag úr ríkissjóði eins og l. frá 1943 gera ráð fyrir, fyrir öll árin frá 1943 til 1950. — Það, sem þessi brtt. mín, nr. XIII á þskj. 712, fer fram á, er það, að ríkisstj. verði heimilað að greiða tryggingasjóði sjómanna og útgerðarmanna í Bolungavík 35% af iðgjöldum þeirra greiddum í sjóðinn á árunum 1939–43, að báðum árum meðtöldum, allt að 30 þús. kr. Hv. þm. sjá, að það, sem hér er um að ræða, er í raun og veru það, að lögin frá 1943, sem ég nefndi, verði látin verka aftur fyrir sig, allt til ársins 1939, þannig að þessi hlutatryggingasjóður Bolvíkinga, sem er sá eini slíkur sjóður, sem starfað hefur á öllu landinu fram til þessa dags, fái framlag úr ríkissjóði, sem nemi 0,7% af brúttóaflaverði, sem borizt hefur á land í Bolungavík, á móti framlagi því, sem sjómenn og útgerðarmenn hafa greitt í þennan sjóð sinn. — Ég þarf ekki að eyða tíma þingsins til að fjölyrða um þetta. En ég hygg, að öll sanngirni mæli með því, að hæstv. Alþ. verði við þessari ósk. Og ég vil gefa þá skýringu á því, hve seint þessi brtt. er flutt, þannig að hún kemur ekki fyrr en við 3. umr. fjárl., að það er fyrst fyrir tveimur dögum, sem ég hef fengið símskeyti frá sjóðstjórninni í Bolungavík, þar sem mér er flutt áskorun frá fundi í hlutatryggingafélaginu um að freista þess við hæstv. Alþ., að það fallist á, að félagið fái þetta fram1ag greitt. Og ástæðan til þess, að sjómenn fara nú fram á þetta, er fyrst og fremst sú, hversu hrapallegur aflabrestur hefur orðið á vetrarvertíðinni síðustu í þessari verstöð, og reyndar í öllum verstöðvum á Vestfjörðum. Það er kunnara en frá -þurfi að segja, að vont tíðarfar og verulegur aflabrestur hefur valdið því, að hlutir eru nú lægri í vestfirzkum verstöðvum heldur en um mörg undanfarin ár, og afkoma útgerðarmanna og sjómanna þar því nú ein hin allra bágbornasta og verri, en lengi hefur þekkzt. Það getur verið, að sumum hv. þm. finnist hér vera nokkuð langt gengið, að óska þess, að þessi l. verði látin verka langt aftur fyrir sig, alla leið til ársins 1939, og segi sem svo, að Alþ. hafi gert vel með því að greiða hlutatryggingasjóði þessum framlög úr ríkissjóði alla leið frá 1944 og til ársins 1950. En ég held nú samt, að þetta nýmæli í því brautryðjendastarfi, sem sjómenn og útgerðarmenn hafa sýnt, verðskuldi þá viðurkenningu, að hæstv. Alþ. samþ. að verja þessum tæpum 30 þús. kr., sem þessi brtt. fer fram á að veittar verði, til þess að styrkja starfsemi þessa sjóðs á mjög erfiðum og viðsjárverðum tímum. Ég held, að stofnun þessa fyrsta hlutatryggingasjóðs hafi verið merkilegt spor í tryggingamálum útgerðarinnar, bæði útgerðarmanna og sjómanna, því að það eru báðir þeir aðilar, sem að þessum sjóði standa. Og það sést á því, að öll útgerð í landinu hefur horfið að því ráði að mynda sér sérstakan hlutatryggingasjóð, er útgerðarmenn og sjómenn nú vænta sér mjög mikils af. Um þetta skal ég svo ekki fara fleiri orðum, en aðeins geta þess að lokum, að þessi sjóður og starf hans hefur haft m.a. þá þýðingu fyrir athafnalífið í Bolungavík, að þar hefur ekki, síðan hann var stofnaðu.r, komið til vinnustöðvana eða annarra slíkra átaka milli útgerðarmanna og sjómanna. Þessi sameiginlegi sjóður, sem báðir þessir aðilar hafa átt hlut að og starfað saman að, hefur þannig lagt grundvöll að vinnufriði í þessari þróttmiklu verstöð, sem hefur verið plássinu mjög drjúgt til giftu og allajafna hlýtur að vera mikils virði. — Ég vænti því, að hv. alþm. samþ. þessa brtt.

Svo vildi ég aðeins minnast hér lítillega á tvær brtt., sem ég er meðflm. að. Fyrst er brtt. á þskj. 712, XII, sem er flutt ásamt hv. 2. þm. Reykv., hv. þm. Mýr. og hv. þm. V-Ísf., um að heimila ríkisstj. að greiða Sigurjóni Ólafssyni myndhöggvara 15 þús. kr. byggingarstyrk. Ég vildi aðeins, að hæstv. Alþ. vissi það, að þessi ungi listamaður, sem af öllum mönnum, sem skyn bera á list, er ekki aðeins talinn einn bezti listamaður okkar Íslendinga í höggmyndasmíði, heldur einn hinn bezti núlifandi myndhöggvari á Norðurlöndum — ég vildi aðeins, að hæstv. Alþ. vissi, við hvílíkan aðbúnað þessi ungi listamaður býr. Í hvert skipti, sem kemur hláka og verulegt þíðviðri að vetrarlagi, þá verður þessi listamaður að standa við verk sín í bragga, sem hann býr í ásamt konu sinni — sem einnig er myndhöggvari —, í vatnsstigvélum í vatni upp undir hné. Þannig eru skilyrðin, sem einn hinn bezti myndhöggvari Norðurlanda vinnur við í þessu landi. Það fór svo í fyrra, að brtt. var felld um það, að þessum listamanni yrði veittur 15 þús. kr. byggingarstyrkur. Ég hygg, að það hafi ekki verið vegna þess, að hann hafi átt minnihlutafylgi að fagna hér á Alþ., heldur vegna hins, að nafn hans var þá hnýtt við nafn annars listamanns, sem meiri deilur stóðu um. Ég vænti þess vegna að, að þessu sinni brjóti hæstv. Alþ. ekki þá venju sína að veita ungum og efnilegum listamönnum lítilfjörlegan byggingarstyrk. Það hefur verið venja hér í mörg undanfarin ár að veita listamönnum byggingarstyrki, að vísu fremur lága, en þó viðurkenningu um viðleitni Alþ. til að veita þeim stuðning til að byggja yfir sig.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég er meðflm. að brtt., með hv. þm. Ísaf., á þskj. 712, XVI. Ég þarf ekki að endurtaka ræðu hans, er hann mælti fyrir þessari brtt. En ástandið í verstöðvum á Vestfjörðum er nú þess eðlis, að til þess ber brýna nauðsyn, að komið verði á móti þeim sveitarfélögum, sem lagt hafa fram fé til þess að rétta útgerðinni þar hjálparhönd. Þess vegna hef ég gerzt meðflm. að þessari brtt. ásamt hv. þm. Ísaf. og hv. 6. landsk. þm. (HV).

Ég tók ekki til máls við 2. umr. fjárl., eins og þó hefur verið háttur minn í sambandi við mál míns kjördæmis og afgreiðslu málaleitana okkar fulltrúa þess hjá hv. fjvn. Ég hef heldur ekki flutt brtt. við fjárl., aðrar en þá, sem ég hef þegar lýst hér, í sambandi við málefni þess. Ég hef heldur ekki í hyggju að gera það nú. Þó er það náttúrlega þannig, að ég, eins og fleiri hv. þm., hefði mjög gjarnan kosið að fá betur tekið okkar málum, varðandi kjördæmi okkar. Vil ég sérstaklega undirstrika það, að hlutur Norður-Ísafjarðarsýslu hefur orðið mjög rýr í afgreiðslu hv. fjvn. á hafnarbótafé og fjárveitingum til lendingarbóta. Það er eingöngu í trausti þess, að unnt verði að fá fé sem viðbótarframlag úr hafnarbótasjóði, sem ég hef ekki flutt brtt. við þessar till. hv. fjvn. Ég veit hins vegar, að hv. fjvn. hefur skipt því fé, sem fyrir hendi er til þessara framkvæmda, samvizkusamlega frá sínu sjónarmiði, — eða vænti, að hún hafi gert það, og sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það. En ég vænti, að hæstv. ríkisstj. taki til greina aðstöðu þeirra staða og héraða, sem bersýnilega hafa fengið allt of lágar fjárveitingar til hafnargerða. — Um fjárveitingar til vega í mitt kjördæmi verð ég að segja það, að þær eru stórum lægri en það, sem ég hafði farið fram á í bréfi til hv. fjvn. En engu að síður er þó sýndur lítur á að veita fé til þeirra vega, sem unnið hefur verið að undanfarið þar, enda þótt hv. fjvn. fáist ekki nú, frekar en endranær á undanförnum árum, til þess að viðurkenna, að Norður-Ísafjarðarsýsla er eitthvert vegalausasta hérað landsins og á þess vegna að fá meira fé en nokkurt annað hérað til þess að halda uppi slíkum framkvæmdum. En það er sjónarmið, sem einu sinni er ríkjandi á Alþ., að vegafé og fé til ýmissa framkvæmda, því er ekki alltaf skipt og sjaldnast skipt — milli héraða fyrst og fremst með tilliti til þess, hvað búið er að gera þar og hver þörfin er á þeirri stundu., sem fjárl. eru samin. Það er eins og það sé eitthvert annað sjónarmið, sem ráði þar frekar. Og þegar byrjað er að spara, þá er aldrei litið á það sjónarmið, að sparnaðurinn eigi fyrst og fremst að bitna á þeim, sem mest hafa fengið og bezta hafa aðstöðu til dæmis í vegamálum og öðrum framkvæmdum, heldur skorið hlutfallslega niður, alveg án tillits til þess, hvernig aðstaðan er, sérstaklega hve mikið lagt hefur verið fram og hver þörfin er á hverjum stað. Þessi regla er fáránleg og fjarri lagi, að í henni sé nokkur sanngirni. Ég vænti, að þeir tímar komi, að fjárveitinganefndir þingsins, ekki endilega þessi, sem nú starfar vel og dyggilega og er sízt lakari en aðrar fjvn., sjái, að þetta er röng stefna og að það er engin skynsemi, sem liggur þessu til grundvallar. Því fer fjarri.

Að öðru leyti skal ég ekki gera fjárl. að umræðuefni, en vænti þess, að sú brtt., sem ég hef lagt hér megináherzlu á, verði samþ.