11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

38. mál, fjárlög 1950

Bernharð Stefánsson: Herra forseti. Við 2. umr. bárum við þm. Eyf. fram litla brtt. um nokkra hækkun á framlagi til ræktunarvegar í Hrísey til jafns við ræktunarveg í Flatey á Breiðafirði. Fyrir atkvgr. tókum við þessa till. aftur til 3. umr. Eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hv. frsm. um það, að fjvn. mundi vilja stuðla að því, að það væri athugað, hvað mikil þörf væri ræktunarvega í hinum ýmsu eyjum, þá höfum við fallið frá því að láta þessa till. koma til atkv. við 3. umr. Þó að hún væri áður ekki fyllilega tekin aftur, þá liggur hún ekki fyrir nú. Þetta er ekki fyrir það, að við höfum nokkra trú á því, að þessi rannsókn geti leitt til þeirrar niðurstöðu, að hlutfallið í þessu efni milli t.d. Hríseyjar og Flateyjar á Breiðafirði eigi að vera 4:10, heldur af þeirri ástæðu, að við vildum reyna að gera þetta til samkomulags, ef á næsta ári gæti orðið nokkur bót á þessu. Við berum ekki heldur fram neina brtt. vegna okkar kjördæmis nú, þó að ég hafi í engu breytt skoðun um það, sem ég lét í ljós við 2. . umr., að þetta kjördæmi hefði orðið fyrir sérstöku ranglæti og misrétti í afgreiðslu n., samanborið við önnur kjördæmi. En ástæðan til þess, að við berum ekki fram brtt. um þetta, er sú, að við höfum enga von um, að á þetta verði litið eða slíkar till. yrðu samþ. hér. Og ef það yrði gert, að samþykktar væru slíkar till. frá einstökum þm., gæti afgreiðsla fjárl. yfirleitt farið á ringulreið. Það verður því heldur að þola misrétti, en að gera þjóðfélaginu í heild þann skaða, að fjárlagaafgreiðslan verði þó enn meira handahófskennd, en hún er með því að fylgja till. fjvn. En hinu er ekki að leyna, að ég álit fyrir mitt leyti, að slík samtök um afgreiðslu fjárl., sem ég býst við, að nú eigi sér stað, þau geti ekki átt sér stað til langframa, þó að nauðsynlegt sé, nema því aðeins að samræmis sé gætt af þeim, sem mestu ráða um þessi mál, og það er fyrst og fremst hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. Ef eins og manni virðist, það verður þannig ár eftir ár, að sömu kjördæmin sitja á hakanum, og það hefur ekkert að segja, þó að t.d. fjvn. sé sýnt fram á alveg óhjákvæmilega nauðsyn í þeim atriðum, eins og ég hef gert viðvíkjandi mínu kjördæmi, en maður að hinu leytinu sér það ár eftir ár, að þau kjördæmi, sem eru svo heppin — skulum við segja, — að þeirra þm. eru fjvn.-menn eða þá ráðherrar, sitja ár eftir ár við hæstu fjárveitingarnar, þá hlýtur þetta náttúrlega að bresta, áður en langur tími líður.

Ég ætla svo að geta um það, að ég hef borið hér fram litla brtt., en það er eitthvað svo undarlegt með það, að ég held, að búið sé að útbýta henni, en finn ekki þskj. (GJ: Það er ekki búið að útbýta því enn þá.) Ég þóttist sjá það áðan, en með leyfi hæstv. forseta ætla ég samt að minnast á þessa brtt. — Ég sé, að það eru bornar fram brtt. af einstökum hv. þm. um að heimila ríkisstj. að greiða nokkrum listamönnum byggingarstyrk, bæði myndhöggvurum og öðrum listamönnum. Ég skal nú taka það fram, að ég fyrir mitt leyti álít slíkar heimildir vafasamar. Listamenn eru alls góðs maklegir, það skal ég játa. En það eru fleiri borgarar í landinu, og þess konar styrkir sérstakir eru yfirleitt ekki veittir til húsbyggingar öðrum þegnum þjóðfélagsins. Nú, en ef gengið yrði inn á þessa braut á annað borð, þá finnst mér, að Freymóður Jóhannsson málari mætti gjarnan fylgja með, og hef ég því borið fram brtt. um að tengja hann við eina af þessum till., þannig að sú till. kemur ekki til greina nema sú till., sem þetta er borið fram sem viðauki við, verði samþ. Það eru náttúrlega skiptar skoðanir um listgrein Freymóðs Jóhannssonar. Hann þykir ekki nýmóðins af sumum, og áreiðanlegt er það, að hann er ekki klessumálari sem kallað er, en ég hygg nú samt, að af almenningi í landinu sé hann með allra vinsælustu málurum. Hann hefur byggt hús, sem er svona að mestu leyti frágengið, þó ekki alveg, svo að þetta þarf nú ekki beinlínis til þess að hann geti átt þak yfir höfuðið, bæði fyrir sig og starfsemi sína. En hann á ákaflega erfitt með að standa undir byggingarkostnaðinum, og sem sagt, mér finnst að þessi maður eigi það á allan hátt jafnt skilið og ýmsir aðrir að fá þess konar hjálp, ef inn á þessa braut verður gengið á annað borð, þótt ég hins vegar mæli ekki með, að inn á þá braut verði gengið.