11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

38. mál, fjárlög 1950

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Gagnrýni á stjórnvöldin og skylda þeirra að svara til sakar er vissulega einn meginþátturinn í þjóðskipulagi lýðræðisins. En ef gagnrýnin á að koma að notum, verður hún að vera byggð á staðreyndum og vera flutt fram af heilbrigðri skynsemi og sannleiksást. Sá stjórnarandstöðuflokkur, sem þessa gætir, getur vissulega gert mikið gagn og verið þjóð sinni þarfur.

Kommúnistar eru lýðræðinu andsnúnir og trúa ekki á aðferðir þess, nema til þess eins að grafa undan því sjálfu. Frá þeim er því ekki að búast við uppbyggilegri gagnrýni eða þjóðhollri, þar sem þeim er annara um að þjóna öðrum hagsmunum, en íslenzkum. Sást það glögglega síðast við atkvgr. við 2. umr. fjárlaga. Þá greiddu kommúnistar atkv. með fjárveitingum til þeirra alþjóðastofnana einna, er Rússar eru þátttakendur í, en á móti hinum. Ákefð þessara þingmanna í að elta Rússa var meira að segja svo mikil, að sumir þeirra greiddu atkv. á móti samningsbundnu tillagi til alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ekki voru það þó nema tveir, sem létu hafa sig til að snúast gegn þessum samtökum á móti sjúkdómunum.

Um Alþfl. er öðru máli að gegna. Hvað sem um hann verður að öðru leyti sagt, er ekki hægt að vefengja, að hann er lýðræðisflokkur og engum slíkum tengslum bundinn við erlenda hagsmuni sem kommúnistar. Allir þekkjum við ábyrgðartilfinningu hans, mat hans á málefnum umfram menn og einstaka orðheldni.

Alþfl. lofaði að vera á móti gengislækkun eftir kosningar. Að vísu varð það loforð strax nokkuð andkannalegt, þar sem flokkurinn beitti sér fyrir gengislækkun í miðri kosningahríðinni. Niðurstaðan varð og sú, að Alþfl. einn tapaði í kosningunum. Það var eðlilegt, því að kosningabarátta flokksins braut alveg í bága við það, sem hann áður hafði sagt og gert, því að ef engra róttækra ráðstafana var nú þörf, hvernig gátu forustumenn Alþfl. þá skýrt afstöðu sína í þessum efnum áður fyrr?

Hvernig vill Emil Jónsson skýra ummæli sín frá 29. apríl 1947, þegar hann sagði: „Þegar því þessari baráttu ríkisstj. við dýrtíðina og baráttu fyrir því að þurfa ekki að ráðast á launakjörin til lækkunar, er svarað af kommúnistum með kröfum um gagnráðstafanir til hækkunar á grunnkaupi, þá er það ekki verkalýðsmálabarátta, ekki einu sinni pólitísk barátta, eins og hún hefur tíðkazt hér hjá okkur, heldur beinlínis glæpur. Ég kalla það glæpsamlegt, að ætla sér að knýja fram nú hækkanir.“

Emil Jónsson og Alþfl. veit, að þennan glæp 2ókst að drýgja. Almenn grunnkaupshækkun átti sér stað sumarið 1947. Afleiðing hennar ofan á það, sem fyrir var, varð svo sú, eftir því sem Alþýðublaðið 28/9 1947 hefur eftir Stefáni Jóh. Stefánssyni á Alþýðuflokksfundi í Iðnó: „....Hinn hái framleiðslukostnaður hefði valdið því, að sjávarafurðir okkar væru nú svo til óseljanlegar á heimsmarkaðinum við því verði, sem framleiðendur þyrftu að fá, og lægi því í augum uppi, að meginverkefni okkar yrði að lækka framleiðslukostnaðinn, svo að við yrðum samkeppnisfærir við aðrar þjóðir í framtíðinni.“ Emil Jónsson tók undir þetta og taldi „þjóðinni nauðsynlegt að glöggva sig á því, að hún yrði að neita sér um ýmislegt og temja sér að lifa ekki um efni fram.“

Meðal annars fyrir atbeina þessara tveggja ágætismanna var nokkurt spor stigið í lækkunarátt með dýrtíðarlögunum um áramótin 1947 og 1948. En hvort tveggja var, að þau lög voru hvergi nærri fullnægjandi og gerðu í bezta tilfelli ekki betur en að eyða óhollum áhrifum grunnkaupshækkunarinnar frá sumrinu 1947, og að grunnkaupshækkanirnar héldu áfram. Er þar skemmst að minnast þeirra. hækkana, sem urðu sumarið 1949. Með því var enn aukinn sá vandi, sem hinir glöggskyggnu forustumenn Alþfl. vöruðu við 1947. Svo að notuð séu hin sönnu orð Emils Jónssonar, var haldið áfram að drýgja glæp á eftir glæp gegn efnahag og atvinnuöryggi íslenzku þjóðarinnar.

Enginn skyldi ætla, að Alþýðuflokksmenn sæju ekki sjálfir, að slíkar aðfarir hlytu, að hafa afleiðingar. Skáldið segir:

„Þess bera menn sár um ævilöng ár,

sem aðeins var stundarhlátur.“

Það kann að vísu að fylgja því nokkur stundarhlátur að lifa um efni fram, en sá, sem hefur látið glæpamann ginna sig til að gera það, kemst ekki síðar hjá því að finna til afleiðinga þess, enda segir Alþýðublaðið hinn 18. sept. 1948 réttilega:

„Hættan á gengislækkun er nefnilega, þrátt fyrir góðan vilja ríkisstj. til að varðveita gengi krónunnar, stöðugt fyrir hendi, meðan hér er starfandi, því miður með þó nokkrum árangri, flokkur, sem rær að því öllum árum að magna verðbólguna og dýrtíðina með endalausum skrúfugangi kaupgjaldsins og verðlagsins upp á við. En þessi flokkur er, eins og allir vita, kommúnistaflokkurinn. — Frá honum, framar öllum öðrum, stafar gengislækkunarhættan.“

Þær tilvitnanir, sem ég hef nú nefnt, og ótal margt fleira, sýnir, að Alþýðuflokksmönnum var ljóst, að ef haldið var áfram á kauphækkunarbrautinni, var gengislækkun óhjákvæmileg. Ógæfa Alþfl. er sú, að hann skyldi ekki taka afleiðingum orða sinna og gerða og játa, að gengisfelling varð ekki lengur umflúin. Með þessu hefur Alþfl. bakað sjálfum sér tjón, skaðað þjóðina, en skemmt kommúnistum.

Hitt er rétt og skylt að játa, að Alþfl. var í raun og veru á móti gengislækkun og vildi hindra hana með þeim einu ráðum, sem tiltæk voru, sem sé að stöðva verðbólguna. En forustumenn Alþfl. verða að játa þá staðreynd með okkur hinum, sem með þeim vorum í stjórn, að okkur tókst ekki að stöðva eða lækna verðbólguna. Slíkt verður okkur auðvitað ætíð talið til áfellis. Ýmislegt er þar þó til afbötunar, enda er það óhagganleg sannfæring mín, að ef Framsfl. hefði ekki af innanflokksástæðum efnt til kosninga á s.l. hausti og þar með til átímabærs ófriðar um þessi mál, hefði Alþfl. tekið þátt í skynsamlegri lausn þeirra í vetur. Þess er og að minnast, að sumt annað tókst betur fyrir þessari fyrrv. stjórn.

Því fór t.d. ekki fjarri, þegar þessi fyrsta stjórn Alþfl. á Íslandi var mynduð, að ýmsir tryðu því, að ómögulegt væri að stjórna Íslandi stundinni lengur, án þess að hafa kommúnista í stjórn. Þessi trú er nú alveg úr sögunni. Hitt er annað mál, að kommúnistar höfðu afl til hins sama, eftir að þeir fóru úr stjórn, sem þeir höfðu ekki síður gert á meðan þeir voru í stjórn, að halda áfram að auka verðbólguna. Og þeir gerðu það vísvitandi um afleiðingar gerða sinna, því að kommúnistar vildu og vilja lækka gengið, að vísu með þeim hætti að reyna að kenna öðrum um. Það er aðeins í samræmi við baráttuaðferðir kommúnista yfirleitt, þegar þeir svo býsnast yfir vöruverðhækkunum, sem af gengisfellingunni leiðir. Auðvitað leiðir af henni vöruverðhækkanir. Launþegar eiga að vísu að fá þær bættar. Engu að síður hljóta þær að vera öllum góðum mönnum harmsefni, en þær eru óhjákvæmileg afleiðing of mikilla áhrifa kommúnista í íslenzku þjóðlífi á undanförnum árum. Enn eru þær þó aðeins svipur hjá sjón miðað við það, sem vera mundi, ef kommúnistar réðu einir.

Kommúnistar hafa oft fjargviðrazt yfir því, að sendiráð Íslands í Moskva væri ekki nógu veglegt. Þeim þykir ekki nóg að hafa þar aðeins einn Íslending útsendan og tign hans ekki nógu umfangsmikil eða dýrðleg, að hann skuli kallaður sendifulltrúi í forföllum sendiherrans, sem lengst af dvelst annars staðar, þar sem Íslendingar hafa meiri störfum að gegna. Kostnaðurinn við dvöl þessa eina manns og fjölskyldu hans í Rússlandi er svo mikill, að heils árs kostnaður með hinu nýja gengi rúblunnar mun verða nær 1.400 þús. kr., eftir þær verðlagsbreytingar, sem orðið hafa í Rússlandi, og breytingarnar á gengi rúblu og krónu, sem kunnugt er um. Sendifulltrúinn, Sigurður Hafstað, hefur sent utanríkisráðuneytinu nokkrar skýringar á þessum gífurlega kostnaði.

Það er að vísu búizt við, að sykurverðið hér á landi muni hækka eitthvað bráðlega, en nú er það kr. 2.85 kg. Hækkunin þarf þó að verða býsna mikil til að nálgast verðlagið í Moskva eftir þá skráningu rúblunnar, sem tekur gildi 1: júlí n.k., en þá verður það 47 kr.

Óniðurgreitt smjörverð hér er að vísu hátt, eða kr. 32.50 kg. Í Moskva verður það hins vegar kr. 139.86 og smjörlíkið kr. 87.31.

Kartöflurnar þóttu dýrar hér á kr. 1.10 kg og hafa nú lækkað í 86 aura, en í Moskva munu, þær kosta 5.06 kr.

Fyrir kindakjötið þurfa menn að borga í Reykjavík kr. 11.35 eða jafnvel 14.40 kg. í Moskva kr. 79.15.

Mjólkurlítrinn er dýr í Reykjavík, eða kr. 2.15, en í Moskva kostar hann kr. 15.34. Þjóðviljinn ætlaði á dögunum alveg að rifna yfir því, að kaffikílóið væri komið upp í 23 kr. Menn skyldu því ætla, að það væri ekki svo dýrt, þar sem kommúnistar réðu einir. Í Moskva mun það bara kosta 323 krónur og 13 aura. Er það þó smáræði hjá tekílóinu, það verður í Moskva kr. 661.78 á móti kr. 15.52 í Reykjavík.

Ég skal ekki hafa þennan samanburð lengri. Hann sýnir, að ekki mun af veita að hafa há laun í Rússlandi. En svo sem kunnugt er, þá er þar launamismunur miklu meiri, en hér á landi, og verða þó hæstu launin enn hærri en menn hafa heyrt, ef hinir lægst launuðu fá stóran skammt með þessu verðlagi. Verðsamanburðurinn sýnir, að öllum öðrum ferst fremur en kommúnistum að tala um verðhækkanir. Það er væntanlega vegna þess, að kommúnistar hér á landi hafa heyrt um þetta háa verðlag í Rússlandi, sem þeir eru alltaf að reyna að telja mönnum trú um, að enginn vandi sé að selja íslenzkar vörur eystra með því verði, sem við sjálfir segjum til um. Reynslan er öll önnur. Þrátt fyrir allar fullyrðingar kommúnista eru hinar óhnekkjanlegu staðreyndir þær, að um viðskiptin við Rússland hefur ekki staðið á Íslendingum, heldur Rússum. Á s.l. árum hafa íslenzk stjórnarvöld æ ofan í æ óskað eftir, að reyndir yrðu viðskiptasamningar milli Íslendinga og Rússa. Rússnesk stjórnarvöld hafa yfirleitt ekki sinnt þeim óskum, en fólu þó verzlunarfulltrúa sínum hér á landi, Pantchenko að nafni, sem dvaldi hér árum saman, að ræða við íslenzk stjórnarvöld um viðskipti sumarið 1949.

Í skýrslu þess embættismanns, Gunnlaugs Péturssonar, sem mestan þátt tók í þeim umræðum, segir svo:

„Rússneski verzlunarfulltrúinn skýrði frá því, að Sovétríkin hefðu engan áhuga á að kaupa hraðfrystan fisk. Kvað hann vöru þessa vera allt of dýra. Í öðru lagi hefðu Rússar ekki nægar kæligeymslur fyrir fiskinn, og loks kynni almenningur þar í landi ekki að meta þessa vöru, því að eftirspurn eftir henni væri engin. Taldi hann, að eftir að skömmtun hefði verið afnumin í Sovétríkjunum, væri loku fyrir skotið, að þessi vara gæti gengið út þar. Af hálfu Sovétríkjanna var heldur ekki neinn áhugi á að kaupa þorskalýsi.“

Þær vörur, sem Rússar þá virtust hafa hug á að kaupa, voru þær, sem auðseljanlegastar eru, svo sem saltsíld og síldarlýsi. Þessar vörur vildu þeir þó einungis kaupa í vöruskiptum. Um þetta segir enn fremur í tilvitnaðri skýrslu:

„Í viðræðum þessum kom í ljós, að það verð, sem Sovétríkin töldu sér fært að greiða fyrir þessar afurðir okkar, var mun lægra en það verð, sem við höfðum þegar samið um við önnur ríki fyrr á árinu. Þá var verð rússnesku varanna mun hærra, en á sams konar vörum annars staðar frá og sumt úr hófi fram, eins og t.d. verð ýmissa kornvara. Var þess því enginn kostur að verðjafna milli útflutnings og innflutnings.“

Því fer fjarri, að Íslendingum einum gangi treglega að gera viðskiptasamninga við Rússa. Hin stórkostlega aukning Rússa sjálfra á fiskveiðum sínum gerir það að verkum, að þeir eru sérstaklega ófúsir að kaupa fisk af öðrum þjóðum. Þannig hefur t.d. Sigurður Hafstað, sendifulltrúi Íslands í Moskva, upplýst, að í viðskiptasamningi Svía og Rússa frá 1946 sé gert ráð fyrir, „að Rússar kaupi árlega til 1951 fisk og síld fyrir 20 milljón sænskar krónur. Síðustu árin hafa þeir ekkert keypt af þessum vörum“, segir í skýrslu Sigurðar Hafstaðs frá 24. nóv. s.l.

Skýringin á þessu er, eins og ég áðan sagði, vafalaust að nokkru leyti sú, að Rússar hafa í 5 ára áætlun sinni, sem sett var 1946, ákveðið stórkostlega eflingu fiskveiðanna. En hér blandast einnig inn í, að Rússar hafa mjög dregið úr skiptum sínum við aðrar þjóðir en þær, sem tengdar eru þeim sérstökum stjórnmálaböndum. Frægasta dæmið um það er yfirlýsingin frá 31. des. 1948, þegar berum orðum var fram tekið, að rússneska stjórnin mundi minnka, viðskiptin við Júgóslavíu niður í 1/8 frá því, sem áður hafði verið, vegna þess að henni líkaði ekki stefna stjórnarinnar í Júgóslavíu. Hefur sú afstaða þeirra ekki enn breytzt, samkvæmt því, sem sagt var í frétt ríkisútvarpsins 27. apríl s.l. Þar segir orðrétt á þessa leið:

„Tító kvaðst því miður verða að telja, að horfur væru ekki góðar á því, að sambúðin við Ráðstjórnarríkin mundi batna. Júgóslavar mundu halda áfram að treysta viðskiptatengsl sín við Vestur-Evrópuríkin, annars mundu Austur-Evrópuríkin svelta þá í hel.“

Þessi voru ummæli Títós, og enn þá; hafa kommúnistar hér á landi ekki þorað að gera lítið úr orðum hans, í almannaáheyrn að minnsta kosti.

Vinur Brynjólfs Bjarnasonar og sessunautur frá Rússlandi forðum, Kuusinen, gæti og eflaust hvíslað að honum skýringum á því, af hverju verzlunarsamningar Rússa og Finna hafa í vetur gengið jafntreglega og raun ber vitni um. Og í gærkvöld heyrðu menn, að Áki Jakobsson taldi sig ekki lengur þurfa að hvísla því, að ástæðan til þess, að Rússar vildu ekki verzla við Íslendinga, væri sú, hve vondur maður ég væri. En aðalsönnun vonzku minnar var sú, að ég taldi hentara að hafa aðra trúnaðarmenn um afurðasölu, en kommúnistaþingmanninn Lúðvík Jósefsson.

Kommúnistar þykjast nú hafa himin höndum tekið yfir því, að þunglega horfir með sölu ýmissa íslenzkra afurða. Það er rétt, að svo gerir, en allra sízt ber að saka íslenzku ríkisstj. fyrir það. Sést það bezt á því, að það er fyrst eftir að aðrar stjórnir hætta að kaupa íslenzkar afurðir með milliríkjasamningum, svo sem t.d. hraðfrysta fiskinn, sem aðalmarkaðsörðugleikarnir byrja. Íslenzku ríkisstj. hefur sem sé árum saman tekizt að selja þessa vöru, meira að magni og fyrir hærra verð en frjáls markaður sagði til um. Bendir það til allt annars en að íslenzka ríkisstj. hafi legið á liði sínu. Það er þegar ríkisafskiptin úti í löndum hverfa, sem hið sanna í þessu kemur í ljós. Þá verður ber sú staðreynd, að frjáls markaður fyrir vöruna er mun minni, en íslenzku stjórninni tókst að útvega, á meðan milliríkjasamningum um ákveðnar sölur varð við komið.

Íslendingar þekkja markaðsörðugleika frá fyrri tímum. Til lausnar á þeim vanda verða allir góðviljaðir menn að leggja sig fram, og mun vissulega ekki standa á starfsbræðrum mínum né mér um það. Víst er, að bjargráðið í þeim efnum er ekki það, að ríkið haldi áfram að taka ábyrgð á verði framleiðslunnar og þar með vera í raun og veru aðalkaupandi hennar. Markaðanna er ekki að leita uppi í stjórnarráði eða hér í sölum Alþingis, heldur hjá neytendum vörunnar úti í löndum.

Kommúnistar kvaka sí og æ um markaði í Rússlandi, sem Rússar sjálfir segja, að eigi séu til. En kommúnistar þegja um þau sannindi, sem allir þekkja, er eitthvað fylgjast með alþjóðamálum, að stefna Rússa er nú einmitt sú að byggja upp sem einangraðast og óháðast efnahagskerfi á þeim miklu landflæmum, er þeir ráða yfir. Þess vegna eru það þeir, sem hafa slitið eða torveldað verzlunartengslin við löndin utan við járntjaldið, en ekki hin frjálsu lönd, sem hafa slitið tengslin við þá.

Enginn skyldi halda, að það væri tóm tilviljun, að kommúnistar snúa hér sannleikanum alveg við, eða þetta væri eina málið, sem Áki Jakobsson segir ekki satt um. Nei, slíkar eru einmitt starfsaðferðir kommúnista.

Menn minnast, að kommúnistar héldu nú í vor upp á ársafmæli uppþots síns hér fyrir framan alþingishúsið 30. marz í fyrra. Á samkomu þessari töluðu nokkrir forsprakkar kommúnista, þar á meðal Áki Jakobsson. Flestar þóttu ræðurnar bragðdaufar. Þó skáru sig úr nokkur ummæli Áka Jakobssonar, sem birt voru að meginefni í blöðum, en Þjóðviljinn mótmælti. Vakti það töluverða athygli, að Þjóðviljinn birti hinar tilkomuminni ræður, en skaut undir stól fagnaðarboðskap hins fyrrverandi ráðherra. En svo vildi til, að fyrirhyggjusamur borgari notaði sér það, að ræðuhöldunum var útvarpað gegnum hátalara, er var á fundarhúsinu. Hann tók ræðurnar því niður á stálþráð. Í ræðu Áka Jakobssonar, þessa háttvirta þingmanns og fyrrv. ráðherra,. sem hefur með hátíðlegu heiti, dags. 10. jan. 1944, lagt „drengskap sinn við að rækja með trúmennsku og samvizkusemi þau málflutningsstörf“, sem honum verða falin, segir m.a. á þessa leið:

„Ég verð að segja það, að þegar ég sé dómsniðurstöðurnar, þá mundi ég ráðleggja hverjum og einum, sem mæta ætti fyrir dómstóli eins og þessum, sem hérna er, að vera ekki of barnalegur, þegar hann mætir, af því að það virðast vera niðurstöður dómarans, að þegar menn hafa skýrt rétt og satt frá, ja, þá er þeim refsað alveg sérstaklega fyrir það.“

Þetta var það, sem Þjóðviljinn þagði um, en stálþráðurinn sagði eftir Áka. Þessi ummæli eru eftirtektarverð um margt. Með þeim er játað, að þeir af sakborningunum, sem sögðu rétt og satt frá, hafi þannig lagt til gögn fyrir dómsáfelling sinni. Með þessu er einnig gefið í skyn, að sumir, sem ekki voru svo „barnalegir'' að segja „satt og rétt frá“, hafi þar með sloppið.

Af fjórum sakborningum, sem sýknaðir voru í héraði, var Áki Jakobsson verjandi þriggja, maðurinn, sem að eigin sögn segist ráða skjólstæðingum sínum til „að vera ekki svo barnalegir að segja satt og rétt frá.“

Út af fyrir sig skiptir það ekki öllu máli, hvort þeir verða þremur eða fjórum fleiri eða færri, sem dæmdir verða fyrir uppþotið 30. marz 1949. Aðalforsprakkarnir, þeir, sem egndu unglingana til óhæfuverkanna, voru hvort eð er fæstir svo „barnalegir“ að hafa sig sjálfir mikið í frammi. — Þeir héldu sig flestir í skúmaskotunum, svo sem þeirra er vandi, þegar svipað stendur á.

Hitt er miklu alvarlegra, að einn af þeim mönnum, sem unnið hafa drengskaparheit að því að þjóna réttvísinni í landinu með trúmennsku og samvizkusemi, segir sjálfur í almannaáheyrn, að hann telji „barnalegt“ að skýra „satt og rétt frá“. Út yfir tekur þó, að þetta skuli vera fyrrverandi ráðherra og ennverandi alþingismaður.

Enginn skyldi heldur halda, að Þjóðviljinn hefði skotið þessum ummælum undan vegna þess, að kommúnistar væru þeim ósammála. Það átti að reyna að þegja þau í hel, vegna þess að ekki þykir hagkvæmt, að menn út í frá fái að kynnast grundvallarreglum þeim, sem kommúnistar fara eftir í starfi sínu, þeim boðskap, sem Lenin orðaði þannig í ritinu „Barnasjúkdómar vinstri stefnunnar í kommúnismanum“: „Við verðum að vera reiðubúnir að nota brögð, svik, lögbrot, að skjóta undan og fela sannleikann“. — En þegar sagt var frá þessum ummælum hér á landi, ætlaði Þjóðviljinn að ærast.

Kommúnistar segja að vísu, að málaferlin út af afbrotunum frá 30. marz 1949 sé réttarofsókn af minni hálfu, og af því tilefni kaus hátíðarsamkoma á uppþotsafmælinu sérstaka „nefnd til að undirbúa og skipuleggja réttarvernd.“ Formaður þeirrar nefndar er Þorvaldur nokkur Þórarinsson lögfræðingur. Varð hann almenningi að umræðuefni í vetur, er hann lýsti yfir því á stúdentafundi, að hann væri fús að flytja til Rússlands og setjast þar að. Þessi yfirlýsing gladdi almenning svo, að á örskömmum tíma safnaðist víðs vegar að veruleg fjárhæð til að kosta austurför mannsins og koma honum þannig af höndum Íslendinga. Þegar til kom, reyndist náungi þessi hins vegar hugaðri í munni en hjarta og skorti kjark til að standa við orð sín. Situr hann því enn sem fastast í íbúð þeirri, sem hann á sínum tíma öðlaðist með því að láta bera út á götuna ekkju með nokkur munaðarlaus börn, svo sem frægt er orðið. Úr því að þessi maður er sá fremsti og flekklausasti, sem kommúnistar velja til réttarverndunar hér á landi, þarf ekki að fara mörgum orðum um hina, hvers konar fuglar þeir muni vera, né hvers skjóls ekkjur eða munaðarleysingjar muni eiga að vænta undir verndarvæng þeirra.

Réttarhugmyndir kommúnista lýsa sér vel í yfirlýsingu réttargæzlumannanna í hinum nýju fyrirmyndarstjórnum þeirra austan járntjalds. Ungverski dómsmálaráðherrann sagði t.d. hinn 30. jan. 1948, að „eitt af sönnunargögnunum nú á dögum væri pólitísk afstaða hins ákærða“, og hinn 29. jan. 1949: „Dómararnir verða að hegða sér samkvæmt kenningum Marx og Lenins“, og hinn 16. okt. 1948 sagði aðalsaksóknarinn í Rúmeníu: „Hinn löglærði dómari verður að losa sig við hið lögfræðilega hugarfar.“

Ég held, að Áki Jakobsson þurfi engu að kvíða í þessu. Hann hefur í þessu sem öðru hlýtt boði meistaranna í Moskva og hreinsað sig alveg af því lögfræðilega hugarfari, sem hann kann að hafa kámazt af í lagadeildinni forðum.

Kommúnistar prédika það, að málssóknin á mennina frá 30. marz 1949 sé persónuleg ofsókn af minni hálfu. Auðvitað er ég ekki óskeikull frekar en aðrir, og sannarlega kem ég svo mikið við sögu þessara atburða, að ég get ekki verið dómari um sekt manna þessara eða sýknun. Það er að vísu embættisskylda mín að höfða mál gegn mönnunum frá 30. marz 1949, ella hefði ég sjálfur unnið til refsingar. En aðrir dæma í því máli. Ég kem þar hvergi nærri. Úrslitadómurinn er hjá hæstarétti. En dómarar hæstaréttar njóta vissulega þess trausts, að almenningur veit að engin hætta er á, að saklaus maður verði dæmdur til refsingar af Hæstarétti Íslands. Af einhverjum ástæðum er kommúnistum þó illa við að miklar fréttir berist af störfum hæstaréttar á þessu ári, því að nú hafa þeir flutt till. um að fella niður fjárveitingu til prentunar dóma hans.

Á Íslandi þarf enginn að óttast það, að lögreglan láti hann hverfa, e.t.v. þegjandi og hljóðalaust, þannig að enginn viti árum saman, hvort hann er dauður eða lifandi. Hér skera hlutlausir dómstólar úr málum manna. Flestir Íslendingar telja þetta svo sjálfsagt, að þeir kunna ekki að meta það svo sem vert er. Fátt er geigvænlegra við stefnu kommúnista en það, að þeir vilja svipta borgarana þessari réttarvernd, á sama veg eins og slíkar umræður sem þessar væru óhugsandi í kommúnistísku þjóðfélagi. Þar er gagnrýni svarað með frelsissviptingu, þrælkunarvinnu, útlegð eða lífláti.

Hér er gagnrýnin viðurkennd sem sjálfsagður þáttur heilbrigðs stjórnarfars. Sá, sem ekki getur svarað gagnrýninni með rökum, hlýtur að missa fylgi og hverfa frá völdum. Þessi háttur er óneitanlega óhentugri fyrir lélega valdhafa, en hinn kommúnistíski. En hann er almenningi miklu hentari, undirstaða framfara hans og frelsis. Þess vegna munu Íslendingar aldrei ótilneyddir fallast á kenningar kommúnista, heldur óhvikulir halda tryggð við réttaröryggi einstaklinganna, við réttinn til gagnrýni og önnur þau gæði, sem eru prýði menningarinnar, en afneitun kommúnismans.