11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

38. mál, fjárlög 1950

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Emil Jónsson reyndi að verja afstöðu flokks síns með því að bera í bætifláka fyrir niðurgreiðsluleiðina. Hann vildi vefengja umsögn atvmrh., að þurft hefði 150–200 millj. kr. á þessu ári til niðurgreiðslna, ef þeim hefði verið haldið áfram. Emil Jónsson talaði um 37 millj. í þessu sambandi. Þetta sýnir, hversu hv. þm. er langt úti á þekju í málinu eða að hann lokar augunum fyrir þeim útreikningum, sem birtir hafa verið, enda er það sú eina afstaða, sem hann og flokkur hans geta tekið, til þess að vera samkvæmir sjálfum sér í þeirri furðulegu fjármálastefnu, sem þeir hafa valið sér. Hv. þm. gleymir því, að það var ekki aðeins bátaflotinn, sem var kominn í þrot og þurfti að bjarga. Það var einnig togaraflotinn. Hann væri nú allur stöðvaður og bundinn í höfnum — ef stefna Emils Jónssonar hefði fengið að ráða.

Einar Olgeirsson endurtók æði oft í ræðu sinni í kvöld: Verkin lofa meistarann. Ég hygg, að þetta sé mjög smellin lýsing á sjálfri ræðunni. Hún var mjög gott sýnishorn af hans venjulegu ræðumennsku, óstöðvandi flaumur villandi og rangra fullyrðinga um allt, sem við getum selt Rússum, um öll þau gæði, sem bíða okkar austan járntjaldsins. En hann gleymdi að skýra frá því, hversu mikið hann flýtti sér að komast burt úr rússnesku sælunni, þegar hann var þar síðast. Sjaldan mun órórri maður hafa dvalið nokkra daga í Moskva, eftir því, sem þeir sögðu, sem með honum voru þar.

Ræðan, sem hann hélt hér á Alþingi í kvöld, var sú ræða, sem kommúnistar halda nú um öll Vesturlönd, að boði yfirboðaranna í Moskva.

Talsmaður Alþfl. ræddi í gærkvöld um það sem hvert annað hneyksli, að Sjálfstfl. skyldi hafa efst á stefnuskrá sinni styrkjalausan atvinnurekstur og frjálsa verzlun. Sagði hann, að það væri sama og gefa útgerðarmönnum og kaupsýslumönnum frjálsar hendur til að safna auði.

Það hefur mörgum verið kunnugt, að fátt er meiri þyrnir í augum Alþýðuflokksforingjanna en efnahagsleg velgengni einhverra stétta þjóðfélagsins og þá ekki sízt framleiðslustéttanna. En fáa mun hafa órað fyrir því, að þeir teldu það vænlegasta ráðið til að bæta kjör almennings, að útflutningsframleiðslan væri gjaldþrota niðursetningur hjá fjárvana ríkissjóði og verzlunin væri drepin í dróma hafta og svartamarkaðsbrasks.

Það, sem nú veldur mestum erfiðleikum, er sú staðreynd, að þjóðin fær nú minna en áður fyrir það, sem hún framleiðir. Hún fær nú minni erlend gæði fyrir þá framleiðslu, sem hún selur til útlanda, vegna þess að kaupendurnir þar vilja ekki greiða nú jafnhátt verð og áður. Um þetta er við engan að sakast. Þjóðin verður að geta tekið því, sem að höndum ber í þessu efni, án þess að láta pólitískan áróður villa sér sýn. Kommúnistar og Alþfl. reyna að telja landsmönnum trú um, að lækkun gengisins sé nú að keyra hér allt um þverbak. Þeir góðu menn ættu að gera sér grein fyrir, hvar skórinn kreppir. Ekki er það gengislækkuninni að kenna, að freðfiskurinn er nær óseljanlegur eða að ísfiskmarkaðurinn í Bretlandi er að hrynja. Ekki er það gengislækkuninni að kenna, að gjaldeyrisástandið er nú svo erfitt, að ekki er hægt að halda uppi eðlilegri byggingarstarfsemi, að iðnaðurinn verður að draga saman reksturinn, að verzlunin horfir fram á gjaldþrot og stór hópur námsmanna verður að hætta námi erlendis. Gengislækkunin var neyðarúrræði til þess að rétta hlut útflutningsframleiðslunnar, sem komin var að stöðvun. Vel má svo fara, að þessi ráðstöfun nægi ekki til að standast áföll verðlækkunar og sölutregðu á erlendum markaði. En það sýnir þá betur en nokkuð annað, hversu óumflýjanleg þessi ráðstöfun var og hversu barnalegar eru fullyrðingar þeirra manna, sem halda því fram, að hægt væri að halda framleiðslunni gangandi með því að láta þjóðina greiða allan tapreksturinn með sköttum.

Sjaldan hefur komið greinilegar fram en nú, hversu allt athafnalíf í landinu er háð útflutningsframleiðslunni. Bresti grundvöllurinn undir henni, er allur annar atvinnurekstur í landinu í hættu. Landbúnaðurinn þarfnast véla, áburðar og kjarnfóðurs. Iðnaðurinn þarf erlend hráefni. Byggingariðnaðurinn þarf að flytja inn mikinn hluta byggingarefnisins. Útflutningsframleiðslan sjálf þarf tæki og efni í stórum stíl erlendis frá til starfrækslu sinnar. Sé ekki hægt að fullnægja þörfum þessara atvinnugreina á erlendum vörum, kemur sá skortur fram í atvinnuleysi, vegna þess að reksturinn dregst saman.

Til þess að fullnægja aðkallandi þörf á innfluttum vörum fyrri hluta ársins er talið, að gefa þurfi út leyfi fyrir 390 millj. kr. Af því hafa þegar verið gefin út leyfi fyrir 276 millj. frá áramótum, en ný leyfi, sem þyrfti að gefa út, nema 114 millj. kr. Af þessum 390 millj. er talið að hægt sé að greiða fram til 1. júlí um 240 millj. kr. Skortir þá 150 millj. kr. eingöngu í sterling-gjaldeyri, til þess að hægt sé að greiða fyrir þessar aðkallandi þarfir.

Þess ber og að gæta, að nokkuð af þeim gjaldeyri, sem talið er að hægt sé að greiða, er yfirdráttarheimild í clearingreikningum, sem gert er ráð fyrir að greiða með vörum síðar á árinu.

240 millj. kr., sem hægt væri að flytja inn fyrri hluta ársins, svarar til 140 millj. kr. innflutnings í fyrra. Til samanburðar má geta þess, að fyrri helming síðasta árs var flutt inn fyrir 206 millj. kr. Verður því innflutningurinn nú á sama tíma um 66 millj. kr. minni, miðað við fyrra gengi.

Innflutningsmöguleikar síðara missiri ársins fara eftir því, hvernig síldveiðarnar heppnast. Bregðist þær, verður að taka margt til endurskoðunar, sem þjóðarbúið varðar.

Minnkandi gjaldeyristekjur þjóðarinnar hafa mjög víðtæk áhrif á atvinnuna og fjárfestinguna í landinu. Gert er ráð fyrir að veita á þessu ári leyfi fyrir 4.500 standördum af timbri á móti 7.000 standördum árið 1949. Af sementi er gert ráð fyrir að veita leyfi til 1. júlí fyrir 18 þús. tonnum, og ef vel gengur með öflun gjaldeyris síðari hluta ársins, að veita 14.000 tonn í viðbót. Þetta yrði samtals 32.000 tonn á móti innflutningi síðasta árs, er nam um 45.000 tonnum.

Af þessum tölum má ráða, hversu mikils samdráttar má vænta í byggingariðnaðinum og þar með fjárfestingunni vegna gjaldeyrisskorts, og er þó líklegt, að samdrátturinn og vöruvöntunin verði enn meiri í ýmsum öðrum greinum byggingarefna en þeirra, sem nú hafa verið nefnd.

Að því er iðnaðinn snertir, má geta þess, að gert er ráð fyrir að veita leyfi undir þessum lið innflutningsáætlunarinnar til 1. júlí 19.7 millj. kr., en síðari hluta ársins 9,3 millj., eða samtals 29 millj. kr. allt árið. Sambærilegar leyfisveitingar 1949 voru 35 millj. kr. Er því ljóst, að einhver samdráttur hlýtur að verða í iðnaðarframleiðslunni, þótt hægt verði að standa við áætlunina, sem engan veginn er víst.

Möguleikar í innflutningi fyrir allt þetta ár eru áætlaðir 325 millj. kr., reiknað með eldra genginu. Innflutningur síðasta árs var 424 millj. kr. — Þessar tölur gefa nokkuð til kynna, hversu rýrnað hafa útflutningsverðmæti þjóðarinnar vegna lækkandi verðs og sölutregðu, á erlendum mörkuðum.

Þegar rætt er um gjaldeyrisafkomu þjóðarinnar, er eðlilegt, að athuguð sé afgreiðsla fjárlaganna, því að hvort tveggja bindur nokkuð hvað annað. Afgreiðslunni er að vísu ekki lokið, en nokkuð ljóst liggur nú fyrir, hvernig hún muni verða. Engum gat dulizt, að gengisbreytingin hlaut að hafa mikil áhrif á ýmsa liði fjárlaganna og hækka niðurstöðutölur þeirra. Til dæmis hækka útgjöld einnar stofnunar, landssímans, um margar milljónir. Það ætti ekki heldur að vekja mikla furðu, þótt fjárlögin hækkuðu um leið og erlendur gjaldeyrir hækkar í verði um nærri 75%. Framlag til verklegra framkvæmda hækkar þó ekki, þrátt fyrir það að erlent efni til þeirra hækkar í verði. Er því raunverulega um talsverða lækkun að ræða á þessum liðum frá því, sem var áður en gengisbreytingin gekk í gildi.

Margir munu telja æskilegt, að eitthvað hefði verið dregið úr útgjöldum fjárlaganna að krónutali. Hins er þá og að gæta, að með hinni stórfelldu gengislækkun hefur efnahagsástandið í landinu gerbreytzt svo, að eftir því sem þessarar ráðstöfunar fer að gæta, dregur úr áhrifum verðþenslunnar. Um það má deila hvort gerlegt sé að framkvæma hvort tveggja, mikla gengislækkun og niðurskurð á fjárlögunum. Þótt breyta þurfi efnahagsástandinu, þá getur verið hættulegt að breyta því of skyndilega á mjög róttækan hátt. slíkt gæti valdið stöðvun í atvinnulífinu, sem ekki væri nauðsynleg og því síður æskileg. Þess vegna var talið hyggilegra að skera ekki niður krónutölu verklegra framkvæmda skv. fjárlagafrv., þangað til sést, hver áhrif gengisbreytingin hefur á atvinnuástandið í landinu.

Hinn mikli greiðsluhalli fjárlaganna undanfarin þrjú ár stafar að talsverðu leyti af því, að margir útgjaldaliðir voru ekki teknir í fjárlög, þótt telja mætti víst, að þeir kæmu til útborgunar. Stjórnin hefur talið það ófrávíkjanlegt skilyrði, að fjárlögin verði afgreidd án greiðsluhalla. Einn þáttur í þeirri viðleitni er að taka upp í fjárlögin allar greiðslur, sem ákveðnar eru í lögum eða á annan hátt vitanlegt er að muni koma til útborgunar. Þetta meðal annars hækkar útgjöld fjárlaganna, en tryggir jafnframt, að minni hætta er á greiðsluhalla, ef tekjuáætlunin fær staðizt.

Hitt er svo annað mál, sem varla verður um deilt, að fyrir næsta fjárhagsár verður að gera miklar breytingar á fjárlögunum til þess að samræma þau þverrandi fjárveltu og minnkandi atvinnutekjum. Til þess þarf undirbúning vegna lagabreytinga og vegna breytingar á ýmsum rekstri ríkisins, sem ýmist mætti draga saman eða leggja niður.

Út af þeim stöðugu árásum, sem Alþfl. heldur uppi á aðgerðir stj. í sambandi við gengislækkunina, væri freistandi að fletta ofan af þeirri dæmalausu hræsni og óvenjulegu einfeldni, sem lýsir sér í allri málafærslu flokksins. Stjórnarblöðin hafa þó til þessa hlíft flokknum í þessu efni í von um að hann komi auga á það, hversu afstaða hans er ábyrgðarlaus og á öndverðum meið við allt skynsamlegt vit. Enginn er forviða, þótt kommúnistarnir hagi sér svo. Enginn ætlast til annars en ábyrgðarleysis af þeim. En hin ábyrgðarlausa og einkennilega afstaða Alþfl. sést fyrst í réttu ljósi, þegar hún er borin saman við ráðstafanir og stefnu, skoðanabræðra hans í Bretlandi og Noregi.

Noregur hefur fyrir skömmu orðið að rifa seglin eins og vér Íslendingar, að vísu ekki með beinni gengislækkun, heldur með ráðstöfunum, sem bitna á þjóðinni nákvæmlega á sama hátt. Norska stjórnin hafði frá stríðsbyrjun leitazt við að halda niðri verðlaginu innanlands með gífurlegu framlagi úr ríkissjóði. Síðasta reikningsár var greitt úr ríkissjóði 600 millj. kr. En samkvæmt áætlun mundi framlagið verða að hækka á þessu ári upp í 1.050 millj. kr. til þess að halda verðlaginu óbreyttu. Norska stjórnin taldi sig ekki hafa bolmagn til að auka framlag ríkisins um 450 millj. kr. og ákvað því að stinga við fótum og láta verðlagið hækka. Mikil verðhækkun varð á ýmsum matvörum, fatnaði, skófatnaði, veiðarfærum o.fl. Talið er, að verðhækkunin nemi á hverja fjögurra manna fjölskyldu yfir 700 ísl. kr. á ári. Þessar ráðstafanir eru gerðar af ríkisstjórn norskra verkamanna, án þess að nokkur hækkun á kaupi komi þar á móti, að minnsta kosti fyrst í stað. Fulltrúar norskra verkalýðsfélaga, samband vinnuveitenda og bænda hafa samþykkt að styðja þessar ráðstafanir og vinna sameiginlega að því að bjarga landi sínu yfir það erfiðleikatímabil, sem nú fer í hönd.

Brezka verkamannastjórnin lækkaði gengi sterlingspundsins í september s.l. um 30%, eins og kunnugt er. Innkaup erlendra vara hækkaði um 43%. Þrátt fyrir þessa miklu verðhækkun á innfluttum vörum hefur brezka stjórnin staðið ósveigjanleg gegn því, að nokkur kauphækkun væri leyfð vegna þessara ráðstafana.

Hér eiga hlut að máli tvær ríkisstjórnir verkamanna, sem Alþfl. íslenzki hefur í mestum hávegum og telur sér andlega skyldastar. Er munurinn á honum og þessum ríkisstjórnum sá, að þær hafa haft hugrekki og framsýni til að gera það, sem þær telja rétt og óumflýjanlegt, þótt það leggist með nokkrum þunga á bak þeim stéttum, sem þessar ríkisstjórnir styðjast við. En Alþfl. skortir gersamlega. hugrekki og manndóm skoðanabræðra sinna í Noregi og Bretlandi. — Hér fordæmir hann, rægir og afflytur hinar sömu ráðstafanir og gerðar voru af þessum erlendu, skoðanabræðrum. Hér gengur hann berserksgang gegn ráðstöfunum, sem norskir og brezkir jafnaðarmenn töldu lífsnauðsyn í sínu landi undir svipuðum kringumstæðum. Gerir hann það af sannfæringu? Nei, ef hann hefði einhverja sannfæringu í málinu, þá mundi hann líka hafa ákveðna skoðun á því, hvernig ætti að leysa vandamálin án gengislækkunar og þar af leiðandi verðhækkunar. Hann hefur enga skoðun fram að flytja í því efni. Hann hefur engar tillögur, sem staðizt geta gagnrýni hinna einföldustu.

Sú fullyrðing, að hægt sé að halda útflutningsframleiðslunni uppi með styrkjum úr ríkissjóði, án þess að þjóðin þurfi að súpa af því seyðið í fullum mæli, er of fjarstæðukennd til þess að alþýðuflokksforingjarnir trúi henni sjálfir, enda hafa þeir lýst yfir því, að slík leið sé ekki lengur fær. Þeir hafa heldur aldrei reynt að finna orðum sínum stað með nákvæmum tölum og greinargerð um það, hvernig þetta mætti framkvæma með fallandi afurðaverði á erlendum markaði og hækkandi framleiðslukostnaði innanlands. Þetta er fullyrðing, sem þeir trúa ekki á sjálfir, en þeir nota hana sem skálkaskjól til þess að fela sitt eigið pólitíska hugleysi, hugleysi til að horfast gegn staðreyndunum og erfiðleikunum, hugleysi til að leggja á þjóðina byrði, sem nú er orðin óhjákvæmileg nauðsyn og hlýtur fyrst í stað að vera pólitískt óvinsæl, hugleysi til að gera ,það sama og skoðanabræður þeirra í Bretlandi og Noregi hafa gert til að leysa svipaða erfiðleika og hér er við að stríða. Kannske mætti kalla hugleysið öðru nafni kommúnistahræðslu.

Fyrir þá, sem til þess hafa skap, eins og nú er komið efnahag þjóðarinnar, er það óneitanlega léttara hlutverk að fordæma gengislækkun, berja sér á brjóst og segjast ekki vilja leggja neinar byrðar á þjóðina, heldur en að framkvæma slíkar nauðsynlegar sársaukaráðstafanir. Það er léttara hlutverk, en hitt er svo annað mál, hversu veglegt það er.

Þjóðin lifir aldrei til langframa á hræðslu og rakalausum staðhæfingum. Hún lifir lengst á því að horfast gegn staðreyndunum og sigrast á erfiðleikunum með dugnaði og drengskap.