11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

38. mál, fjárlög 1950

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. eigi eftir að tala hér í kvöld og að honum láist þá ekki að kveðja. Hæstv. ráðherra mun nefnilega vera á förum af landi brott rétt einu sinni á kostnað þjóðarinnar í víðtækasta skilningi. Á mánudaginn kemur hefst í Lundúnum fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna, þessara samtaka, þar sem hugsjónirnar eru vígvélar og morðtól og markmiðið, árásarstyrjöld. Þessi sami ráðherra sótti fyrsta fund þessara samtaka fyrir rúmu ári með nokkuð sérstæðu móti og flutti þá hina frægu klöguræðu sína um íslenzku þjóðina. Í þetta sinn getur ræðan orðið annars eðlis, nú hefur ráðherrann frækilegan sigur að státa af. Hann hefur látið dæma 20 saklausa landa sína í þunga fangelsisdóma í þágu styrjaldarsamtakanna eftir ódæma hneykslanlegan málarekstur. Sú ræða verður ekki kvíðabundnar afsakanir og sjálfsréttlæting og skrílslegt þvaður um einstaka menn, eins og orð hans um dómana hér áðan. Þvert á móti mun ráðherrann sýna fram á það með steigurhætti og með fullum rétti, að þessir dómar eru ekki hefnd við 20 einstaklinga, heldur kveðnir upp yfir íslenzkum alþýðusamtökum og öllum þeim, sem vilja, að Íslendingar lifi sem frjáls og friðsöm þjóð í landi sínu. Hér á Íslandi hefur þegar verið hafið í verki það stríð, sem Atlantshafsbandalaginu er ætlað að reka á víðtækasta sviði gegn verkalýðshreyfingu og sósíalisma, og hin nýja ríkisstjórn Íslands hefur þegar staðizt einnig þessa prófraun sína.

Ráðherranum fylgja í utanstefnunni uggur og ótti íslenzku þjóðarinnar. Það er orðin sár reynsla, að valdamenn afturhaldsins, og sérstaklega þessi ráðherra, mega vart tala svo við erlenda ráðamenn, að þeir láti ekki föl íslenzk landsréttindi. Og í styrjaldarsamtökum bandaríska auðvaldsins hafa Íslendingar ekkert fram að leggja annað en land sitt og landsréttindi og geta ekkert borið úr býtum annað en það, að Ísland verði bækistöð þeirra bandarísku morðtóla, sem talin eru geta tortímt öllu mannkyni. Um þetta fer ráðherrann nú að semja — sá hinn sami ráðherra, sem með einræðisvaldi sínu í afurðasölumálum hefur samið af þjóðinni efnahagslegt sjálfstæði, er að koma Íslendingum á vonarvöl og gera þá að bónbjargarmönnum, sem setja traust sitt á gjafakorn og viðreisnarkartöflur úr eyðileggingarhaugum yfirboðaranna fyrir vestan haf. Hver þau ótíðindi verða, sem ráðherrann kemur að þessu sinni með úr för sinni, mun fljótlega koma í ljós.

En þátt þjóðin fylgist af ugg og ótta með hinni nýju utanstefnu Bjarna Benediktssonar, getur hann huggað sig við, að hvað sem hann lætur falt, mun formaður Alþfl. jafnan telja of lítið boðið. Ummæli Stefáns Jóh. Stefánssonar í gær um utanríkisstefnu stjórnarinnar eru önnur traustsyfirlýsing frá hans hendi á tveim mánuðum, og þau ummæli hafa vissulega hljómað kunnuglega í eyrum Íslendinga. En að öðru leyti hljóta ræður þeirra Stefáns Jóh. Stefánssonar og Emils Jónssonar að hafa haft næsta ókunnuglegan blæ. Undanfarin þrjú ár hafa þessir tveir forsprakkar ævinlega talað við hliðstæð tækifæri sem ráðherrar, einlægustu aðdáendur sinnar eigin stjórnar. Allan þennan tíma hafa þeir með óbilandi brjóstheilindum mælt bót sívaxandi tollum og sköttum, borið blak af svörtum markaði, verzlunaróreiðu og húsnæðisleysi, afsakað skipulagða dýrtíð og vöruskort, dásamað kauplækkanir og minnkandi atvinnu og meira að segja lýst gengislækkun sem blessunarríkri ráðstöfun, þegar gengið var fellt í fyrra sinn s.l. haust. Nú koma þessir fyrrverandi ráðherrar fram í nýju gervi, sem konunglegir stjórnarandstæðingar, og nota í þetta sinn sömu brjóstheilindin til mjög réttmætra áfellisdóma yfir tollum og sköttum, svörtum markaði, verzlunaróreiðu, húsnæðisleysi, dýrtíð, vöruskorti, atvinnuleysi og umfram allt gengislækkun. Hinir konunglegu stjórnarandstæðingar Stefán Jóh. Stefánsson og Emil Jónsson virðast þannig vera að húðstrýkja ráðherrana með sömu nöfnum, því að það hefur ekki orðið nokkur minnsta breyting á stjórnarstefnunni í landinu, allar athafnir núverandi stjórnar eru beint áframhald af aðgerðum þeirrar fyrstu, sem Alþfl. hefur myndað.

Því miður er skýringin á þessum umskiptum ekki sú, að Alþýðuflokksleiðtogarnir hafi fundið löngu týnda samvizku sína og endurfæðzt. Það sést m.a. á málflutningnum, sem er í sjálfu sér ósamþykkur og svífur í lausu lofti. Þeir þykjast vera andvígir gengislækkun, en dásama um leið Marshallsamninginn, sem er orsök gengislækkunarinnar og kvað á um hana fyrir tveimur árum, enda var það einmitt fyrsta stjórn Alþfl., sem kvaddi til Íslands hinn bandaríska gengislækkunarfræðing, Benjamín Eiríksson, vorið 1949. Og í gær lýsti hæstv. forsrh. því yfir, að forsprakkar Alþfl. hefðu stutt gengislækkunina á bak við tjöldin, þótt þeim þætti rétt að flíka öðru við almenning. Alþýðuflokksleiðtogarnir hafa allt í einu uppgötvað þrot útflutningsframleiðslunnar og sívaxandi vöruskort, sem mótar daglegt líf hvers alþýðuheimilis og er að leggja iðnaðinn í rúst, en jafnframt votta þeir órofa tryggð Marshallstefnunni, sem njörfar Ísland við heim kreppu, örbirgðar og hruns og er sjálf orsök þess öngþveitis, sem mótar efnahagslíf Íslendinga. Þeir impra enn á sósíalisma við hátíðlegustu tækifæri, en eru jafnframt minnstu, og áköfustu þátttakendur í þeirri samábyrgð deyjandi kapítalisma, sem nefnist Atlantshafsbandalag, Marshallsamstarf og Evrópuráð. Það er sem sé mótsögn, þegar þeir lýsa yfir andstöðu við stefnu stjórnarinnar í innanlandsmálum, en votta utanríkisstefnu hennar traust. Stefnan í utanríkismálum, markaðshrunið, auðvaldskreppan, eru meginástæður til þeirrar fátæktar, sem nú er verið að leiða yfir íslenzku þjóðina.

Nei, samvizka Alþýðuflokksleiðtogana er jafnófundin og fyrr — þeir hafa ekki endurfæðzt. Þeim hefur aðeins verið úthlutað nýjum hlutverkum í því sjónarspili, sem afturhaldið leikur látlaust frammi fyrir íslenzkri alþýðu. Þeir eru ekki lengur nothæfir sem ráðherrar um sinn og hefur því verið skipað í ytri víglínu, þar sem þeir eiga að reyna að laða til sín þær þúsundir, sem eru að snúa baki við núverandi stjórnarflokkum, svo að þær glatist ekki hinni sameiginlegu stefnu. Þess vegna hafa þessir ágætu menn, eins og Ólafur Thors kallaði þá í öðru hverju, orði í gær, nú fengið leyfi til að fordæma í orði afleiðingar þeirrar stjórnarstefnu, sem þeir eru manna áfjáðastir í að viðhalda.

Sá leikaraskapur, er mótar hin snöggu og algeru hlutverkaskipti Alþýðuflokksleiðtoganna, er að verða æ ríkari þáttur í íslenzkum stjórnmálum. Þeir dagar eru nú löngu liðnir, að forsprakkar afturhaldsflokkanna segi nokkurn veginn einlæglega frá skoðunum sínum og ætlunarverkum. Í staðinn er það orðin regla að mæla þvert um hug og reyna með því að gera fólk að sjálfs sín böðlum. Það er ekki aðeins sérgrein Alþfl., heldur einnig eftirlætisíþrótt hinna afturhaldsflokkanna. Er hin blygðunarlausa framkoma Framsfl. síðustu mánuði einstætt dæmi um það. Verður sú niðurlægingarsaga Framsfl. ekki rakin hér, en aðeins minnzt á einn lítinn þátt hennar.

Flestum munu í fersku minni skrif Tímans um húsnæðismál fyrir kosningarnar í vetur, að minnsta kosti þeim þúsundum, sem búa í óhæfu húsnæði við enn krappari kjör, en nokkru sinni fyrr. Dag eftir dag skýrði Tíminn nákvæmlega frá hinu erfiða hlutskipti þessa fólks og lýsti jafnframt leiðtogum Framsfl. sem forsprökkum í heilögu stríði gegn húsnæðisskorti og örbirgð. Þess er því miður ekki kostur að rekja þessi skrif, en sem dæmi má nefna eftirfarandi ályktun um húsnæðismálin, sem birtist daginn fyrir jólahátíðina:

„Við Íslendingar þykjumst fyllast ógn og hryllingi þegar við heyrum, að fólk hafi verið dæmt til dauða úti í löndum — kannske í hópum. En er ekki eitthvað af hræsni og yfirdrepsskap í þessum hrolli, meðan svo er ástatt í höfuðstað landsins sem nú hefur verið lýst?

Með þeirri eymd, sem hér er látin viðgangast, er nefnilega verið að dæma til dauða, bæði andlega og líkamlega, hópa barna á ýmsum aldri og jafnvel fullorðið fólk líka. Það er hollast fyrir alla að gera sér afdráttarlaust grein fyrir ástandinu, og síðan getur hver og einn stungið hendinni í eigin barm og hugleitt, hvað af ábyrgðinni hann ber.

Þessir ömurlegu mannabústaðir, sem hér hefur verið lýst og líklega eru verri og ömurlegri, en verstu greni Reykjavíkur á dögum Jörundar hundadagakonungs, eru svo að segja allt í kringum bæinn. Í öllum áttum eru þessi fátækrahverfi sprottin upp — þyrpingar af kofaskriflum, yfirfullum af fólki á mismunandi stigum örbirgðar og vonleysis.“

En Tíminn lét sér ekki nægja að lýsa, hann kvaðst skera upp herör. Það yrði að bjarga þessu fólki, „og ekkert getur bjargað því og börnum þess nema betri húsakynni.“ Tíminn kvað knýjandi nauðsyn að gera „tafarlausa áætlun um það, hvernig húsnæðismálin verði leyst... og framkvæma þá áætlun undanbragðalaust og án tafar, svo að allir Reykvíkingar geti á næstu missirum komizt í húsnæði, sem við verður unað.“ Hámarki sínu náði þessi herhvöt með áskorun, sem einn af frambjóðendum Framsfl. birti undir fullu nafni um tafarlausar róttækar aðgerðir. En hin nauðsynlega forsenda að öllum róttækum aðgerðum var svo að sjálfsögðu að kjósa Framsfl., þar var sjálfur hornsteinn þeirra bygginga, sem á næstu missirum áttu að risa handa húsnæðisleysingjunum.

Þetta var sem sagt fyrir kosningar í vetur, og það skal strax tekið fram, að lýsingar Tímans voru óvenjulega skorinorðar og sannar frásagnir um ömurlega þjóðfélagsmeinsemd. Og einmitt þess vegna voru þessi skrif svo alvarleg. Þau vöktu nýjar vonir hjá þúsundum manna, vonir um mannsæmandi lífskjör og uppeldisskilyrði þeirra barna, sem Tíminn sagði að hefðu bókstaflega verið dæmd til dauða af þjóðfélaginu.

En hverjar urðu svo hinar róttæku aðgerðir? Jú, þær hafa komið fram skref af skrefi. Þær hófust á því, að Framsfl. gerði bandalag við íhaldið um stórfelldustu árás, sem gerð hefur verið á lífskjör almennings, gengislækkunina. Hún bitnar harðast á því fólki, sem býr við bágust kjör, á þeim, sem áttu að heita skjólstæðingar Tímans fyrir örfáum mánuðum. Á hverjum einasta degi berast nýjar fréttir um verðhækkanir á brýnustu neyzluvörum, og af þeim er kolahækkunin, sem þó er aðeins rétt byrjuð, sérstök Framsóknarsending til braggabúanna, sem nú munu margir örvænta um að geta framvegis haldið kuldanum utan dyra.

En hinar róttæku aðgerðir Framsfl. hafa ekki aðeins verið almennar árásir á lífskjör Íslendinga, flokkurinn hefur einmitt haft sérstaka og sérstæða forustu í húsnæðismálunum hér á Alþingi. Um sama leyti og herferð Tímans stóð hvað hæst, fluttum við sósíalistar frv. hér á þingi um, að Lagakaflinn um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis tæki gildi á ný. Það eru framsóknarmenn, einmitt framsóknarmenn, sem nú hafa forustu um að berjast gegn því frv. og hindra samþykkt þess.

Við 2. umr. fjárlaga bárum við sósíalistar fram till. um takmarkað fjárframlag til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og enn sem fyrr höfðu framsóknarmenn forgöngu um að fela till., greiddu atkvæði gegn henni allir sem einn undir sérstakri forustu Reykjavíkurþingmannsins Rannveigar Þorsteinsdóttur.

Tillaga Framsóknar um stóríbúðaskatt, sem að vísu var furðulega klaufalega samin, en átti þó að vera tilraun til að bæta úr húsnæðisskortinum, hefur sofið svefninum langa síðan á kosningadaginn.

En þetta hrekkur ekki einu sinni til. Framsfl. hefur ekki aðeins haft forustu um andstöðuna gegn öllum aðgerðum til bóta, heldur hefur honum innan ríkisstj. verið falið að standa fyrir ofsóknum gegn húsnæðisleysingjum og leigjendum, og er það eflaust sérstök illkvittni íhaldsins við þessa þjóna sína. Það er auðsjáanlega ætlunin að samþ. á þessu þingi frv. framsóknarmanna um, að húsaleigulögin skuli felld úr gildi í áföngum á næstu tveimur árum, án þess að nokkrar aðrar aðgerðir séu framkvæmdar í staðinn. Vissulega fylgir húsaleigulögunum nú allmikið misrétti, en það er hégómi hjá því neyðarástandi, sem hlýtur að leiða af afnámi þeirra. Öll húsaleiga kemst á svartan markað, sem fjöldi láglaunamanna fær ekki undir risið og flæmist þannig frá heimilum sínum til vistar í því neyðarhúsnæði, sem Tíminn taldi verra, en verstu híbýlin fyrir hálfri annarri öld.

Ég spurði þingmenn Framsfl. að því fyrir nokkrum dögum, hvernig þeim hefði verið innanbrjósts, þegar þeir lásu lýsingar og áskoranir Tímans í vetur. Neru þeir aðeins saman höndum í hrifningu yfir þeirri snjöllu stjórnmálabrellu að gabba húsnæðisleysingjana til að snúast gegn brýnustu hagsmunum sínum, og er það aðeins aukreitis skemmtun að fella allar umbótatillögur með tilstyrk atkvæða frá húsnæðislausu fólki? Framsóknarþingmennirnir fengust ekki til að gefa neinar skýringar á sálarlífi sínu, enda segja staðreyndirnar sína ömurlegu sögu.

Þetta dæmi er aðeins örlítið brot úr mikilli sögu, sem á við þríflokkana alla. En því hef ég verið svo fjölorður um hlutverk hræsninnar í íslenzkum stjórnmálum, að hún er orðin furðu ríkur og hættulegur þáttur í valdabaráttu auðmannastéttarinnar og þjóna hennar. Án hennar og áhrifa hennar mundi vera öðruvísi umhorfs í íslenzku þjóðlífi. Ég hef ekki dvalizt lengi innan veggja þessa húss, en ég hef þó kynnzt eftirminnilega af eigin raun því hyldýpi, sem er staðfest milli verka afturhaldsflokkanna hér í þinginu og orða þeirra utan þings. Það skiptir engu, hversu augljós og frumstæð réttlætismál eru borin fram, afturhaldsfylkingin stendur fyrir sem samfelldur veggur. Í vetur hafa sósíalistar t.d. aftur og aftur reynt að knýja fram launauppbætur handa þeim, sem minnst hafa efnin, ellilaunafólki og öryrkjum, en árangurslaust, þríflokkarnir felldu það allir. Um tíma var því lofað, að endurskoðun tryggingalaganna skyldi framkvæmd og ellilaun og örorkubætur hækka til hálfs við uppbætur opinberra starfsmanna, en nú virðist einnig eiga að svíkja þau fyrirheit. Sömu sögu er að segja um togaravökulögin og yfirleitt um öll þau mál, sem dregið gætu örlítið úr sárasta sviða gengislækkunar og kreppu.

Það hefur aldrei verið nauðsynlegra en nú, að íslenzk alþýða fylgist með verkum afturhaldsleiðtoganna og láti ekki glepjast af orðum þeirra. Fram undan eru hörð og afdrifarík átök. Annars vegar er gjaldþrota auðstétt, sem hefur glatað allri trú á land og þjóð og kastað sér sem hreppsómaga fyrir fætur bandaríska auðvaldsins með efnahagslegt og stjórnarfarslegt fullveldi landsins. Hins vegar er íslenzk alþýða með trú á landið og auðæfi þess og þrek til að berjast fyrir framtíð sinni eins og jafnan fyrr. En baráttan mun mótast af því, hvort hræsnin á enn um sinn að geta ráðið úrslitum í íslenzku þjóðlífi.