11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

38. mál, fjárlög 1950

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins einstök atriði úr þeim umr., sem hér fóru fram í gærkvöld og svo aftur nú í kvöld, sem ég vil nefna fyrst. Hv. 8. landsk., Stefán Jóh. Stefánsson, lét svo um mælt í gærkvöld, að ummæli mín 14. marz í vetur, þegar núverandi ríkisstj. tók við, um vilja ríkisstj. til þess að hafa samstarf við stéttarfélögin og forustumenn þeirra, hefðu að engu haldi komið og enginn litur verið á því sýndur að hafa vinsamleg samskipti við stéttarsamtökin. — Ég vil algerlega mótmæla þessu. Ýmis ágreiningsatriði hafa komið fram, og gat stundum orkað tvímælis, hvernig með þau skyldi farið í sambandi við ýmis ákvæði í gengisskráningarlögunum. Þessi atriði öll voru rædd ýtarlega við fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, og var leitazt við af fremsta megni að ná samkomulagi, sem báðir gætu við unað, enda tókst það í ýmsum tilfellum.

Nú í dag hafa verið lögð fram á Alþ. tvö stjfrv., sem einmitt eru árangur þess samstarfs og samkomulags, sem einkennt hefur þessi samskipti. Hv. 8. landsk. þm., Stefán Jóh. Stefánsson, hefur einmitt nú í dag veitt báðum þessum frv. meðmæli sin, og sýnir það ljóslega, að þau ummæli voru ekki á rökum reist, er hann hafði hér í gærkvöld.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, hallmælti ríkisstj. hér mjög áðan fyrir að hafa stöðvað afgreiðslu frv. til l. um breyt. á tryggingalöggjöfinni, og taldi hann þetta litt skiljanlega framkomu,. — Hv. 4. þm. Reykv. veit það nú vel, að fjárhagur trygginganna er þannig, að þær geta engin ný útgjöld á sig tekið, nema með nýjum álögum á ríkissjóð, sveitarsjóði og almenning. Af þessum ástæðum er það, að ríkisstj. er mjög hikandi við að styðja framgang þessa frv. á þessu þingi, af því að það felur í sér stórfellda útgjaldahækkun, ekki aðeins fyrir ríkissjóð, heldur og fyrir sveitarsjóði og þá um leið fyrir allan almenning. Og það er nú svo komið, að margir sveitarsjóðir eru nú í svo miklum fjárhagsörðugleikum, að þeir eru orðnir stórskuldugir við Tryggingastofnunina. Og má vel geta þess, að nú er fyrir hönd nokkurra sveitarfélaga verið að leita samninga við Tryggingastofnun ríkisins um vangreidd framlög þeirra frá síðustu árum. Það liggur því nokkuð ljóst fyrir, að ekki er vænlegt nú að auka enn á þessi útgjöld, eins og komið er. Hins vegar skal ég taka fram, að ríkisstj. skilur mjög vel áhuga hv. 4. þm. Reykv., Haralds Guðmundssonar, forstjóra Tryggingastofnunarinnar, fyrir framgangi þessa frv., og hún viðurkennir, að hann sé öruggur og ágætur forstjóri þessarar merkilegu menningar- og tryggingastofnunar. Og það má segja, að það sé virðingarvent, að bóndi vilji heyja vel, eins og hv. 4. þm. Reykv. mun vilja í þessu sambandi. Og ég skal taka hér fram, að ef þetta frv. verður ekki afgr. á þessu þingi, sem nú situr, sem aðeins getur verið fáa daga enn þá, þá verður það að sjálfsögðu tekið til meðferðar á næsta Alþ. Og þá mun ríkisstj. að sjálfsögðu óska góðs samstarfs við hv. 4. þm. Reykv., forstjóra almannatrygginganna, og hafa hann með í ráðum um framgang málsins þá.

Andstæðingar stj., sérstaklega ræðumenn Alþfl., hafa beint ásökunum til Framsfl. um, að hann hafi ekki gætt þess að vinna að því að setja upp hliðarráðstafanir, sem flokkurinn hafi alltaf talið, að koma yrðu samhliða gengisfellingunni. Þessar ásakanir hafa ekki við nein rök að styðjast. Vil ég í því sambandi benda á eftirfarandi: Í gengisskráningarlögunum kom flokkurinn t.d. því til leiðar, að stóreignaskatturinn var hækkaður til stórra muna, að nokkur hluti hans gengur til íbúðarhúsabygginga í sveitum og þéttbýli, að gengishagnaður bankanna, sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að verði 16 milljónir a.m.k., gengur til ræktunarsjóðs að 1/3, til byggingarsjóðs að 1/3 og til verkamannabústaða og útrýmingar heilsuspillandi íbúða að 1/3. Sett hafa verið á Alþingi fyrir forgöngu flokksins lög um verðlagseftirlit og verðlagsdóm, sem leggja valdið í þessum efnum í hendur almennings. Þá hefur Framsfl. lagt fram frv. um að breyta lögum um húsaleigu til stórra bóta. Það frv. mun verða afgreidd, áður en þessu þingi lýkur, — í trássi við Alþfl. og sósíalista. Verzlunarfrv. Framsfl. hefur Alþfl. hins vegar enn á ný komið fyrir kattarnef í innilegu samstarfi við Sjálfstfl. og hefur því enn hindrað, að þetta réttlætismál alls almennings í landinu nái fram að ganga.

Stjórnarandstaðan hefur nú í þessum umr. látið alþjóð heyra, hvað hún hefur fram að færa gegn stefnu ríkisstj. og því, sem gert hefur verið til þess að reyna að bæta úr fjárhagsog atvinnulífsógöngum þeim, er þjóðin var og er stödd í. Það getur engum áheyranda hafa dulizt, að stjórnarandstæðingar hafa alls ekki getað bent á nein úrræði. Þeir hafa aðeins getað sagt: Þetta vildum við ekki. — En hvað þeir vildu, það vita þeir ekki, eða látast ekki vita. Hv. þm. Hafnf. var að vísu í kvöld með veika tilburði til að reyna að færa rök að því, að hægt hefði verið að fara niðurgreiðsluleiðina sem áður. En óhöndulega tókst honum slíkt, enda margbúið að sanna, að sú leið var alls ekki fær. Með góðgirni mætti helzt segja, að hjá hv. stjórnarandstæðingum hafi komið fram, að þeir hafi viljað biða og sjá, hvað setti, láta áfram undan síga. En hvers var að bíða? Því er fljótsvarað. Einskis nema hrunsins. Hrunið gat vitanlega verið æskilegt fyrir Sósfl., eða kommúnista hans, sem vilja þjóðlífið feigt. Hins vegar er afstaða Alþfl. óskiljanleg, laus við manndóm, og ég vil segja óafsakanleg. Formaður Alþfl. hafði í hartnær þrjú ár haft forsæti í ríkisstjórn, sem fékk svo bitra reynslu af örðugleik.um þeim, sem við er að stríða, að hún gafst upp fyrir þeim. Sigraðir menn hafa engan rétt til að látast ekki vita, hvað við er að etja. En víst er það, að almenningur vildi ekki, að beðið væri. Hann taldi, að ekki mætti lengur reka á reiðanum. Þetta kom greinilega fram í kosningunum s.l. haust. Þess vegna tapaði Alþfl. fylgi. Þess vegna jók Framsfl. einn allra flokka þingmannatölu sína. Hann þorði einn allra flokka að segja þjóðinni, að ekki væri lengur hægt að bíða með aðgerðir. Það hefur líka komið í ljós, að þjóðin yfirleitt hefur tekið rólega og með skilningi þeim ráðstöfunum, sem meiri hluti Alþingis og núverandi ríkisstj. hafa gert í viðréttingarskyni, þrátt fyrir áróður í blöðum stjórnarandstöðunnar og ræðum forkólfa kommúnista og Alþfl. Þetta eflir mjög vonir um, að þjóðin beri gæfu til þess, með sameinuðum átökum, að sigrast á örðugleikunum. Þjóðin var orðin þreytt á sundrunginni á Alþingi. Hún skildi það ekki, eins og vonlegt var, að þingið gæti ekki komið sér saman um myndun ríkisstjórnar og úrlausnir aðkallandi vandamála. Þessi ríkisstjórn tveggja stærstu flokka Alþingis, sem styðst við 36 þingmenn og hefur á bak við sig að flokkafylgi mjög mikinn meiri hluta þjóðarinnar, hún hefur leyst Alþingi undan ámæli þjóðarinnar um stórfellda sundrung og samtakaleysi. Ég skal engu spá, hvernig til kann að takast. En ég fullyrði, að það er vilji þeirra, er stjórnina styðja, að reyna að leysa hin mest aðkallandi vandamál þannig, að þjóðinni geti orðið fyrir beztu. Til þess þarf að sjálfsögðu ráðrúm. Það er fljótlegra að hrapa, en klífa brattann. Hér er sannarlega fjall í fang.

Þeir hæstv. ráðherrar, sem hafa talað í þessum umr., og þá sérstaklega hæstv. fjmrh., hafa drepið á nokkur verkefni, sem fyrir liggja. Um það vil ég aðeins segja þetta: Það þarf að undirbúa fjárlög, sem afgreidd geti orðið, svo sem vera ber, fyrir næstu áramót. Það verður að undirbúa þau þannig, að þau séu í samræmi við fjárhagsgetu þjóðarinnar. Það þarf að koma á sparnaði í ríkisrekstri, láta rannsaka, hvernig hægt er að gera starfskerfi ríkisins einfaldara, og breyta því þannig, að það sé ekki ofviða fyrir jafnfámennt og fátækt þjóðfélag og okkar er. Það þarf að endurskoða atvinnuhætti þjóðarinnar og beina atvinnuafli hennar að þeim verkefnum, sem efla hagsæld hennar, og þá fyrst og fremst að framleiðslunni. Ríkisstj. er ákveðin í því að taka þessi verkefni og mörg önnur til meðferðar og úrlausnar nú á næstu mánuðum. Þegar ríkisstj. hefur fengið hæfilegt ráðrúm til þess að sýna, hvað hún vill og getur í þessum efnum og fleirum þeim skyldum, þá er kominn tími til að kveða upp dóm yfir henni og meta þau samtök, er Framsfl. og Sjálfstfl. hafa nú hafið með sér.

Að lokum vil ég segja þetta: Þótt útlitið sé uggvænlegt, má aldrei gleyma þeim sannleik, að „sú þjóð, sem velt sitt hlutverk, er helgast afl um heim, jafnt hátt sem lágt má falla fyrir kraftinum þeim.“ Það helga afl á þjóðin, ef hún beitir því í krafti einingar sinnar og samtaka. — Ég þakka svo þeim, sem hlustað hafa á þessar umr., og óska öllum landsmönnum nær og fjær árs og friðar. Góða nótt.