11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

38. mál, fjárlög 1950

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 712, VI hef ég leyft mér að bera fram brtt. við fjárlagafrv. fyrir 1950, 15. gr. A. VII. 12. lið, um, að styrkur til amtsbókasafnsins í Stykkishólmi verði hækkaður úr 4.500 kr. upp í 10.000 kr. Ég vil benda hv. þm. á það, að undanfarið hefur amtsbókasafnið í Stykkishólmi aðeins fengið 4.500 kr., en á sama tíma hafa bókasöfnin á Akureyri, Ísafirði og í Hafnarfirði fengið 12.000 kr. Þegar tekið er tillit til þess, að fimm eða sex sýslufélög eiga rétt til bóka í safninu í Stykkishólmi, finnst mér full sanngirni mæla með, að það fái 10.000 kr. Ég skal geta þess, að sýslusjóður Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og hreppssjóður leggja fram tvöfalda þessa upphæð. Ég tel óþarfa að hafa um þetta mörg orð. Ég treysti því, að þm. telji þetta sanngjarnt og greiði till. atkv.

Á þskj. 720, III hef ég borið fram brtt. við 22. gr., liðinn VI, um að greiða Sigurði Birkis söngmálastjóra 15 þús. kr. byggingarstyrk. Þá till. tek ég aftur, því að hún kemur fram í nýrri mynd á þskj. 724, X. Ég vil eindregið mæla með því, að Sigurði Birkis söngmálastjóra verði veittur þessi styrkur. Hann hefur unnið mikið og gott starf í þágu þjóðkirkjunnar, — komið upp tugum kirkjukóra víðs vegar um landið, og starf hans er hvarvetna í dreifbýlinu mjög rómað. Slíkt ber að viðurkenna í verki, og ég leyfi mér að vænta þess, að hv. alþm. samþykki þessa till. um lítils háttar byggingarstyrk til hans.